2.3.2007 | 18:39
Burt með rykið - 1. tillaga
Breyttar áherslur við skipulag þéttbýlisins
Unnið verði markvisst að því að þétta borgina til að draga úr þörfinni fyrir akstur. Fjölgað verði sérstökum akreinum fyrir almenningsvagna meðfram öllum umferðarmestu stofnbrautunum. Stofnbrautarkerfi hjólandi meðfram bílabrautunum verði komið á skipulag og jafnt og þétt unnið að uppbyggingu þeirra (athuga ætti hvort létt bifhjól < 50 cc mættu nota slíka stíga).
Viðbótarávinningur: Í þéttri byggð er markaðslegur grundvöllur fyrir rekstri verslunar og þjónustu í göngufæri fyrir íbúa (gildir þá einu hvort um er að ræða opinberan- eða einkarekstur eða hærra þjónustustig almenningssamgangna). Ef allt höfuðborgarsvæðið væri byggt eins og Arnarnesið í Garðabæ þá þyrftu allir alltaf að fara akandi hvert einasta viðvik. Strætó yrði betri valkostur með forgangsakreinum sem gerðu það að verkum að hann færi hraðar en einkabílar í biðröð. Hjólreiðar yrðu öruggari með sérstökum leiðum ætluðum reiðhjólum og því raunhæfur valkostur fyrir fleiri en bara þá últramaraþonkappa sem nú nota hjólið. Auk þess má benda á að ef dregið er úr rykmengun með því að minnka þörfina fyrir akstur þá er jafnframt verið að draga úr styrk annarra mengunarefna, s.s. köfnunarefnisoxíðum, brennisteinsdíoxíði og koldíoxíði.
Annmarkar við tillöguna: Tillagan tekur langan tíma áður en hún fer að skila einhverjum árangri. Auk þess sem þétting byggðar er vitaskuld ekki ósk allra. Hins vegar bendi ég á að þeim fjölgar sem eru þokkalega stæðir og kjósa að búa í vandaðri íbúð í fjölbýli og eyða frítíma sínum í sumarbústöðum eða jafnvel erlendis fremur en að stunda garðyrkju með stórum garði í einbýlishúsi sem er dýrt í rekstri. Ef þeim fjölgar sem nota reiðhjól eða strætó þá minnkar þörfin fyrir umferðarmannvirki sem einkabíllinn kallar eftir.
Ég held að þessi hugmynd sé í all góðu samræmi við athugasemdir "Halla gamla" við síðustu færslu.
Athugasemdir
Yfirbyggðir hjólastígar og þegar fram í sækir yfirbyggðir göngustígar með færiböndum. Málið leyst.
Birgir Þór Bragason, 2.3.2007 kl. 19:26
Já þétta byggðina með verslunum og þjónustu í göngufæri.
Betri almenningssamgöngur og yfirbyggða almenningsgarða með kaffihúsum, tjörnum, og skokkbrautum.
Leyfa svo hundum að leika sér í görðunum líka með eigendum sínum.
Svava frá Strandbergi , 2.3.2007 kl. 23:41
Mjög miklivægt að fara að gera ráð fyrir hjólinu í skipulagi. Sama með strætó, annars mun sama þróun með fækkun farþega halda áfram
Svava S. Steinars, 3.3.2007 kl. 00:38
Alltaf finnst mér það jafn frábært þegar þig jeppakallarnir komið með lausnirnar á því að almúginn sé ekki að menga fyrir ykkur andrúmsloftið.
xu (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 01:48
XU,Hvað áttu við, eru jeppa karlar að menga eitthvað meira en aðrir???Af hverju mega þeir ekki koma með lausnir? held þú ættir að kynna þér jeppamenninguna áður en þú sendir svona bull í loftið. Kv. Jeppamaður.
Glanni (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 03:00
Sælinú
Þetta er svo fín tillaga að ég get ekki setið á mér að leggja orð í belg. Þetta er endalausa spurningin um hænuna og eggið, hvað á að koma fyrst, hjólreiðastígar eða hjólreiðamenn.
Mín tillaga er sú að safna saman þessum fáu sem hjóla (var slíkur sjálfur þangað til ég yfirgaf landið) og gera smá rannsókn á ferðalögum þeirra. Síðan er kannski hægt að lagfæra á ódýran hátt helstu vankanta þessa ferðamáta. Dettur eftirfarandi atriði í hug.
1. Hvað er raunhæft að ætla sér að hjóla marga daga á ári?
2. Aðgangur að bílfari í verstu veðrunum.
3. Hvaða leiðir á að skafa fyrst á veturna.
4. Hjólaleiðir eru oft eyðilagðar á meðan á öðrum gatnaframkvæmdum stendur og þær mæta afgangi.
5. Auka tillitssemi bílstjóra gagnvart hjólandi umferð.
6. Auka tillitssemi hjólreiðamanna gagnvart bílaumferð (ljósanotkun, hjóla réttu megin á götunni).
7. Hvaða hjólategundir endast best?
8. Þarf að fara í sturtu eftir hverja hjólaferð eða dugar sturta einu sinni á dag?
Væri hægt að selja pakka sem innihéldi reiðhjól, viðgerðir, far í vinnuna í slæmu veðri (upp í kannski 10 daga).
Það eru fleiri vandamál en skortur á hjólreiðastígum.
Kveðja
Gaui
Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 12:57
Sammála þér Sigurður. En þetta með að leyfa 50cc hjól á hjólreiðabrautum er svolítið varasamt. Hollendingar hafa slæma reynslu af því. Þar í landi voru skellinöðrur leyfðar á hjólreiðabrautum en ég held að það hafi verið bannað nýlega. Allavega var umræða um það í Hollandi fyrir nokkrum árum vegna fjölda slysa. Hinsvegar eru farartæki með 30 km hámarkshraða leyfð á hjólreiðabrautum. Sá hraði er sá skilvirkasti sé tekið mið af umferðaröryggi, umhverfisáhrifum og orkunotkun. Fyrir tilstuðlan Kolbrúnar Halldórsdóttur (VG) liggur nú fyrir á alþingi tillaga þess efnis að rafmagnsreiðhjól sem nái 25Km hraða verði flokkuð sem reiðhjól en ekki sem vélhjól. Þannig komist þessi hljóðlátu og vistvænu farartæki hjá því að vera flokkuð sem vélknúið ökutæki sem í dag útilokar þau af íslenskum markaði. Þessi rafmagnsreiðhjól kalla á hjólreiðabrautir. Það er því vonarglæta að þá komi aukinn þrýstingur á stjórnvöld og þau stuðli að lagningu hjólreiðabrauta. Eitt er bara víst að núverandi stjórnvöld hafa ekki áhuga á þessu máli sem og öðrum vistvænum tillögum stjórnarandstöðunnar. Við þurfum að skipa um ríkistjórn ef við viljum sjá framfarir í þessu landi.
Magnús Bergsson, 3.3.2007 kl. 13:19
Gaui, Þetta eru ágætis punktar hjá þér, en málið er að skipuleggja miðað við amk tvöföld eða þreföld hjólreiðaumferð sem við sjáum í dag. Ef engar væru sundlaugarnar, færu ekki margir að synda.
Í áætlun Reykjavíkurborgar (Reykjavík í mótun) er miðað við svoleiðis vöxtur frá árinu 2005 og hún virðist að einhverju leyti þegar vera kominn. Mig minnir að stefnt var að 6% allra ferða yrðu farnar á reiðhjóli, sem er stærri hlutfall en strætó hefur nú. Til viðmiðunar : Oulu í norður-Finnlandi státar af 25% allra ferða á reiðhjóli (vel og vandlege rutt snjó snemma morguns), Þrándheimur 12-18%.
Að tala um að safna saman þeim fáu sem hjóla er sem betur fer hreint þvaður. Hjólreiðamönnum skipta þúsundir daglega jafnvel um hávetur á höfuðborgarsvæðinu. En sem sagt, þetta eru annars góðir punktar og rétt að
nýbygging hjólreiðabrauta sé ekki allt sem skipti máli.
Morten Lange, 8.3.2007 kl. 00:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.