13.3.2007 | 17:58
Nýting endurnýjanlegrar orku
Á fundi um virkjanir í neðri hluta Þjórsár í Árnesi fyrir skömmu talaði upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar um nauðsyn þess að Íslendingar virkjuðu sem mest af orkulindum sínum jafnt vatnsafli sem og jarðvarma. Mátti á máli hans skilja að því meira sem virkjað yrði af vatnsafli og jarðvarma hérlendis þeim mun betur tækist heimsbyggðinni að takast á við loftslagsbreytingar. Okkur bæri því siðferðileg skylda til að virkja. Máli sínu til stuðnings birti upplýsingafulltrúinn tilvitnanir í áramótaávarp forseta Íslands annars vegar og hins vegar í ræðu fyrrverandi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan. Eftir þetta erindi fannst mér eins og upplýsingafulltrúinn leggði þær skyldur á Skeiðamenn og Gnúpverja að þeir yrðu að virkja til að bjarga heimsbyggðinni sem að öðrum kosti stefndi á heljarþröm.
Í ágætri grein í Lesbók Morgunblaðsins um helgina setur Jón Kalmansson fram þá spurningu hvort það sé hnattræn skylda að virkja. Ég vil benda lesendum á ágæta umfjöllun Auðar Ingólfsdóttur um greinina og hvet fólk til að lesa blogg Auðar sem og greinina sjálfa í Lesbókinni. Ég hef litlu við að bæta.
Á fyrrgreindum Árnesfundi talaði einnig framkvæmdastjóri Landverndar, Bergur Sigurðsson. Bergur tók næst til máls á eftir fulltrúa Landsvirkjunar. Bergur hafði gjörólíka sýn á framlag Íslendinga til loftslagsvandans heldur en fulltrúi Landsvirkjunar. Bergur benti á nokkur atriði sem varða virkjanir á Íslandi og hnattræn orkumál. Eftir framsögu Bergs hafa eftirfarandi hugleiðingar mallað í kollinum á mér:
- Ef öll aðgengileg orka Íslands yrði virkjuð þá myndi hún duga til að sjá 6 milljóna borg fyrir rafmagni. Íslensku orkulindirnar eru einfaldlega ekki meiri á heimsvísu. Það er því villandi að halda því fram að íslensku orkulindirnar muni leysa einhvern alheims vanda.
- Ál er víða notað þar sem unnt væri að nota stál í sama tilgangi (máli sínu til stuðnings sýndi Bergur mynd af handriði úr áli). En það þarf um 20-30 sinnum meiri raforku til að búa hlutinn til úr áli heldur en stáli.
- Vöxtur álnotkunar er gríðarlegur í umbúðaiðnaði. Er það gott framlag til hnattrænna umhverfismála að hvetja til einnota lifnaðarhátta? Eigum við ekki frekar að kenna heimsbyggðinni skilagjaldskerfið okkar á álumbúðum? Til að bræða álúrgang í endurvinnslu þarf eingöngu 5% af þeirri raforku sem þarf til frumvinnslunnar.
- Er það ekki betra framlag frá Íslendingum til umhverfismála heimsbyggðarinnar að starfa sem ráðgjafar við jarðhitanýtingu í Kína?
Mér fannst erindi framkvæmdastjóra Landverndar firna gott og fannst hann svara siðferðispredikun Landsvirkjunar skýrt og skilmerkilega.
Eftir stendur að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps á eftir að fara yfir athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins og ákveða í framhaldinu hvort virkjanaáformunum verði haldið til streitu. Hver skyldi vera hennar sýn á umhverfismál heimsbyggðarinnar? A.m.k. er umhverfis-, samfélags- og efnahagslegur ávinningur fyrir íbúa sveitarfélagsins vandfundinn.
Athugasemdir
Sammála þessu, gott innlegg í umræðun. Á vefsíðu Ómars Ragnarssonar um daginn kom fram að í Yellow Stone þjóðgarðinum í USA er a.m.k jafnmikil orka sem fengist úr háhitasvæðinum og við höfum hér en þeir hafa verndað það sl. 40 ár og enginn fær að virkja þar. í Noregi er nóg af hreinni og endurnýjanlegri orku þar sem óvirkjaða vatnsafl landsins, sem að magni til er meira og hreinna en það vatnsafl sem er óvirkjað á Íslandi.
Andrea
Guttormur, 13.3.2007 kl. 20:31
Mér fannst líka ágætispunktur sem kom fram á fundinum, að sveitarstjórn ætlaði ekki að samþykkja skipulag fyrr en samkomulag næðist við landeigendur. Sveitarstjórn ætlar að afgreiða málið fyrir vor, en Landsvirkjun áætlar að ljúka samningum við landeigendum fyrir árslok. Sveitarstjórn getur því ekki afgreitt málið nema með neitun á þeim tíma...
Guðlaugur Kristmundsson, 13.3.2007 kl. 20:40
Það þarf að koma þessum punkti betur til skila hve lítil þessi virkjanlega orka á Íslandi er í alþjóðlegu samhengi. Nú dynja á mogganum lesendabréf þar sem því er haldið fram að það sé nánast skylda íslendinga að virkja sem mest til að framleiða ál svo það verði ekki framleitt með enn meira mengandi hætti annarsstaðar. Menn fullyrða jafnvel að stór alþjóðleg náttúruverndarsamök muni legga að íslendingum (og jafnvel krefjast þess) að þeir fari þessa leið!
Haraldur Rafn Ingvason, 13.3.2007 kl. 23:42
Sælinú
Ég er fyrrverandi álversandstæðingur. Miðað við bílaeign, flugæði, húsbyggingaæði og malbiksæði Íslendinga þá eru álver ágætis leið til að bæta fyrir þann skaða sem Íslendingar valda annars staðar í heiminum með lifnaðarháttum sínum.
Neyslan og bruðlið er yfirgengilegt á Íslandi. Ef heimurinn neytti olíu á við Íslendinga þá myndi hún endast í 10 ár. Stoppið bruðlið og þá skal ég leggjast gegn virkjunum.
Kveðja
Gaui
Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 08:44
Mæl þú manna heilastur, mikið er gott að lesa svona annað slagið.
Jón Gunnar Kristinsson
Jón Gunnar Kristinsson, 15.3.2007 kl. 22:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.