Hvað gerir sveitarstjórnin nú?

Í dag var haldinn fundur um virkjanir í neðri hluta Þjórsár sem sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps stóð fyrir.  Á fundinum var ágæt mæting en mér taldist að fundarmenn væru rúmlega 100.

Framsögumenn á fundinum voru þeir Þorsteinn Hilmarsson upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar,  Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri Landverndar og Ólafur Arnalds prófessor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.  Fjórði framsögumaðurinn, Illugi Gunnarsson hagfræðingur og stjórnarmaður í Landsvirkjun komst ekki vegna flensu.  Flensan og aðrar umrenningspestir sem hrjá landsmenn um þessar mundir eiga vafalítið sinn þátt í því að mun færri komu til þessa fundar heldur en mótmælafundarins sem haldinn var á sama stað fyrir skömmu.

Framsögumenn stóðu sig ágætlega fyrir utan það að erindi þeirra voru allt of löng.  Ég hef státað af samkvæmisblöðru en ég þurfti að tæma tvisvar bara á meðan á framsögum stóð.  Fátt kom á óvart hjá Bergi og Þorsteini enda er afstaða þeirra til virkjana, eðli málsins samkvæmt, afar ólík.  Ég missti af upphafinu á framsögu Ólafs, en þegar ég kom inn þá heyrði ég að hann var að fjalla um vanda manna og stofnana að tjá sig um einstök verkefni.  Ég hafði það á tilfinningunni að Ólaf langaði til að segja eitthvað á fundinum sem hann teldi vafasamt að prófessor við ríkisháskóla gerði. 

Ýmislegt var merkilegt við þessa samkomu.  Enginn heimamaður mælti fyrir þeim tillögum sem felast í breytingartillögunum við aðalskipulagsið.  Fundurinn er haldinn þegar kynningartími vegna skipulagsbreytinganna er runninn út (hann rann út 1. mars sl.).  Um 20 manns úr salnum tóku til máls og báru fram fyrirspurnir eða komu með athugasemdir við áformin um virkjanirnar.  Allir sem tóku til máls (sem flestir eða allir eru ábúendur eða bústaðaeigendur í hreppnum) voru mjög gagnrýnir eða afdráttarlaust andvígir fyrirhuguðum virkjunum.

Eftir að hafa setið þennan fund, sem og fund yfirlýstra andstæðinga fyrir skömmu, þá get ég ekki merkt að framkvæmdirnar eigi marga fylgismenn í hreppnum.  Þá getur oddvitinn ekki komist upp með að halda því fram að á þessum fundi hafi verið tómir mótmælendur "að sunnan".  Ég bíð eftir því að sjá hvernig sveitarstjórn metur vilja íbúanna að loknum þessum fundi sem og þeim 85 athugasemdum sem mér skilst að hafi borist við fyrirliggjandi skipulagstillögur.  Sjálf á sveitarstjórnin eftir að greina frá þeim hag sem íbúarnir muni hafa af fyrirhuguðum virkjunum.  Ég hef ekki komið auga á þann ábata.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Það eru heimamenn sem eru á móti þessu.

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 3.3.2007 kl. 19:10

2 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég vona innilega að heimamenn nái að stöðva þessar ömurlegu áætlanir.

Steingerður Steinarsdóttir, 3.3.2007 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband