24.2.2007 | 15:42
Hvað er í matinn?
Fyrir tæpum 20 árum opnaði Jóhannes Jónsson litla matvöruverslun í iðnaðarhverfinu neðan Vogahverfis í Reykjavík. Verslunin, Bónus, var mjög hrá að innan og minnti fremur á vörulager heldur en verslun. Augljóslega var ekki miklu kostað til. T.a.m. var vörunum ekki raðað úr kössunum upp í hillur heldur voru kassarnir skornir á hlið og viðskiptavinir sáu sjálfir um að taka vörur úr kössunum og beint í innkaupakörfurnar. Verslunin einkenndist af litlu framboði vörutegunda og allt var ódýrara en í öðrum matvöruverslunum, meira að segja mjólkurvörur voru seldar með afslætti. Verslunin varð strax vinsæl og ekki að ástæðulausu. Helgarinnkaupin hjá okkur hjónunum voru um 1.000 kr ódýrari í samanburði við fyrri innkaup og því ljóst að með vikulegri heimsókn í þessa búð þá nutum við umtalsverðs ávinnings. Hins vegar urðum við að sætta okkur við að fara einnig í aðrar verslanir þar sem ekki reyndist unnt að fá allt til heimilisins í Bónus. Auk þess sem ákveðna vöruflokka eins og ávexti og grænmeti var ekki hægt að kaupa í Bónus einfaldlega vegna þess að þessar vörur var vart hægt að kalla annað en úrkast. En sem betur fer voru til verslanir sem seldu fyrsta flokks ávexti og grænmeti. Hagkaup og síðar 10-11 báru þar af. En þrátt fyrir þessa annmarka á Bónusbúðinni þá var maður sáttur. Í raun horfði maður með aðdáun á þá sem ráku búðina. Hún var alltaf full af vörum og fólki, auk þess sem feðgarnir sem áttu búðina voru eins og útspítt hundskinn raðandi í hillur, takandi á móti vörum og að afgreiða á kassa. Þetta kunnu allir að meta.
Smám saman urðu verslanir Bónus fleiri og fleiri um leið og kaupmönnum á horninu fækkaði. Bónus sameinaðist Hagkaupum, keypti 10-11 og nú er svo komið að meirihluti matvöruverslunar í landinu er í eigu sömu aðila.
Þegar ég fór í Bónus í gær til að kaupa til heimilisins var því víðs fjarri að ég væri stemmdur með sama hætti gagnvart þessu fyrirtæki og á upphafsárum þess. Ekki vegna þess að ég hafi verið illa haldinn í gær eða hafi átt dapran dag að einhverju leyti. Nei, heldur vegna þess að þegar ég kem inn í verslunina og dreg upp minnismiðann yfir það sem vantar til heimilisins þá koma ávallt sömu spurningarnar upp í hugann. Hvað ætla feðgarnir að láta mig borða í kvöld? Og hvað ætli ég geti fengið hátt hlutfall af því sem er á miðanum mínum í þessari ferð? Ég kem aldrei brosandi út þar sem mér finnst nánast að sjálfsákvörðunarréttur minn hafi verið brotinn. Ég gerði mér grein fyrir því á upphafsárum verslunarinnar að vörumerkjatryggð hennar var ekki mikil. Þess vegna prófaði maður nýjar vörutegundir sem maður þekkti ekki einfaldlega að þær voru snöggtum ódýrari en þær maður hafði keypt áður. Sumt var ætt eða nothæft en annað ekki. En nú um stundir er ástandið óþolandi. Það er jafnvel erfitt að treysta því að unnt sé að ganga að mjólkurvörunum vísum í innkaupaferðinni.
Ég held reyndar að ástæða þess hvernig komið er fyrir þessum verslunum sé fyrst og fremst sú að eigendur fyrirtækisins eru komnir í órafjarlægð frá þeirri viðskiptahugmynd sem þeir lögðu upp með. Guðfaðirinn er upptekinn af vegagerð yfir Kjöl og stráksi spilar Matador í London á milli þess sem hann lítur við í réttarsalnum við Lækjartorg og rekur þar sögu fyrirtækisins. Þess í stað starfa í Bónusverslunum börn á fermingaraldri og verslunarstjórinn, sem jafnframt er aldursforsetinn á staðnum, er nýkominn með bílpróf. Enginn sem starfar í versluninni rekur heimili og gerir sér því ekki grein fyrir mun á nauðsynjavörum og lúxusvarningi. Þvottaefnið sem var til sölu í síðustu viku verður e.t.v. ekki í boði næsta mánuðinn en krakkarnir, í samræmi við eigin neyslu, munu sjá til þess að allar bragðtegundir af snakki og dýfu verða á vísum stað.
Við þær aðstæður sem ríkja á matvörumarkaðnum nú um stundir eiga neytendur ekkert val. Það er búið að ryðja allri alvöru samkeppni í burtu og í flestum hverfum eða jafnvel heilu sveitarfélögunum er eingöngu ein verslun. Ástæða þessa er ekki eingöngu fámennið heldur er samkeppnisumhverfið meingallað. Því miður hafa íslenskir neytendur þurft að sætta sig við einokun alla tíð og þess vegna er erfitt að fá menn til að komast upp úr þessu ömurlega hjólfari. Ég held að við þurfum að ígrunda alvarlega hvort ekki sé rétt að setja takmarkanir á markaðshlutdeild á dagvörumarkaði í lög. Við núverandi ástand er engin leið fyrir ný fyrirtæki að koma inn á matvörumarkaðinn og maður hefur það á tilfinningunni að næst stærsta matvörukeðjan eigi ekki langa lífdaga framundan.
Athugasemdir
Ég er ekki alveg sammála þér nafni. Ég man reyndar vel frá fyrstu árum Bónuss, að það pirraði mann að þurfa alltaf að fara í aðra búð vegna einhvers sem ekki var til. En þetta hefur mikið batnað. Og grænmetið og ávextirnir líka, sem mikið er keypt af á þessu heimili. Sumar grænmetistegundir fengust lengi vel aldrei í Bónus. Ég man eftir einni, sem kona mín saknaði mikið, og hringdi bara í Jóhannes og bað hann um að kaupa þetta. Innan skamms fékkst hún og verðið var þrefalt lægra en annars staðar. Við erum svo lánsöm að það er lítil Bónusbúð í hverfinu, þótt maður heyri að að henni eigi að loka vegna þess hve bílastæðin eru fá. Þessi búð er rekin af fólki af annarri kynslóð en minni. Ekki get ég samt kvartað yfir "krökkunum". Verslunarstjórinn hefur ævinlega reynt að koma til móts við óskir okkar og vöruvalið er ótrúlega gott.
Á hinn bóginn held ég að allir hafi gott af samkeppni og á smásölumarkaðnum er fákeppni. Samt eru menn að reyna. En ég held að við hefðum gott af því ef einhver útlend keðja reyndi fyrir sér hér. Ég tala nú ekki um ef hætt yrði brjálæðislegri tollvernd á iðnaðarframleiðslu á borð við kjúklina egg og svínakjöt. Og fóðurtollarnir sem greinin greiðir ættu auðvitað að fjúka líka.
Sigurður G. Tómasson, 24.2.2007 kl. 18:39
Flaggskipið rekur af leið.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 24.2.2007 kl. 21:50
Mér finnst það góður bónus við að búa þar sem ég bý að það er bara tveggja mínútna gangur í Bónus.
Svava frá Strandbergi , 24.2.2007 kl. 23:08
Eg verð einsog Sigurður að taka upp hanskan fyrir Bonus,Eg held þvi fram að þetta se og hafi verið min mesta Kjarabot í þau ár sem Bonus hefur starfað/Vöruval er orðið allt annað en var i byrjun!!!En þetta með folkið sem þarna vinnur það er svona og svona eins og allstaðar i Láglaunastörfum,Eg hefi lagt i vana minn ef eitthvað vantar að biðja Verslunastjorna að redda hlutunum og það gengur/Erfitt að fA´fólk i vinnu nuna það veistu S.'A.///En mer er sagt að Bonus borgi bara vel umfram aðra!!!!!
Haraldur Haraldsson, 24.2.2007 kl. 23:11
Fróðlegur pistill.
Sigrún Friðriksdóttir, 24.2.2007 kl. 23:36
Góður pistill Sigurður og allt þetta er satt og rétt sem þú hér dregur svo skilmerkilega fram.
Samkeppni hefur snúist upp í einokun sem sannarlega var nú ekki hugmyndin.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 25.2.2007 kl. 00:25
Virkilega góð grein hjá þér. Ég fékk flashback á að lesa um fyrstu bónusverslunina sem ég komst því miður ekki oft í þótt ég hefði í þá daga haft mikla þörf fyrir það. Bjó langt frá búðinni og var bíllaus í þokkabót. En ég man vel eftir því hvernig búðin var uppsett í þá daga.
Í dag reyni ég að versla í Bónus eins og ég get en ég er mikið sammála því sem þú segir í greininni. Varðandi vöruúrval og annað. En ég hef heyrt að Bónus borgi krökkunum ágætlega en sel það ekki dýrara en ég keypti það.
Ester Júlía, 25.2.2007 kl. 01:17
Eg er lika en meira hissa á þer S.'A. að skoða þetta frá þessu sjonarmiði /sem þu gerir/Eg veit og þu veist að það er erfitt að fá folk i vinnu/og eg enturtek að það er engum óheimilt að keppa við Bonus!!!Af hverju gera menn það ekki/Kaupás hefur verið að gera það,og hefur getað það með synum lagvöruverlunum en það gætu fleiri reint,um það er ekki deilt,en er það ekki af þvi að við viljum hafa verðið lágt/Það er aftir allt saman fóliið sem ræður þessu við kvern það verslar!!!!!Kveðja Halli Gamli / XD/Bonusmaður!!!!!
Haraldur Haraldsson, 25.2.2007 kl. 09:29
Þetta er vel skrifað hjá þér Sigurður og það sem Elísabet segir hér að ofan er einnig góð samantekt. Ég veit alveg að bónus hefur gert margt gott í gegnum tíðina það verðu ekki deilt um það EN ég veit líka að það eru mjög margir sem ekki gera sér grein fyrir því hvað Bónus hefur sett mörg fyrirtæki á hausinn með dómeneringu sinni og viðkvæðið var og er annaðhvort setjum við skilyrðin eða það verða enginn viðskipti og einmitt þess vegna eru sérmerktu bónusvörurnar mörgum þrepum lakari að gæðum.
Ég vann eitt sinn og var verkstjóri hjá stóru matvælafyrirtæki og lengi vel borguðum við með vörunum (sumum ) og alltaf var verðið einhliða áhveðið frá bónusfólki. Það gengur náttúrulega ekki til lengdar að tapa á því að framleiða vörur og þess vegna var brugðið á það ráð að þynna út vörurnar með öllum tiltækum ráðum með vatni og allskyns cemikölum til að láta náttúlegar vörur líkjast því að vera orginal og meira að segja eru mikið af þessum efnum á eiturefnalista.Bónus vissi af því og sögðu það skiptir engu máli hvað er í þessu svo framarlega að hægt sé að kalla vöruna réttum nöfnum. Jú jú ég versla stundum í bónus en ég veit líka hvað eru gæði og hvað ekki en sumum af þessum vörum eru ekki einu sinni hundum bjóðandi. það fæst ekki allt með því að borga minna það er nefnilega þannig í þessu eins og í flestu að þú færð það sem þú borgar fyrir.
Glanni (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 14:02
Ágætis grein, þó svo ég sé ekki sammála henni í einu og öllu. Mín reynsla af Bónus hefur yfirleitt markast af ánægju með verðlag, og undrun yfir síauknu vöruúrvali. Hinsvegar finnst mér eðlilegt að neytendur leggi sig aðeins fram og tjái sig um það sem fer í taugarnar á þeim. Kannski munu stjórnendur Bónus taka athugasemdir sem þessar til hliðsjónar og reyna að auka vörumerkjatryggð, en ég efast um það. Verðlag hefur alltaf tekið fyrsta sætið hjá Bónus, og á þessum markaði þar sem samkeppni ríkir, þá er eðlilega minna pælt í vörumerkjunum.
Hinsvegar fannst mér mjög áhugaverð athugasemd um fólkið sem vinnur þar, og úrval snakks og þess háttar. Það vill svo til að ég vann í Bónus í rúmlega hálft ár á yngri árum, þegar ég var 15-16 ára. Ég var að mig minnir yngstur í flestum þeim verslunum sem ég fór í. Núna er skortur á starfsfólki slíkur að það er ekki óalgengt að sjá krakka rétt skriðna uppí gagnfræðaskólaaldur, að vinna í Bónus. Við það minnist ég þess að bera 30kg kartöflupoka.
Svo er fólk sem heldur því fram að það þurfi meiri stóriðju og fleiri störf, þegar krakkar niður í 12 ára aldur eru farin að vinna á daginn!?
Steinn E. Sigurðarson, 25.2.2007 kl. 14:20
Sæll Sigurður,.... þetta er góður pistill og lýsir bara vel stöðunni á matvörumarkaði í dag. Bónus á vissulega mikið hrós skilið fyrir þá samkeppni og lækkun verðs sem verslunin hefur komið til leiðar. En sú staðreynd að svo stór hluti verslunar í landinu fari fram í lágverðsverslunum (sem er einsdæmi í okkar nágrenni) er ekki bara gott. Eins og þú nefnir þá er vöruvalið lítið, og lítil merkjatryggð. Ég þekki þetta vel sem þróunar- og markaðsstjóri í langan tíma í mjólkurfyrirtækinu Norðurmjólk (KEA-skyr o.fl.). Það sem þessi þróun hefur leitt af sér er að framleiðendur matvæla eiga sífellt erfiðara með að koma með á markaðinn "góðar" vörur því velgengni þeirra er nánast háð því hvort þær fái pláss í hyllum lágverðsverslananna eða ekki. Og þá er ekki nóg að fá náð eina vikuna og síðan ekki næstu. Þannig að allt of oft er það ekki neitandinn sem fær að velja, það er verslunin sem að stórum hluta ákveður hvað þú færð að velja þér í matinn :(
Hitt er svo allt annað mál að allt og mikill munur er orðinn á verði lágverðsverslana og "venjulegra" matvöruverslana og því skiljanlegt að fólk almennt versli í lágverðsverslunum. Þar held ég að stærsta vandamálið sé hve mikið menn hafa lagt í húsnæði og glæsileika margra verslana og gleymt því að það þarf að vera samhengi í því við stærð markaðarins. Lauslegar kannanir benda til þess að það verslunarrými sem er í notkun nú sé tvöfalt stærra (í það minnsta) en það sem markaðurinn ber og réttlætanlegt sé að láta koma fram í matvöruverði.
Og svo segja menn að hátt matvæla verð sé bara landbúnaðinum að kenna, ég bara brosi og get ekki annað.
Hólmgeir Karlsson, 25.2.2007 kl. 14:38
Í Bretlandi hafa menn áhyggjur af því að ein matvörukeðjan er komin í 33% markaðshlutdeild. Þar eru menn að skoða leiðir varðandi það að ein keðja verði ekki með yfirgnæfandi markaðsstöður og hafa áhyggjur af slíkri þróun. Á Norðurlöndunum eru kannski 3 stórar keðjur í hverju landi, en skiptingin á milli þeirra er miklu jafnari en hér á landi. Á Íslandi eru 3 stórar keðjur, en markaðsskiptingin sem hér er þekkist hvergi svo ég viti.Hagar (Bónus Hagkaup 10/11) eru líklega ekki undir 55% af markaðnum. Mér finnst þessi staða ískyggileg og mörg hættumerki á lofti. Hverjar geta þær hættur verið? Jú, þessi þróun getur haldið áfram og segjum sem svo að Hagar stækki og stækki á matvörumarkaði. Þeir gætu þess vegna verið komnir með 70-90% markaðshlutdeild með sama áframhaldi eftir örfá ár.Þá er öll samkeppni náttúrulega úr sögunni, auðvelt verður að hækka verðið í búðunum og viðskiptavinurinn getur ekkert annað farið.Ég tala ekki um birgjana. Það yrði ekkert samið við þá, þeim yrðir bara sagt verðið sem þeir fengju fyrir vöruna, annars gætu þeir étið það sem úti frysti... reyndar komið ansi nálægt því að hlutirnir séu þannig í dag.Þá gætu menn bara pakkað saman sínu fyrirtæki saman og lagt upp laupana. Allir þyrftu að sitja og standa eins og Guli karlinn segði þeim. Ef einhver ætlaði þá að nota sér tækifærið og reyna að komast nýr inn á þennan markað, yrði hann laminn niður, með undirboðum, eða þá að enginn þyrði vinna fyrir þennan nýja aðila þar sem honum yrði hóta öllu illu ef hann gerði það.Þannig vinnubrögð viðgangast þegar í dag á þessum markaði. Ef þú ætlar að teikna eða byggja hús fyrir keppinautana, þá vinnur þú ekki framar fyrir mig! Samkeppnisstofnun tekur ekki á málum eins og að markaðsleiðandi aðili má ekki selja vörur undir kostnaðarverði. Það gerðist t.d. í miklum mæli í verðstríðinu árið 2005.Samkeppnisstofnun er hrædd við að vera lögð niður með stanslausum áróðri úr Baugsmiðlum ef þeir voga sér að kæra þá fyrir slíkt! Gleymum svo ekki því að þeir aðilar sem eiga Haga í dag geta hvenær sem er selt matvörubúðirnar. Sá sem kaupir þær, og markaðshludeildin þá kannski komin í segjum 70%, myndi örugglega ekki kaupa verslanirnar sem hobbý eða hugsjónastarf.Það yrðu gerðar ríkari kröfur á hagnað frá nýjum eigendum. Hagnaður næðist þá væntanlega m.a. með hærra vöruverði.
En það er eins og allir á Íslandi kæri sig kollótta um þessa framvindu mála á matvörumarkaðnum, almenningi jafnt sem stjórnmálamönnum.
Gilbaugur
Gilbaugur (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 16:00
Góð grein,sjálfsagt erfitt fyrir aðra að komast að;sveitarfélög hafa skilvíslega úthlutað Norvik, Stoðum og Eik (Krónan,Bónus og Bónus eiga þau félög),annað verslunapláss hafa þau keypt til að tryggja fákeppni.Minna verslunarhúsnæði í borgunum er ekki hagkvæmt vegna hárra fasteignaskatta sveitarfélaga ( 2,2% af
fasteignamati), og því öllu breytt í íbúðir.Allt útrýmir þetta samkeppni og tryggir örugga fákeppni.Á endanum flytur fólk bara þangað sem byggilegt er; Kanada,Ameríku, Danmerkur, Póllands.S.s. Baugur og bankarnir eru að gera.
Kv
Hringur
Jónas Jónasson (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 19:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.