1.3.2007 | 18:24
Bjarnargreiði Framsóknar
Ef ég man rétt þá á hugtakið bjarnargreiði sér uppruna í gamalli sögu. Í sögunni segir af manni sem bjargaði lífi bjarnar en eftir það hændist björnin að húsbónda sínum og vildi allt fyrir hann gera. Einhverju sinni gerðist það þegar maðurinn var sofandi að björninn tekur eftir því að flugur sveimuðu allt í kringum höfuð mannsins. Björninn var staðráðinn í því að koma í veg fyrir að flugurnar ónáðuðu húsbóndann og hóf því hramminn á loft og lét vaða á flugurnar. En ekki vildi betur til en svo að björninn drap manninn.
Svipaðan greiða og björninn í sögunni að ofan hefur félagsmálaráðherra Framsóknar gert íbúðarkaupendum með stefnu sinni á síðustu misserum. En eins og einhverjir muna þá var það aðal kosningaloforð Framsóknarmanna fyrir síðustu Alþingiskosningar að húsnæðislán skyldu hækkuð í 90%. Afleiðingarnar urðu líkt og flestir þekkja þær helstar að húsnæðisverð snarhækkaði í verði. Af hærra húsnæðisverði leiddu síðan fleiri breytingar s.s. skuldir heimilanna snarhækkuðu. Jafnfram uxu eignir manna umtalsvert vegna hærra fasteignamats, en ekki þó með þeim afleiðingum að afkoman batnaði, heldur gerðist það þvert á móti að skyndilega urðu bókfærðar eignir (þ.e. húsnæðið) það verðmikið samkvæmt fasteignamati að fólk fékk engar vaxtabætur sem hafði engu að síður verið forsendur margra við afborgunar og afkomuútreikninga við íbúðarskipti.
Á mínu heimili voru heildartekjur okkar hjónanna um 500.000 kr lægri árið 2005 en þær voru árið 2004 en á sama tíma hafði fasteignamatið á íbúðinni hækkað um 30-40 %. Við erum því samkvæmt hinu opinbera bókhaldi ríkari en áður en áætlun okkar um endurnýjun á því sem þarf að lagfæra (þakið er illa einangrað, það blæs og lekur með útidyrunum ofl.) er gjörsamlega hrunin. Afkoma okkar millanna er því lakari en áður.
Ég hefði ráðlagt stjórnvöldum að standa öðru vísi að verki en þau hafa kosið. Þannig hefði ekkert verið að því að bjóða þeim sem væru að kaupa sína fyrstu íbúð 90% lán. En hinir sem væru að skipta um húsnæði ættu kost á því að lánshlutfallið væri 60-70%.
Ástæða þess að ég rifja þetta upp er sú að nú er enn á ný búið að hækka lánshlutfallið upp í 90 % en það hafði verið lækkað á síðastliðnu ári í þeim tilgangi að slá á þensluna. En dapurlegt þykir mér að horfa upp á það að Framsóknarmenn eru enn við sama heygarðshornið. Það er engum greiði gerður með þessu tiltæki.
Athugasemdir
Það virðist ganga mjög víða þessi stórkostlegi misskilningur að trúa því að breyting lánshlutfalls hjá Íbúðalánasjóði í 90% sé orsakavaldur þess að veruleg hækkun varð á fasteignamarkaði frá ágúst 2004.
Meginorsök hækkunar var innkoma bankanna á markaðinn með virkum hætti í sumarbyrjun 2004 eftir að þeir unnu mál gegn ríkinu og Íbúðalánasjóði fyrir Evrópudómstólnum. Þar var dæmt bönkunum í vil og ríkið krafið til þess að aflétta einokun ríkisins á húsnæðislánum.
Vegna innkomu bankanna á markaðinn neyddist ríkið til að stökkva út í djúpu laugina mun hraðar en hafði verið skipulagt að gera. Þ.e.a.s. til að verja Íbúðalánasjóð gegn útrýmingu við þessa nýju kraftmiklu samkeppni var ekki við það ráðið að koma 90% lánunum á í nokkrum þrepum eins og hafði verið planið heldur varð að keyra það á í einu stóru skrefi vegna þess að bankarnir voru þá þegar farnir að bjóða upp á 80% lán og svo mjög fljótlega 100% lán í mikilli samkeppni sín á milli.
Baldvin Jónsson, 1.3.2007 kl. 19:16
Það er rétt hjá ykkur báðum, Sigurður og Baldvin, samverkandi, en ekki má gleyma einum þættinun enn sem margir virðast ekki hafa fattað.
R - listinn sálugi, lék það að valda ákveðnum skorti á lóðum undir íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, þegar skorturinn var orðin umtalsverður, þá tóku þeir sig til og fóru að bjóða út lóðir, í stað þess að selja þær á föstu verði.
Afleiðingin var að lóðaverð í Reykjavík og fljótlega á eftir á öllu höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 3- 6 milljónir fyrir meðal einbýlishús. Fyrir vikið var hægt að fá ennþá stærri lán út á íbúðirnar þar sem mat á þeim hafði hækkað um þessa tölu, án þess að raunverðmæti væri á bakvið. Svo var fólk sem lék það að hækka lánin á húsnæðinu og "sukka" smá, þegar fólkið færði lánin yfir í bankana.
Versta er að nú er fjöldi fólks að lenda í svakanlegri klemmu, þar sem lánin hafa hækkað um milljónir og afborganir fólks um tugi þúsunda.
18 milljóna þakið gerir það að verkum að þetta hefur ekki mikil áhrif á höfuðborgarsvæðinu. Þetta gerir helst gott fyrir landsbyggðina.
Júlíus Sigurþórsson, 1.3.2007 kl. 19:38
Og 18 milljón króna þakið mun verða leiðbeinandi um verð á ódýrari íbúðum, 20 milljónir verða örugglega ótrúlega algengt kaupverð á næstunni. Ljóta vitleysan!
Ár & síð, 1.3.2007 kl. 20:11
Ekki kenna Framsóknarflokkinum um það sem bankarnir og lóðaskorturinn orsökuðu í sameiningu. Það var rétt farið að ræða hækkun lánshlutfalls þegar bankarnir byrjuðu að lána 100% (sumir) og ótakmarkaðar upphæðir að íbúðaverðið tók risastökk.
Það að Lánasjóðurinn sé enn til og geti boðið fólki þetta lánshlutfall (90%) er gott mál því að ekki allir geta fengið jafngóð lán hjá bönkunum. Mig minnir ennfremur að fólk gat fengið allt að 90% lánshlutfall áður, ef verið var að kaupa fyrstu íbúð, en einmitt þeir sem eru að byrja í fasteignaviðskiptum sem þurfa líklega mest á svo háu hlutfalli lánsfjár að halda.
Anna Runólfsdóttir, 1.3.2007 kl. 22:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.