9.3.2007 | 19:54
Törnin á tökkunum
Senn líður að þinglokum en samkvæmt starfsáætlun Alþingis er gert ráð fyrir að vorþingi ljúki þann 15. mars, þ.e. næstkomandi fimmtudag. Þar sem þingkosningar eru í vor þá lýkur þingi snemma. Að sumu leyti er það eðlilegt en að ýmsu leyti er ekkert eðlilegt við starfstíma þingsins. Það er ljóst að fram að kosningum eiga stjórnmálaflokkarnir eftir ýmislegt ógert, t.d. í málefnavinnu og áherslum. Flest af því á betur heima í umræðum utan þings heldur en innan. Þá má ekki gleyma því að stjórnarflokkarnir eru orðnir svo samgrónir eftir 12 ár með lyklavöldin í stjórnarráðinu eða þeir eru með öllu búnir að glata rótum sínum og þekkja vart sínar eigin áherslur frá stefnu samstarfsflokksins. Þeir eru því í svipaðri stöðu og Bakkabræður í fótabaðinu að þeir þekkja ekki eigin bífur. Ef skoðanakannanir ganga eftir þá verða kjósendur í hlutverki förumannsins sem sló með svipunni á fætur bræðranna frá Bakka og kenndi þeim hver ætti hvaða fætur.
Alþingi er undarlegur vinnustaður og deginum ljósara að síðari tíma vinnubrögð í mannauðs- og tímastjórnun hafa ekki verið tekin upp á Alþingi. Þessu til stuðnings vil ég benda á nokkur dæmi sem Alþingismenn hafa frætt mig á.
- Þingmál sem stjórnarandstöðuþingmaður leggur fram nær aldrei í endanlega atkvæðagreiðslu þar sem þjóðin fær að vitna um raunverulega afstöðu einstakra þingmanna til málsins. Málið fær ekki endanlega afgreiðslu úr nefnd.
- Þingmál sem hefur verið lagt fram á þingi þarf að leggja aftur fram á næsta þingi þó svo að umsagnarbeiðnir og ferli málsins hafi verið komið vel á skrið (þó svo að ekki hafi verið kosið til þings í millitíðinni).
- Frumvörp til laga verða ekki til í þingnefndum, heldur ráðuneytum. Í sumum tilfellum verða ákvarðanir eingöngu til á tveggja manna tali (t.d. stuðningurinn við innrásina í Írak). En stundum fá fjórir að leggja í púkkið, s.s. auðlindaákvæðið sem stjórnarflokkarnir ætla að leggja fram. Í því máli vekur sérstaka athygli að nú er starfandi stjórnarskrárnefnd sem allir flokkar eiga fulltrúa í. Formenn stjórnarflokkanna kjósa hins vegar ekki að fara með málið í gegnum sína fulltrúa í nefndinni og frá nefndinni til þingsins!
- Sum þingmál koma mjög seint fram og hafa þingmenn því takmarkaðan tíma til að setja sig inn í málin áður en þeim er ætlað að verða að lögum. Landbúnaðarráðherra er frægur fyrir að vera með sín þingmál á síðustu stundu.
- Mál sem eru lögð fram á þingi er vísað til viðkomandi þingnefndar eftir fyrstu umræðu. Þingnefndin sendir síðan þingmálin til sérfræðinga og hagsmunaaðila til umsagnar. Þegar þingmál koma seint fram er tími fyrir umsagnaraðila styttur. Minni tími lakari rýni.
- Alþingi er löggjafasamkoma. Langstærstur hluti laganna fær endanlega afgreiðslu á síðustu dögum fyrir jól og í þinglok á vorin. Þá starfar þingið nánast allan sólarhringinn. Starfsmenn þingsins sem þykja faglegir og dugmiklir vinna jafnlengi. Slík vinnutörn þingmanna og starfsfólks þingsins býður heim hættu á yfirsjónum og hroðvirkni sem er heimatilbúinn vandi.
Framundan er lokasprettur þingsins að þessu sinni ljóst er að miðað við hefðbundin vinnubrögð þá munu þingmenn haga sér eins og bónusvíkingar við flæðilínu. Hvaða leikreglur samfélagið fær yfir sig eða óskalög hverra verða spiluð á eftir að koma í ljós. Það eina sem er á hreinu er að það verður brjálað að gera á tökkunum í næstu viku.
Athugasemdir
Það er eðlilegt að lög verði til í ráðuneytunum þegar svo gróflega er brotið á þrískiptingu valdsins eins og gert er á Íslandi. Það er gjörsamlega út í hött að ráðherra sitji á þingi, löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið á einfaldlega ekki að vera á sömu hendi. Bein afleiðing af því er að ráðherrar mættu að öllu eðlilegu ekki leggja fram frumvarp til laga þar sem einungis þingmenn mega gera það. Ekki það að slíkt myndi breyta neinu öðru en forminu - óbreyttir þingmenn í sama flokki fengju bara fyrirskipun um að leggja frumvarpið fyrir. Ef á að koma á lýðræðislegu stjórnkerfi verður að taka upp einmenningskjördæmi eða einu kjördæmi þar sem kosnir væru einstaklingar.
Gulli (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 20:25
Kannast aðeins við þingstörfin. Ég mælti fyrir frumvarpi til laga í nóvember s.l. um að ökuleyfisaldurinn yrði færður í 18 ára. Undirtektir voru góðar. Meðflutningsmenn voru Pétur Blöndal og Þuríður Bachman. Frumvarpinu var vísað í nefnd með atkvæðagreiðslu en nú er það sofnað í nefndinni. Þar getur það sofið lengi. Guð einn veit hversu lengi ef ekki að eilífu.
Kolbrún Baldursdóttir, 9.3.2007 kl. 20:38
Ég veit það bara að eins ömurlegur mórall og sá sem ríkir á vinnustað eins og Alþingi myndi ég aldrei líða á mínum vinnustað. Þeir sem myndu haga sér eins og sumir alþingismenn, rauðþrútnir, öskrandi og skammandi út í samstarfsmenn sína myndi ég um svifalaust reka. þess vegna er bara einn flokkur sem ég gef mitt atkvæði og legg ég þar með mitt á vogaskálarnar til að reka þetta leiðindarfólk.
Glanni (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 21:59
Sigurður..."keep up the good work"
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 9.3.2007 kl. 22:46
Þetta er ágætis lýsing hjá þér á því ástandi sem nú er. Það er því miður ekki í burðarliðnum nein sérstök breyting á þessu. Núverandi flokkar á þingi eru búnir að tryggja sinn áframhaldandi sess með sjálftöku á auglýsingafé úr ríkissjóði. Þeir sem raunverulega stjórna hafa heldur engan áhuga á að dreifa valdi sínu. Núverandi kjördæmaskipun virkar ekki fyrir landið í heild sinni. Það þarf meira en lítið til að breyta þessu.
Haukur Nikulásson, 10.3.2007 kl. 09:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.