Að deponera skattinn

Þegar foreldrar mínir skiptu um húsnæði fyrir nokkrum árum þá var í kaupsamningnum ákvæði þess efnis að seljandi skyldi kosta tilteknar lagfæringar sem nauðsynlegar voru á húsinu.  En seljandinn virtist ekki ætla að standa við sinn hluta samningsins sem varðaði nauðsynlegar lagfæringar.  Foreldrar mínir áttu eftir að greiða síðustu afborgun af íbúðinni og til að fá seljandann til að standa við sínar skuldbindingar þá deponeruðu þau síðustu greiðsluna.  En deponering er kallað geymslugreiðsla á íslensku.  Aðgerðin felst í því að skuldarinn (í þessu tilfelli foreldrar mínir) standa við sínar skuldbindingar en fjármálastofnun hefur þá tekið við greiðslunni en kröfuhafinn (seljandi íbúðarinnar) getur ekki tekið greiðsluna og ráðstafað henni fyrr en hann hefur uppfyllt sinn hluta samningsins.

 

Ástæða þess að ég rifja upp þessi gömlu fasteignaviðskipti foreldra minna er einfaldlega sú sorgarsaga sem við fáum relgulega af aðbúnaði gamla fólksins.  Ef þið lesendur góðir flettið upp í álagningarseðlinum ykkar þá getið þið séð sérstakan reit þar sem stendur: Greitt í framkvæmdasjóð aldraðra.  Þessi sérmerkti skattur er búinn að vera í gildi í áraraðir en því miður hefur þessi sérmerkta fjárhæð ekki runnið til að leysa hin brýnu mál sem varða gamla fólkið.  Við höfum af og til fengið af því fréttir að hjón séu aðskilin vegna ófullnægjandi búsetuúrræða.  Alls óskyldir og vandalausir eru þess í stað neyddir í sambúð og eiga sér ekkert einkalíf.  En þess í stað fáum við fréttir af því að hennar hátign heilbrigðisráðherrann hafi vaðið í framkvæmdasjóðinn til að láta kosta prentun kosningaloforða sinna.

Ég vildi að ég gæti gert eins og foreldrar mínir gerðu um árið og deponerað það sem af mér er tekið í framkvæmdasjóð aldraðra.  Því ef sú sérmerkta skattheimta hefði skilað sér í þau verkefni sem henni var ætlað þá værum við ekki að tala um búsetuúrræði aldraðra sem sérstök vandamál.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Jónsson

heyr heyr

Baldvin Jónsson, 25.2.2007 kl. 20:06

2 identicon

þetta er skömm, gamla fólkið á skilið meiri virðingu

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 25.2.2007 kl. 20:20

3 Smámynd: Svava S. Steinars

Það ætti að kalla einhverja til ábyrgðar vegna þess hvernig farið hefur verið með peninga úr þessum sjóði.  T.d. hvernig gat hæstvirtur heilbrigðisráðherra notað einhverjar milljónir úr sjóðnum til að prenta bækling ???  Faðir minn dó úr lungnabólgu sem hann smitaðist af á yfirfullum spítala en það sem hann hefði þurft var dvöl á hjúkrunarheimili meðan hann jafnaði sig eftir samfallsbrot í hryggnum.  Vonandi verður einhver breyting hér á í framtíðinni.  Btw, ég veit ekki hver ég er að flytja, er ekki búin að kaupa en fæ lánaða íbúð systur minnar meðan ég leita

Svava S. Steinars, 26.2.2007 kl. 00:55

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Það var nú minnsta málið að framleiða bæklinginn því skandallinn við það atriði að Framkvæmdasjóður sem standa átti straum af uppbyggingu hjúkrunaheimila og stofnanna í þágu aldraðra skuli hafa verið notaður í rekstur er skandall á skandal ofan .

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 26.2.2007 kl. 01:27

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ótrúlegar sögur af því hvernig hjónum er stíað sundur, og hvernig er komið fram við gamalt fólk, sem hefur jú unnið hörðum höndum að því sem við köllum góðæri í dag. Hverju skyldum við svo skila til okkar niðja ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.2.2007 kl. 01:28

6 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Já, ágæti Sigurður, stjórnmálamönnum verða of oft mislagðar hendur og vita stundum ekki hvar þeir eru með lúkurnar sbr. Árni Johnsen, sem fór afskaplega illa að ráði sínu, enda var hann ekki með réttu ráði,karlinn, og stal þremur stórum vörubíls förmum af stórgrýti vestur í Grundarfirði í nafni listarinnar og setti upp sýningu hjá frænda sínum og nafna í Reykjanesbæ harla hróðugur.

Árni sýndi iðrun (umdeilda að vísu) og við verðum að vona og biðja til Guðs, að Árni frelsist og láti af þessum vana sínum. Ég ætla líka að biðja fyrir henni Siv minni, svo að hún sýni iðrun. Hún er miklu færari um það en Árni svellkaldi. Siv er góð kona, sem brjóstgóð og hjartahlý gagnvart sínum nánustu, bæði mönnum og málleysingjum. Þú manst að hún stóð sig með prýði, nær hún friðaði rjúpuna hérna um árið.Þá sýndi hún sitt rétta eðli í óþökk margra veiðimanna, sem vildu ólmir fá að drepa þessa yndislegu fugla. Þar fór fremstur meðal jafningja, Sigmar Hauksson, frægur matgæðingur,framsóknarmaður og hinn mesti orðhákur.

Hún Siv lét ekki beygja sig frekar en fyrri daginn, nei, hún stóð uppi eins og klettur úr hafinu og hvorki flokksbræður sína né aðra telja sér hughvarf. Siv er í fám orðum sagt alvöru kona í stjórnmálum og stendur uppi með pálmann í höndunum. Ég læt hringja í Lindina og biðja fyrir henni Siv Friðleifsdóttur. Þeir í Lindinni eru býsna bænheitir heyri ég og ég hefi mikla trú á að það verði til þess, að hún Siv iðrist, fái fyrirgefningu synda sinna og geri upp sín mál fyrir 12. maí n.k.

Með góðri kveðju, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 26.2.2007 kl. 06:59

7 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Mæl þú manna heilastur Sigurður. Þetta voru sannarlega orð í tíma töluð.

Steingerður Steinarsdóttir, 26.2.2007 kl. 10:08

8 Smámynd: Valdimar Gunnarsson

Rétt mælir þú, hinn frómi. En hvernig væri hægt að grafast meira fyrir um þetta mál og annað svipað?

Fjölmiðlar bregða af og til upp myndum af bágstöddu fólki, fólki sem verður fyrir barðinu á þessari svikamyllu stjórnvalda - en nenna ekki/vilja ekki/geta ekki/gera ekki neitt í því að grafast fyrir um raunverulegar orsakir þessa.

Hvað ætli við séum búin að greiða mikið í framkvæmdasjóð aldraðra síðustu 10 árin eða hvað sem er nú langt síðan þetta var sérgreint á skattseðlinum?

Hvað ætli þessi sjóður hafi kostað síðan honum var komið á fót?

Hverjir hafa ráðstafað fé úr honum og á hvern hátt?

Það væri markverðari blaðamennska að reyna að svara þessum spurningum heldur en að birta af og til myndir af bágstöddum gamalmennum. 

Valdimar Gunnarsson, 26.2.2007 kl. 11:37

9 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Tek undir umræðuna hér á síðunni. Aðbúnaður eldra fólks okkar er til háborinnar skammar of víða. Hvernig stendur á því? Afhverju fór þetta svona og hvernig munu þessi mál verða eftir 10 ár ef áfram heldur sem horfir???

Guðrún Þorleifs, 26.2.2007 kl. 19:40

10 Smámynd: Ár & síð

En að vísu er gömlum stjórnmálamönnum mörgum hundsama því þeir eru búnir að gulltryggja sig á kostnað almennings. Besta leiðin til að fá yfirvöld til að taka til hendinni er sú framtíðarsýn að ráðamenn lendi í sömu aðstæðum og aðrir á gamals aldri.

Ár & síð, 27.2.2007 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband