Ekki greiða Íslandi atkvæði!

Þessi færsla er ekki um Eurovision söngvakeppnina.  Heldur þá hégómlegu ákvörðun íslenskra stjórnvalda að sækja um inngöngu í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

 

Ég hef verið eindregin talsmaður samstarfs og samvinnu ríkja heimsins á sem flestum sviðum og tel að ýmsar alþjóðlegar samþykktir séu ekki hvað síst mikilvægar fyrir fámenn ríki á borð við Ísland.  Jafnframt tel ég að Íslendingar hafi ýmistlegt fram að færa á meðal þjóða heimsins.  Við skulum ekki gleyma því að okkur hefur verið treyst fyrir alþjóðlegum verkefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna.  Nægir þar að nefna að tvær deildir Háskóla S.þ. eru starfræktar á Íslandi, Jarðhitaskólinn og Sjávarútvegsskólinn.

 

Öryggisráðið er hins vegar allt annar vettvangur heldur en sérfræðikennsla og þróunaraðstoð.  Mér finnst eiginlega að þeir sem fái sæti í öryggisráðinu þurfi að hafa sýnt fram á að þeir hafi eitthvað til málanna að leggja, t.d. að þeir eigi sér sögu um sjálfstæða utanríkisstefnu.  Því er ekki til að dreifa hjá okkur.  Íslensk utanríkisstefna hefur aldrei falist í neinu öðru en því að við höfum hagað okkur sem klappstýra bandarískra stjórnvalda og stutt þau án þess að hugleiða afleiðingar tiltækja þeirra.  Á þessu er ein undantekning, ekki má gleyma því að Jón Baldvin Hannibalsson sýndi, í sinni tíð sem utanríkisráðherra, gríðarlegt frumkvæði með stuðningi sínum við sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.  Að því slepptu hefur ekki verið til sjálfstæð íslensk utanríkisstefna.  Ég tel því afar brýnt að Íslendingar taki ekki sæti í öryggisráðinu.  Heimsbyggðin þarf ekki á því að halda að þeir sem sæti eiga í öryggisráðinu styðji gagnrýnslaust hver þau heimskupör sem bandarískum stjórnvöldum kemur til hugar. 

 

Á síðustu árum hafa íslensk stjórnvöld tekið upp stjórnmálasamband við fjölmörg smáríki.  Ég hef talið mig sæmilega að mér í landafræði en ég verð að játa að ég þurfti að grípa fram Times Atlasinn til þess að finna hvar í veröldinni marga hinna nýfengnu vini okkar væri að finna.  Á vef utanríkisráðuneytisins er að finna lista yfir 98 ríki sem Ísland hefur tekið upp stjórnmálasamband við eftir árið 1990.  Ég hef ekkert á móti því að Íslendingar líkt og aðrar þjóðir hafi með sér samstarf og samband.  En hin nýja vinsemd sem utanríkisráðuneytið hefur sýnt löndum, einkum smáríkjum, vítt og breytt um jarðarkringluna er vitaskuld ekki til komin vegna þess að stefnt sé að heimsmeti í stubbaknúsi. 

 

Hér að neðan er listi yfir þau ríki sem Ísland hefur tekið upp stjórnmálasamband við eftir árið 1990.  Í síðari dálkinum er ártalið þegar sambandið var tekið upp.  Þeir sem eru leiðir á netinu en fróðleiksfúsir ættu að ná í landabréfabók og reyna að finna löndin.

 

Þegar kemur að vali á fulltrúum í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er bón mín til hinna nýju vinaríkja einföld:

            Please, dont vote for Iceland! 
Afganistan

 

17.3.2004

Antígva og Barbúda11.3.2004
Armenía15.5.1997
Aserbaídsjan27.2.1998
Austur-Tímor4.12.2003
Belís
7.7.2004
Benín23.2.2005
Bosnía og Hersegóvína8.5.1996
Bólivía17.9.2004
Brúnei Darússalam27.4.2006
Búrkína Fasó23.10.2001
Búrúndí14.12.2006
Djíbútí
19.7.2005
Dóminíka29.6.2004
Dóminíska lýðveldið
23.6.2003
Eistland26.8.1991
Ekvador11.12.2003
El Salvador25.10.2000
Erítrea6.10.2004
Filippseyjar24.2.1999
Fílabeinsströndin14.10.2005
Gabon
27.5.2005
Gambía11.5.2004
Georgía21.9.1992
Gínea14.5.2004
Gínea-Bissá24.9.2004
Gvatemala5.8.1993
Gvæana10.3.2005
Haiti18.11.2005
Hondúras15.9.2004
Hvíta-Rússland25.5.2001
Jamaíka
24.5.2000
Jórdanía1990
Kambodía
19.6.2003
Kasakstan14.5.2004
Katar24.1.2002
Kirgisía2.4.2001
Kíribatí15.9.2005
Kongó15.12.2004
Kostaríka10.1.1997
Kómoraeyjar29.10.2004
Króatía30.6.1992
Kúveit26.4.1996
Laos
2.9.2004
Lettland26.8.1991
Liechtenstein1992
Litháen26.08..1991
Líbería28.11.2006
Líbía15.3.2004
Madagaskar
21.9.2006
Makedónía29.12.1993
Malasía1999
Malaví14.8.1998
Maldíveyjar30.1.1990
Malí23.7.2004
Malta3.7.1998
Marshalleyjar25.1.1993
Máritanía6.10.2004
Máritíus15.12.2003
Miðbaugs-Gínea10.9.2004
Míkrónesía27.9.2004
Moldóva1.6.1994
Mósambík5.3.1997
Namibía
10.12.1990
Narú17.2.2004
Óman26.2.1992
Palá
6.10.2004
Panama4.6.1999
Papúa Nýja Gínea
12.8.2004
Paragvæ17.3.2004
Rúanda12.5.2004
Sambía
23.7.2004
Sameinuðu arabísku furstadæmin17.9.2003
Samóa15.10.2004
Sankti Kristófer og Nevis5.5.2004
Sankti Lúsía17.5.2006
Sankti Vinsent og Grenadíneyjar27.5.2004
Senegal7.4.2004
Seychelleseyjar8.11.1990
Singapúr4.5.1999
Síerra Leóne13.11.2006
Slóvenía24.2.1992
Suður-Afríka31.5.1994
Súdan13.6.2003
Súrinam9.11.2004
Svartfjallaland26.9.2006
Svasíland3.12.1993
Sýrland6.5.2004
Tadsjikistan
14.2.2006
Tógó19.11.2004
Tsjad14.4.2004
Túrkmenistan13.2.1997
Túvalú26.7.2005
Úganda
2000
Úkraína30.3.1992
Úrúgvæ18.6.1991
Úsbekistan25.9.1997
Vanúatú27.9.2004
 

Burt með rykið - 5. tillaga

Vorhreingerningin

Öllum stofnunum og fyrirtækjum verði skylt að þrífa lóðir sínar á hverju vori (fyrir 1. júní) og huga sérstaklega að og uppræta hvað það sem kann að verða uppspretta ryks.  Fyrirtæki og stofnanir eru almennt dugleg að hreinsa snjó af bílastæðum og gangstéttum nokkrum sinnum á hverjum vetri og því er það varla stórmál að senda mannskapinn út með strákústa eða leigja götusóp til að vinna verkið.  Það er fáránlegt að horfa upp á sömu sandskaflana í áraraðir inn á lóðum fyrirtækja án þess að nokkur lyfti litlafingri til að fjarlægja þá.

Viðbótarávinningur:  Hið augljósa er, að allt umhverfi fyrirtækja og stofnana verður fallegra og rykuppsprettum fækkar.

Annmarkar:  Ríkið og sveitarfélögin verða að sýna frumkvæði en ef hvatning dugar ekki til að hreyfa við fyrirtækjum þá er vandséð að lagaheimildir til afskipta séu fyrir hendi.  Þetta gæti einnig kostað eftirlit.  E.t.v. er nauðsynlegt fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að setja um þetta sérstakar samþykktir.


Burt með rykið - 4. tillaga

Mengunarbótareglan

 

Hver sá sem ekur á negldum dekkjum þarf að greiða fyrir það kr. 2.000 á mánuði.  Þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins munu eiga þess kost að kaupa sér dagmiða á 100 kr.  Við sem þurfum að greiða fúlgur fjár fyrir asmalyf vegna mengunar eigum ekki að þurfa að borga þennan fórnarkostnað.  Mengunarbótarreglan leggur greiðsluskylduna á þann sem mengar.

 

Viðbótarávinningur:  Sveitarfélögin fá upp í þann kostnað sem endurnýjun malbiksins kostar þau (í Reykjavík nemur slitið á götunum fleiri þúsund tonnum á ári).  En gjaldtakan mun jafnframt draga úr notkun nagladekkja þar sem margir munu alfarið láta af henni en þeir sem telja sig nauðsynlega þurfa að nota nagla greiða fyrir hið aukna slit á götunum sem negldir valda umfram óneglda.  Naglþenkjandi munu draga það í lengstu lög að skipta á haustin en væntanlega vera sneggri að sumra bílinn á vorinn.

 Annmarkar:  Líklega þarf að skoða lagaheimild til slíkrar gjaldtöku (og einnig viðurlögum við óhlýðni) og sennilega verða sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að hafa með sér samráð um slíka ráðstöfun.  Bíleigendur kvarta sáran yfir margvíslegri gjaldtöku og skattheimtu og munu margir taka þessu gjaldi illa.

Burt með rykið - tillögur 2 & 3

Tillaga nr. 2  Breytt hönnun gatna

Við endurnýjun allra stofnbrauta á höfuðborgarsvæðinu verði þeim breytt þannig að í kverkinni þar sem gata og kantur mætast verði settar samfelldar rennur eða stokkar með sterkum ristum yfir.  Rennurnar væru um 20 cm breiðar og álíka djúpar og yrðu alveg samfelldar og niðurfall frá þeim yrðu tengd við ofanvatnskerfi borgarinnar líkt og nú er með nokkra tuga metra millibili.  Mestur hluti ryksins á götunni myndi skolast niður í stað þess að safnast í kverkina milli götu og gangstéttarbrúnar.  

Viðbótarávinningur:  Göturnar myndu með auðveldari hætti losa sig við vatn en það dregur úr sliti á þeim.  Ekki síst þegar asahláka er með tilheyrandi tjörnum á götunum.  Þess utan væri mun auðveldara að smúla göturnar með hreinu eða söltu vatni, þar sem það rynni greiðlega niður í stokkana og eftir þeim í niðurföllin.  Nauðsynlegt er að þvo göturnar með vatni til að losna við fínasta rykið.

Annmarkar:  Þetta er vitaskuld dýrt og tímafrekt.  Ég hef hins vegar ekki reynt að slá á kostnaðinn þar sem ég hef ekki forsendur til þess.  Þess utan þarf að hanna rennurnar með þeim hætti að unnt verði að hreinsa úr þeim á nokkra ára fresti þann sand og ryk sem safnast fyrir í þeim.

Tillaga nr. 3  Þvottur gatna

Götur með kverkrennum yrðu þvegnar þegar aðal svifrykstíminn er, þ.e. yfir köldustu og dimmustu vetrarmánuðina.  Hitafar réði því hvort eingöngu yrði notast við hreint vatn eða saltpækil með natríum-, kalsíum- eða magnesíumklóríði eins og nú er verið að reyna.

Viðbótarávinningur:  Hreinni bílar.

Annmarkar:  Ekkert er ókeypis.  Athuga þarf hvort pæklarnir hafi einhver áhrif á ryðmyndun eða tæringu bíla umfram það sem nú er.  Ég vil samt benda á að það er misskilningur að það sé samhengi á milli saltstyrks í svifryki og saltnotkunar við hálkuvarnir.


My name is Al Gore...

... and I’m the former next President of the United States of America.  Þannig hefst myndin “Unconvenient Truth” sem sýnd var í Háskolabíói í dag.  Samfylkingin bauð í bíó og ég, ásamt tvö til þrjú hundruð öðrum, þáði boðið.  Myndin er firnagóð.  Í henni flytur Al Gore myndskreyttan fyrirlestur um loftslagsbreytingar með margvíslegum innslögum um einkalíf sitt.  Þegar Gore bauð sig fram til forseta þá fannst mér hann hafa afar lítinn kjörþokka og vera í stuttu máli, - hundleiðinlegur.  En eins og sjá má af upphafsorðum þessa pistils þá hefur Gore húmor fyrir sjálfum sér og því mótlæti sem hann hefur mátt þola.  Og þeim húmor fylgir hann út í gegnum myndina þrátt fyrir að vera mikið niðri fyrir og styðja mál sitt fræðilegum og myndrænum gögnum.  Álit mitt á Gore breyttist eftir að hafa séð þessa mynd.  Hann er snjall, ærlegur og með ágætis húmor.

 

Almennt hef ég aldrei litið á svartar skýrslur vísindasamfélagsins um loftslagsbreytingar sem dómsdagsspár.  Fyrir mér hafa þær verið alvarlegar ábendingar um að það sé stórt verkefni sem bíði heimsbyggðarinnar allrar að takast á við.  En á leiðinni út úr Háskólabíói fór ég að velta því fyrir mér hvað það er í hlýnandi lofthjúp sem ég óttast helst.  Þegar ég velti fyrir mér þeim breytingum sem kunna að verða á jörðinni vegna breytinga á loftslagi þá er tvennt sem ég óttast helst í okkar umhverfi við norðanvert Atlantshaf.  Hið fyrsta er lífríki hafsins í kringum Ísland.  Ég geri mér grein fyrir því að hinar frumstæðustu lífverur hafsins hafa eðli málsins samkvæmt fremur lítinn möguleika á því að aðlagast breyttum aðstæðum.  Þær eru það einfaldar að gerð að aðlögunarhæfni þeirra er mjög takmörkuð.  En vitandi það að nytjastofnarnir í kringum landið eiga sitt undir hinum frumstæðari lífverum, það gerir mig pínu óttasleginn.  Hitt atriðið eru hugsanlegar breytingar á hafstraumum.  Núna berst upp að landinu hlýr og saltur sjór að sunnan.  Þar mætir honum kaldur, minna saltur sjór, sem á uppruna í bráðnun íss norðan við okkur.  En þessi sjór sem er minna saltur liggur sem létt breiða á yfirborði en salti sjórinn úr suðrinu hverfur niður undir þann létta og heldur síðan sem kaldur botnstraumur til suðurs.  Hvað gerist ef lítill eða enginn ís er til að bráðna og þar með sökkva salta sjónum til botns?  Ég hef ekki hugmynd, en ég ímynda mér að það hljóti að vera mjög erfitt að sjá það fyrir.

 

Þrátt fyrir áhyggjuefnin sem ég taldi að ofan þá er ég sem fyrr þeirrar skoðunar að loftslagsbreytingar eru stórt verkefni til að leysa en ekki spádómur um ragnarrök.


Virðing, ávörp, titlar og tittlingaskítur

Sú var tíðin að tiltölulega fáir Íslendingar höfðu lokið doktorsprófi.  En í hópi þeirra voru tveir heiðursmenn sem gegndu virðingarembættum í landinu.  Annar þeirra, Kristján Eldjárn, var forseti Íslands árin 1968-1980 en hinn, Sigurbjörn Einarsson, var biskup Íslands á árunum 1959-1981.  Þegar þessir heiðursmenn voru nefndi á nafn í útvarpinu þá var það ekki gert öðru vísi en doktors nafnbótin var tiltekin áður en nafn þeirra var nefnt.  Nú er öldin önnur.  Titlar eru að mestu leyti á bak og burt og ég veit ekki til þess að nokkur maður sakni þeirra.  Þó hanga titlar og ávörp enn á nokkrum starfsheitum, en í þeim tíðaranda sem nú er þá eru þessir titlar fremur broslegir.  Sum ávörpin finnast mér hálf skrítin.  Því til stuðnings bendi ég á að prestar bera enn “séra” ávarpið framan við nafn sitt, en ef þeir ná frekari vegtyllum í starfi þá hverfur það og þess í stað kemur “herra”.  Þannig er ekki lengur talað um biskupinn séra Karl Sigurbjörnsson heldur herra Karl Sigurbjörnsson.  Ég botna ekkert í þessu ávarpi og velti því fyrir mér hvernig málum væri háttað ef biskupinn væri kona.  Færi ávarpið þá eftir hjúskaparstöðu viðkomandi.  Myndum við tala um fröken eða frú Önnu Jónsdóttur.

 

Húsbóndinn á Bessastöðum hefur lokið doktorsprófi en aldrei minnist ég þess að hafa heyrt hann ávarpaðan sem doktor Ólaf Ragnar Grímsson.  Hins vegar var hann ávarpaður sem “herra” fyrstu árin í embætti en á síðari árum hefur því verið sleppt.

 

Á Alþingi gildir mikið ritúal þegar menn tjá sig úr pontunni.  Ráðherrar skulu ávarpaðir sem hæstvirtir, alþingismenn sem háttvirtir og forseti þingsins er ávarpaður sem hæstvirtur en á síðari árum hafa menn komist upp með að ávarpa forseta þingsins sem herra eða frú eftir kynferði þess sem stýrir þingfundi.  Virðingarhugtakið hefur stundum verið mér hugleikið.  Ég hef verið þeirrar skoðunar að það væri fáránlegt að bera virðingu fyrir embættum einum og sér.  Allir geta áunnið sér virðingu, en að öllu jöfnu tekur það langan tíma og það eru manneskjurnar sem gegna störfunum sem hlotnast virðing en ekki embættin ein og sér sem kalla eftir virðingu.

 

Tilefni þessarra sundurlausu hugrenninga er umslag utan af fermingarkorti sem ég fann neðst í skrifborðsskúffu.  Kortið fékk ég 2. apríl 1978 frá ömmusystur minni.  Ég man að ég var móðgaður þegar ég sá utanáskriftina en í dag kallar hún fram brosviprur og skemmtilegar minningar um frænku sem ég bar mikla virðingu fyrir.  En utan á umslaginu stendur:

 

Herra ungsveinn Sigurður Ásbjörnsson fermingarbarn.


Hvað gerir sveitarstjórnin nú?

Í dag var haldinn fundur um virkjanir í neðri hluta Þjórsár sem sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps stóð fyrir.  Á fundinum var ágæt mæting en mér taldist að fundarmenn væru rúmlega 100.

Framsögumenn á fundinum voru þeir Þorsteinn Hilmarsson upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar,  Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar og Ólafur Arnalds prófessor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.  Fjórði framsögumaðurinn, Illugi Gunnarsson hagfræðingur og stjórnarmaður í Landsvirkjun komst ekki vegna flensu.  Flensan og aðrar umrenningspestir sem hrjá landsmenn um þessar mundir eiga vafalítið sinn þátt í því að mun færri komu til þessa fundar heldur en mótmælafundarins sem haldinn var á sama stað fyrir skömmu.

Framsögumenn stóðu sig ágætlega fyrir utan það að erindi þeirra voru allt of löng.  Ég hef státað af samkvæmisblöðru en ég þurfti að tæma tvisvar bara á meðan á framsögum stóð.  Fátt kom á óvart hjá Bergi og Þorsteini enda er afstaða þeirra til virkjana, eðli málsins samkvæmt, afar ólík.  Ég missti af upphafinu á framsögu Ólafs, en þegar ég kom inn þá heyrði ég að hann var að fjalla um vanda manna og stofnana að tjá sig um einstök verkefni.  Ég hafði það á tilfinningunni að Ólaf langaði til að segja eitthvað á fundinum sem hann teldi vafasamt að prófessor við ríkisháskóla gerði. 

Ýmislegt var merkilegt við þessa samkomu.  Enginn heimamaður mælti fyrir þeim tillögum sem felast í breytingartillögunum við aðalskipulagsið.  Fundurinn er haldinn þegar kynningartími vegna skipulagsbreytinganna er runninn út (hann rann út 1. mars sl.).  Um 20 manns úr salnum tóku til máls og báru fram fyrirspurnir eða komu með athugasemdir við áformin um virkjanirnar.  Allir sem tóku til máls (sem flestir eða allir eru ábúendur eða bústaðaeigendur í hreppnum) voru mjög gagnrýnir eða afdráttarlaust andvígir fyrirhuguðum virkjunum.

Eftir að hafa setið þennan fund, sem og fund yfirlýstra andstæðinga fyrir skömmu, þá get ég ekki merkt að framkvæmdirnar eigi marga fylgismenn í hreppnum.  Þá getur oddvitinn ekki komist upp með að halda því fram að á þessum fundi hafi verið tómir mótmælendur "að sunnan".  Ég bíð eftir því að sjá hvernig sveitarstjórn metur vilja íbúanna að loknum þessum fundi sem og þeim 85 athugasemdum sem mér skilst að hafi borist við fyrirliggjandi skipulagstillögur.  Sjálf á sveitarstjórnin eftir að greina frá þeim hag sem íbúarnir muni hafa af fyrirhuguðum virkjunum.  Ég hef ekki komið auga á þann ábata.


Burt með rykið - 1. tillaga

Breyttar áherslur við skipulag þéttbýlisins

 

Unnið verði markvisst að því að þétta borgina til að draga úr þörfinni fyrir akstur.  Fjölgað verði sérstökum akreinum fyrir almenningsvagna meðfram öllum umferðarmestu stofnbrautunum.  Stofnbrautarkerfi hjólandi meðfram bílabrautunum verði komið á skipulag og jafnt og þétt unnið að uppbyggingu þeirra (athuga ætti hvort létt bifhjól < 50 cc mættu nota slíka stíga).

Viðbótarávinningur:  Í þéttri byggð er markaðslegur grundvöllur fyrir rekstri verslunar og þjónustu í göngufæri fyrir íbúa (gildir þá einu hvort um er að ræða opinberan- eða einkarekstur eða hærra þjónustustig almenningssamgangna).  Ef allt höfuðborgarsvæðið væri byggt eins og Arnarnesið í Garðabæ þá þyrftu allir alltaf að fara akandi hvert einasta viðvik.  Strætó yrði betri valkostur með forgangsakreinum sem gerðu það að verkum að hann færi hraðar en einkabílar í biðröð.  Hjólreiðar yrðu öruggari með sérstökum leiðum ætluðum reiðhjólum og því raunhæfur valkostur fyrir fleiri en bara þá últramaraþonkappa sem nú nota hjólið.  Auk þess má benda á að ef dregið er úr rykmengun með því að minnka þörfina fyrir akstur þá er jafnframt verið að draga úr styrk annarra mengunarefna, s.s. köfnunarefnisoxíðum, brennisteinsdíoxíði og koldíoxíði.

Annmarkar við tillöguna:  Tillagan tekur langan tíma áður en hún fer að skila einhverjum árangri.  Auk þess sem þétting byggðar er vitaskuld ekki ósk allra.  Hins vegar bendi ég á að þeim fjölgar sem eru þokkalega stæðir og kjósa að búa í vandaðri íbúð í fjölbýli og eyða frítíma sínum í sumarbústöðum eða jafnvel erlendis fremur en að stunda garðyrkju með stórum garði í einbýlishúsi sem er dýrt í rekstri.  Ef þeim fjölgar sem nota reiðhjól eða strætó þá minnkar þörfin fyrir umferðarmannvirki sem einkabíllinn kallar eftir.

Ég held að þessi hugmynd sé í all góðu samræmi við athugasemdir "Halla gamla" við síðustu færslu.


Rykfallnir bloggarar

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur tók sig til á sunnudaginn og spáði því að svifryksmengun yrði ofan heilsufarsmarka á mánudaginn.  Einar hefur eins og við vitum fengist við veðurspár í mörg ár og það kom því ekki á óvart að þessi spá hans gengi eftir, enda þekkir Einar þau veðurskilyrði sem líkleg eru til að skapa verstu skilyrðin fyrir svifrykið.  Mér finnst reyndar að eftirlitsaðilarnir ættu að reyna að koma á samstarfi við Veðurstofuna um að gefa út slíkar viðvaranir fyrirfram.  Það hlýtur að vera hið minnsta mál að samkeyra gömul mæligildi og veðurfarsupplýsingar, hafi það ekki verið gert nú þegar.  Ég er t.a.m. mjög hissa að engin viðvörun hafi verið gefin út fyrir gamlárskvöld.  Ástandið sem var þá var mjög auðvelt að sjá fyrir.  En bloggarar sem og aðrir miðlar hafa fjallað mikið um svifrykið eftir að Einar setti fram sína spá sem mælingarnar staðfestu daginn eftir.  Ég hef reynt að lesa þessar greinar á Moggablogginu en í þeim kennir margra grasa.

 

Framsóknarmaðurinn Sveinn Hjörtur lýsir framlagi sínu til minni mengunar með því að aka ónegldur.   

Kristinn Pétursson efaðist um réttmæti þess að hvetja til hjólreiða í rykinu.  Birna M  velti því fyrir sér hvort rykið væri að leggjast á heilsu sína og ætti sök á lasleika sínum.  Svanur Guðmundsson skammast út í borgaryfirvöld fyrir að nota ekki sópana meira en raun ber vitni.  Þrymur Sveinsson fagnar nýjum græjum til að binda rykið og stefnir á göngutúr í þéttbýlinu áður en langt um líður.  En Heimir L. Fjeldsted  úffar á tiltækið.  Karli Gauta Hjaltasyni er brugðið við þau tíðindi að við skulum þurfa að glíma við slíkan vanda hérlendis.  Lára Stefánsdóttir á Akureyri hvetur höfuðborgarbúa til að fylgja fordæmi Akureyringa og gera stórátak í almenningssamgöngum.  Eyþór Arnalds telur að útblástur bifreiða hafi óveruleg áhrif og vitnar í skýrslu á vef Vegagerðarinnar máli sínu til stuðnings.  Guðrún Birna Kjartansdóttir flýr í húsdýragarðinn.  Morten Lange hefur mun meiri áhygggjur af því sem berst út um púströr bílanna heldur en það sem naglarnir rífa upp.  Ingibjörg Elsa hafði fyrir skömmu skrifað um áhrif svifryksins á blogginu sínuJóhanna Fríða Dalkvist leggur til að það verði frítt í strætó þegar útlit er fyrir svona mengunarpúlsa.

 

Dofri Hermannsson náði að gera mig spenntan þegar hann lýsti því yfir á bloggsíðu sinni að fulltrúar Samfylkingarinnar hygðust leggja fram tvær tillögur á fundi Umhverfisráðs Reykjavíkur sl. mánudag, önnur var um svifryk og hin um nagladekk.  Sama morgun birtist síðan grein eftir Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur í Fréttablaðinu sem ber heitið Nagladekk, svifryk og börn.  Mér fannst af grein Þorbjargar Helgu að hún teldi brýnt að aðhafast eitthvað til að draga úr rykmenguninni.  Þar sem ég veit að Þorbjörg Helga og Dofri eru bæði fulltrúar í Umhverfisráði Reykjavíkur þá var ég nokkuð bjartsýnn á það að svifrykið hefði lent á dagskrá síðar á mánudaginn og vonaði að samstaða hefði náðst um einhver úrræði.  Þau hafa enn ekki náð að slökkva vonarneistann sem kviknaði í brjósti mínu því á mánudagskvöldið upplýsir Dofri á blogginu að vel hafi verið tekið í tillögur Samfylkingarinnar annarri hafi verið frestað en hin fengist samþykkt samhljóða eftir nokkrar umræður og breytingar.  Hin samhljóða samþykkt hljóðar svo samkvæmt Dofrabloggi:

Umhverfisráð samþykkir að fela sérfræðingum sínum á umhverfissviði að gera tillögur að frekari aðgerðum til að draga úr svifryksmengun í borginni. Tillögunum verði skilað á sérstökum fundi Umhverfisráðs að viku liðinni.

Svifrykið hefur verið mér hugleikið um nokkra hríð af ýmsum ástæðum.  Ég ætla því að leggja slatta af tillögum fram á blogginu mínu um margvíslegar aðgerðir til að draga úr svifryki á höfuðborgarsvæðinu.  Öllum tillögunum fylgja athugasemdir um annmarka og þann viðbótarávinning sem fæst með viðkomandi tillögu.  Tillögurnar munu birtast hér á næstu dögum.  Sumt af því sem þar er að finna eru gamlar og þekktar aðferðir aðrar nýjar og sumt er útfærsla á því sem bloggarar hafa lagt til málanna.


Bjarnargreiði Framsóknar

Ef ég man rétt þá á hugtakið bjarnargreiði sér uppruna í gamalli sögu. Í sögunni segir af manni sem bjargaði lífi bjarnar en eftir það hændist björnin að húsbónda sínum og vildi allt fyrir hann gera. Einhverju sinni gerðist það þegar maðurinn var sofandi að björninn tekur eftir því að flugur sveimuðu allt í kringum höfuð mannsins. Björninn var staðráðinn í því að koma í veg fyrir að flugurnar ónáðuðu húsbóndann og hóf því hramminn á loft og lét vaða á flugurnar. En ekki vildi betur til en svo að björninn drap manninn.

Svipaðan greiða og björninn í sögunni að ofan hefur félagsmálaráðherra Framsóknar gert íbúðarkaupendum með stefnu sinni á síðustu misserum. En eins og einhverjir muna þá var það aðal kosningaloforð Framsóknarmanna fyrir síðustu Alþingiskosningar að húsnæðislán skyldu hækkuð í 90%. Afleiðingarnar urðu líkt og flestir þekkja þær helstar að húsnæðisverð snarhækkaði í verði. Af hærra húsnæðisverði leiddu síðan fleiri breytingar s.s. skuldir heimilanna snarhækkuðu. Jafnfram uxu eignir manna umtalsvert vegna hærra fasteignamats, en ekki þó með þeim afleiðingum að afkoman batnaði, heldur gerðist það þvert á móti að skyndilega urðu bókfærðar eignir (þ.e. húsnæðið) það verðmikið samkvæmt fasteignamati að fólk fékk engar vaxtabætur sem hafði engu að síður verið forsendur margra við afborgunar og afkomuútreikninga við íbúðarskipti.

Á mínu heimili voru heildartekjur okkar hjónanna um 500.000 kr lægri árið 2005 en þær voru árið 2004 en á sama tíma hafði fasteignamatið á íbúðinni hækkað um 30-40 %. Við erum því samkvæmt hinu opinbera bókhaldi ríkari en áður en áætlun okkar um endurnýjun á því sem þarf að lagfæra (þakið er illa einangrað, það blæs og lekur með útidyrunum ofl.) er gjörsamlega hrunin. Afkoma okkar “millanna” er því lakari en áður.

Ég hefði ráðlagt stjórnvöldum að standa öðru vísi að verki en þau hafa kosið. Þannig hefði ekkert verið að því að bjóða þeim sem væru að kaupa sína fyrstu íbúð 90% lán. En hinir sem væru að skipta um húsnæði ættu kost á því að lánshlutfallið væri 60-70%.

Ástæða þess að ég rifja þetta upp er sú að nú er enn á ný búið að hækka lánshlutfallið upp í 90 % en það hafði verið lækkað á síðastliðnu ári í þeim tilgangi að slá á þensluna. En dapurlegt þykir mér að horfa upp á það að Framsóknarmenn eru enn við sama heygarðshornið. Það er engum greiði gerður með þessu tiltæki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband