My name is Al Gore...

... and I’m the former next President of the United States of America.  Þannig hefst myndin “Unconvenient Truth” sem sýnd var í Háskolabíói í dag.  Samfylkingin bauð í bíó og ég, ásamt tvö til þrjú hundruð öðrum, þáði boðið.  Myndin er firnagóð.  Í henni flytur Al Gore myndskreyttan fyrirlestur um loftslagsbreytingar með margvíslegum innslögum um einkalíf sitt.  Þegar Gore bauð sig fram til forseta þá fannst mér hann hafa afar lítinn kjörþokka og vera í stuttu máli, - hundleiðinlegur.  En eins og sjá má af upphafsorðum þessa pistils þá hefur Gore húmor fyrir sjálfum sér og því mótlæti sem hann hefur mátt þola.  Og þeim húmor fylgir hann út í gegnum myndina þrátt fyrir að vera mikið niðri fyrir og styðja mál sitt fræðilegum og myndrænum gögnum.  Álit mitt á Gore breyttist eftir að hafa séð þessa mynd.  Hann er snjall, ærlegur og með ágætis húmor.

 

Almennt hef ég aldrei litið á svartar skýrslur vísindasamfélagsins um loftslagsbreytingar sem dómsdagsspár.  Fyrir mér hafa þær verið alvarlegar ábendingar um að það sé stórt verkefni sem bíði heimsbyggðarinnar allrar að takast á við.  En á leiðinni út úr Háskólabíói fór ég að velta því fyrir mér hvað það er í hlýnandi lofthjúp sem ég óttast helst.  Þegar ég velti fyrir mér þeim breytingum sem kunna að verða á jörðinni vegna breytinga á loftslagi þá er tvennt sem ég óttast helst í okkar umhverfi við norðanvert Atlantshaf.  Hið fyrsta er lífríki hafsins í kringum Ísland.  Ég geri mér grein fyrir því að hinar frumstæðustu lífverur hafsins hafa eðli málsins samkvæmt fremur lítinn möguleika á því að aðlagast breyttum aðstæðum.  Þær eru það einfaldar að gerð að aðlögunarhæfni þeirra er mjög takmörkuð.  En vitandi það að nytjastofnarnir í kringum landið eiga sitt undir hinum frumstæðari lífverum, það gerir mig pínu óttasleginn.  Hitt atriðið eru hugsanlegar breytingar á hafstraumum.  Núna berst upp að landinu hlýr og saltur sjór að sunnan.  Þar mætir honum kaldur, minna saltur sjór, sem á uppruna í bráðnun íss norðan við okkur.  En þessi sjór sem er minna saltur liggur sem létt breiða á yfirborði en salti sjórinn úr suðrinu hverfur niður undir þann létta og heldur síðan sem kaldur botnstraumur til suðurs.  Hvað gerist ef lítill eða enginn ís er til að bráðna og þar með sökkva salta sjónum til botns?  Ég hef ekki hugmynd, en ég ímynda mér að það hljóti að vera mjög erfitt að sjá það fyrir.

 

Þrátt fyrir áhyggjuefnin sem ég taldi að ofan þá er ég sem fyrr þeirrar skoðunar að loftslagsbreytingar eru stórt verkefni til að leysa en ekki spádómur um ragnarrök.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Þetta er einmitt risastórt verkefni að takast á við loftslagsbreytingar en ekki spá um endalok veraldarinnar.    Þessvegna þurfa allir að bretta upp ermarnar. 

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 5.3.2007 kl. 00:04

2 Smámynd: Róbert Björnsson

Gore er mikill húmoristi eins og sást t.d. þegar hann tók við Óskarsverðlaununum um daginn.  Þó það sé ólíklegt á þessari stundu að hann láti plata sig út í að bjóða sig fram til forseta aftur, er pressan á hann þó alltaf að aukast og ekkert óhugsandi að hann bætist í hópinn...sérstaklega ef Hillary misstígur sig.  Það er sagt að vinátta hans við Clinton hjónin sé það sem helst heldur aftur af honum.

Róbert Björnsson, 5.3.2007 kl. 00:05

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég hef lengi ætlað að sjá þessa mynd búin að heyra mikið af henni frá vinum mínum í Þýskalandi og Austurríki. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.3.2007 kl. 00:16

4 Smámynd: Leifur Þorsteinsson

Hefur aldrei hvarflað að þér að þetta með CO2 og hitun lofthjúpsis stenst ekki

nánari skoðun, enda tala venjulegir vísindamenn aldrei öruvís en að þetta geti

verið líklegt, og jarðsagan sannar að þetta fæst ekki staðist.

Hvað varðar Gore, þá er ekki mikið varið í HEIMILDA mynd sem sýnir skriðjökul

kelfa í sjó fram og halda því fram að það sé afleiðingar hitunar loftsins, því ef

hlýnaði mundu skriðjöklar hopa og hætta að kelfa í sjó fram. Það hlýnar í lofti

en það stafar að öðru en CO2, nægir að benda á að danska Veðurstofan hefur

sýnt fram á að virkni Sólar og hitastig jarðar síðan 1840 falla saman eins og

hönd í hanska.

Leifur Þorsteinsson, 5.3.2007 kl. 08:39

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Skynsamlegur pistill hjá þér, Sigurður. Ég tek undir áhyggjur þínar.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 5.3.2007 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband