Stelpurnar í fótboltanum!

Að ýmsu leyti hefur mér fundist að afrekskonur í íþróttum væru um margt betri fyrirmyndir ungmenna en afrekskarlar.  Ég leyfi mér að nefna sérstaklega Mörtu Ernstdóttur langhlaupara, Guðrúnu Arnardóttur í 400 m grind, Völu og Þóreyju Eddu í stangarstökki og Margréti Láru í fótboltanum.  (Sorrý, Jón Arnar, Eiður Smári og Örn Arnarsson en það vantar eitthvað á karakterinn hjá ykkur til að ég geti sett ykkur á stall með stelpunum að ofan.)

Ég hef gaman af fótbolta og fjölmörgum öðrum íþróttum.  Sú var tíðin að ég æfði handbolta, fótbolta, körfubolta, frjálsar og glímu.  En hin síðari ár hefur lítið farið fyrir skipulagðri íþróttaiðkun fyrir utan það að ég tek mínar tarnir í ræktinni.  Engu að síður þá er áhuginn á íþróttum enn til staðar.  Uppáhaldið eru frjálsar og fótbolti.  Sonur minn hefur síðustu tvö árin æft fótbolta með Val og við feðgarnir höfum farið á völlin til að fylgjast með því hvernig Völsurum gangi í meistaraflokki.  Síðastliðið sumar fórum við á 4 leiki hjá mfl. karla og 3 hjá mfl. kvenna.  Við reyndum að sjá fjóra leiki hjá Valsstelpunum en 4. leikurinn var lokaleikur Íslandsmótsins sem aldrei fór fram.

Daginn sem lokaumferðin á Íslandsmótinu í knattspyrnu kvenna fór fram varð ég afar vonsvikinn vegna framkomu KSÍ.  Fyrir það fyrsta var eingöngu eitt lið á vellinum, Valur.  En þess utan var enginn frá KSÍ til að afhenda þeim verðlaunin.  Það fauk svo í mig að þegar ég kom heim af vellinum sendi ég tölvupóst á stjórnarmenn Knattspyrnusambandsins.  Efni póstsins er hér:

Til aðal- og varamanna í stjórn KSÍ 

Ég get ekki orða bundist eftir atburði dagsins.  Síðasta umferð í Íslandsmótinu í knattspyrnu kvenna og það vantar liðið sem á að etja kappi við verðandi Íslandsmeistara!  Það var vitað 30 mínútum fyrir leik að einungis 6 leikmenn kvennaliðs FH voru mættir og að leikurinn yrði ekki spilaður.Af hverju þurftu Valsstúlkur að bíða í heilan klukkutíma eftir að fá Íslandsbikarinn afhentan?  Er það almennt til siðs hjá KSÍ að senda fulltrúa sinn þegar 5 mínútur eru eftir af leiknum til að afhenda verðlaun í síðasta leik Íslandsmótsins?  Hvernig ætlar KSÍ að refsa FH-ingum fyrir lítilsvirðinguna sem þær sýna íþróttinni?  Þó svo að nú um stundir sé Íslandsmót kvenna í raun bara tveggja liða deild þá gildir það um ýmsar karladeildir í Evrópu og skráðum liðum ber að mæta í leiki.  

Hetjur dagsins eru:

Valsstúlkur og

þær FH-stúlkur sem komu til að spila og höfðu metnað til að standa sína plikt þrátt fyrir að örlög liðsins (fall um deild) væru ráðin.   

Skussar dagsins eru:

Restin af FH liðinu sem ekki mætti til leiks og

KNATTSPYRNUSAMBAND ÍSLANDS!

 

Framundan mun vera ársþing Knattspyrnusambands Íslands laugardaginn 10. febrúar nk.  Fram hefur komið að þrír hafa gefið kost á sér til formennsku.  Geir Þorsteinsson hefur starfað sem framkvæmdastjóri KSÍ og unnið náið með fráfarandi formanni.  Ég minnist þess ekki að hafa heyrt eða séð neitt um áherslur Geirs en flestir líta á hann sem framhald af núverandi stjórn.  Einnig hefur Jafet Ólafsson, viðskiptamógúll gefið kost á sér í formennsku.  Jafet var eitt sinn formaður Batmintonsambandsins og hefur lagt áherslu á tengsl KSÍ við knattspyrnufélögin í landinu.  Þá ber að geta Höllu Gunnarsdóttur sem hefur í senn minnt á stöðu kvenna í boltanum og ekki síður á aðstöðuleysi fámennra félaga á landsbyggðinni. 

Ég get ekki annað en dáðst að framboði Höllu og tel að hún hafi nú þegar haft áhrif til hins betra innan KSÍ, a.m.k. er búið að sjá til þess að landsliðsmenn fái sömu dagpeninga óháð kynferði.  En KSÍ verður að gera betur.  Ég vil benda á að íslenska kvennalandsliðið er í 21. sæti á heimslista FIFA en karlaliðið okkar er í 93. sæti.  Fyrir frammistöðu sína finnst mér að stelpurnar eigi mikið inni hjá KSÍ og vona að nýr formaður, hver sem annars velst í það embætti geri sér grein fyrir því.

 

Að síðustu vil ég hvetja knattspyrnuáhugamenn til að mæta á leiki í kvennaboltanum í sumar.  Ég hef rökstuddan grun um að efsta deild kvenna verði ekki bara tveggja turna einvígi milli Vals og Breiðabliks.

 

Sigurður Ásbjörnsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Mjög áhugaverð skrif hjá þér. Hef gaman að fótbolta og sé því miður allt of sjaldan kvennafótbolta (bý við hliðina á fótboltavellinum á Akranesi en þar ríkir er ekkert kvennalið, því miður 

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 5.2.2007 kl. 10:17

2 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

ætlaði að skrifa ríkir karlremba ... hehehehhe, en hætti við það, þess vegna er setningin svona asnaleg hjá mér

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 5.2.2007 kl. 10:18

3 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Þetta er áhugavert. Gaman að þvi hve margar góðar íþróttakonur við eigum. Hlakka til að líta inn hér. Velkominn í bloggvinahópinn

Jórunn Sigurbergsdóttir , 5.2.2007 kl. 17:01

4 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Ég er sammála þér í því hversu litla virðingu konum er sýnd í boltaíþróttum. Fyrir mörgum árum spilaði ég með Þór á Akureyri og við fengum aldrei að æfa á grasvellinum nema ekkert annað lið þyrfti á því að halda. Við vorum í meistaradeild kvenna og gátum ekki æft á grasi ef sjötti flokkur karla þurfti á því að halda.

Þetta var gjörólíkt á skíðunum en ég leyfi mér að segja að konum í skíðaíþróttinni hefur alltaf verið sýndur sami sómi og strákunum. Ég æfði í tíu ár og sá aldrei óréttlæti eftir kynjum. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 5.2.2007 kl. 17:47

5 Smámynd: Sigrún Friðriksdóttir

Velkominn í vina hópinn !! Flott grein hjá þér

Kær kveðja Sigrún, 

Sigrún Friðriksdóttir, 5.2.2007 kl. 20:23

6 Smámynd: Solla Guðjóns

Athyglisverð grein,kvennaboltinn hefur alltaf átt undir högg að sækja hjá fjölmiðlunum,er samt að skána í seinni tíð.....

Velkominn í hópinn....Kv.Sólveig Guðjóns.

Solla Guðjóns, 5.2.2007 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband