Ég, Björgólfur Thor og evran

Við Björgólfur Thor Björgólfsson höfum verið að velta því fyrir okkur að taka upp evruna.  Við höfum að vísu ekki borið saman bækur okkar um það hvort og þá hvernig heppilegast sé að standa að þessu enda hafa leiðir okkar, eftir því sem ég best veit, aldrei legið saman. 

Björgólfur Thor mun vera með efnaðari mönnum á Vesturlöndum og það sem fyrir honum vakir er að bókfæra í evrum, lítinn bílskúrsrekstur, Straum Burðarás, sem hann á í félagi við aðra.  Ég hef ekki átt þess kost að kíkja í bækurnar hjá Björgólfi en það er fullyrt í fréttum að Straumur Burðarás starfi að stærstum hluta utan Íslands, þó svo að reksturinn sé skráður hérlendis.  Fram hefur komið að Straumur Burðarás sé með viðskipti sín erlendis í allmörgum gjaldmiðlum en ekki eingöngu evrum.    

Ég hef verið að setja mig í spor Björgólfs Thors og félaga og hef reynt að glöggva mig á því hvers vegna þeir vilja losna undan krónunni og því þeir kjósi evruna í staðinn.  Mér gengur allvel að skilja flótta þeirra undan krónunni.  Það er auðséð að þegar við búum við afleita efnahagsstjórn sem fer þannig fram að ríkisstjórnin gerir það sem hún getur til að auka þenslu en Seðlabankinn hamast á móti við að halda verðbólgunni niðri með því að hækka stýrivextina, þá verður einhvers staðar að tappa þrýstingnum af kerfinu.  Í óstjórninni er það eingöngu gert með breytingum á genginu (það gerist raunar sjálfvirkt).  Það er því ekkert undarlegt við það að þeir sem eru með starfsemi í mörgum löndum vilji vera með allan sinn rekstur í erlendri mynt.  Í því sambandi má benda á að þær breytingar sem verða innbyrðis á milli erlendra gjaldmiðla eru óverulegar í samanburði við háttalag krónunnar.  Ef jen eða dollar hækka eða lækka um 2% gagnvart pundi eða evru þá súpa menn hveljur á erlendum mörkuðum en slíkar breytingar á krónunni eru nánast bara dægursveifla.  Íslenska krónan er því um margt sambærileg íslenska veðrinu og dúndrast upp og niður, en stærstu breytingar sem verða á erlendum gjaldeyrismörkuðum eru í huga íslenskra fyrirtækja innan þess svigrúm sem við myndum kalla geirnegldan stöðugleika.  En af hverju vill Straumur Burðarás taka upp evru frekar en aðra mynt?  Það þarf ekki að koma á óvart þar sem að á bak við evruna eru m.a. þýska, franska, spænska, ítalska, portúgalska, austurríska, belgíska, hollenska, írska og lúxembúrgíska hagkerfið.  Auk þess sem flest hin nýju aðildarríki Evrópusambandsins í eystri hluta Evrópu stefna að upptöku evrunnar.      

Mínar forsendur fyrir upptöku evrunnar eru af öðrum toga en Björgólfs Thors.  Ég og fjölskylda mín erum með allar eignir, tekjur og skuldir hérlendis.  Það sem fyrir okkur vakir er að reyna að minnka skuldir heimilisins eins og kostur er. 

 

Eins og í tilfelli flestra venjulegra launamanna á Íslandi þá eru skuldirnar fyrst og fremst það sem hvílir á íbúðinni sem við keyptum árið 2002.  Þá tókum við lán upp á kr. 7.250.000 til 40 ára hjá Íbúðalánasjóði.  Nú er staða lánsins þannig að við skuldum 8.439.297 og erum að greiða um 43.000 á mánuði.  Við erum því búin að greiða 2,3 milljónir af láninu en á sama tíma hefur það hækkað um 1,2 milljónir.

 

Hvað er til ráða?  Við höfum við verið að velta því fyrir okkur að taka myntkörfulán t.d. hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum.  Við höfum fylgst með ábendingum fjárfróðra manna sem hafa bent á að það kunni að vera vafasamt að taka há lán sem eru bundin við eina mynt og því sé viturlegra að taka slík lán sem eru samsett af nokkrum gjaldmiðlum.  Ef stórkostlegar breytingar yrðu á gengi einnar myntar þá þyrftum við ekki að óttast stóran skell.

 

Tvennt hefur valdið því að við höfum ekki látið til skarar skríða og ráðist í endurfjármögnun húsnæðislánanna.  Annars vegar er það stimpilgjaldið sem við héldum að yrði lagt af hið snarasta, ekki síst þegar það fréttist að jafn ólíkir þingmenn og Jóhanna Sigurðardóttir og Pétur Blöndal væru samsinna um slíka gjörð.  Ég veit ekki fyrir hvað fólk er að borga með þessu stimpilgjaldi, ég kem a.m.k. auga á það sem þjónustu eða umsýslukostnað, en stjórnvöld hafa ekki lyft litla fingri til að lækka eða afleggja það en þess í stað verið upptekin af lækkun skatta á þá sem bera mest úr býtum.  Þess í stað mega venjulegir launamenn og fjölskyldufólk éta það sem úti frýs.  Hin ástæðan fyrir því að við hikum við endurfjármögnunina er sú að við það breytist greiðslubyrðin umtalsvert. 

 

Ef ég læt þá Frjálsu um endurfjármögnun úr valinni myntkörfu þá geri ég ekki ráð fyrir gengisbreytingum og fæ vexti á 3,96%.  Til að byrja með snarhækkar greiðslubyrðin og verður um 10 % hærri en hún er í dag en eftir 5 ár verður hún komin á svipað ról og nú er en eftir það lækkar hún og eftir 10 ár er hún orðin um 90 % af því sem hún er í dag.  Heildargreiðslan af kr. 8.439.297 verður kr. 14.468.660 á öllum lánstímanum en ef ég held áfram að vera þægur og greiða Íbúðalánasjóði uppsett gjald þá mun ég á lánstímanum greiða þeim samtals kr. 29.353.648.  Þessar tæpu 15 milljónir sem skeikar á Íbúðalánasjóði og myntkörfunni eru afar freistandi.  En þessir útreikningar miðast við að enginn lántökukostnaður sé greiddur, en í dæminu að ofan þá er hann um 220.000.  Ef ekkert væri stimpilgjaldið þá væri endurfjármögnun með erlendri mynt raunhæfur kostur en ef maður þarf að auka heimilisskuldirnar til að skuldbreyta þá er vafasamt að leggja út í þá aðgerð.  En þar sem ég kann ekki að spá fyrir um gengisbreytingar og það eina sem ég veit er að gengi krónunnar muni breytast þá er ég sem fyrr tvístígandi. 

 

Ég held því áfram mínu hiki en hvað Björgólfur Thor kann að gera, veit ég ekki.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Fyrsta sem þú verður að venja þig við, áður en þú tekur upp evruna er að kalla hana Euro - (sagt júró - eintala og júrós fleirtala), því annað er bannað samkvæmt reglum ESB.

Annað skilyrði fyrir að við á Íslandi getum tekið upp Euro er að ársverðbólgan verði komin niður fyrir 2,5% og kominn á stöðugleiki í hagkerfinu.

Með öðrum orðum, þegar við getum tekið upp Euro, þá eru aðstæðurnar í hagkerfinu okkar orðnar þannig að þessi ávinningur er horfinn.

Varðandi erlendu lánin, þá er talað um að geta tekið á sig 20% sveiflur í afborgunum. Semsagt ef þú borgar 43þ á mánuði í dag, þá verður þú að geta borgað 51.600 í næsta mánuði, án þess að þú verðir svangur eða þarft að selja bílinn. En bankastarfsmenn í lánadeildum viðurkenna þegar á þá er gengið, að myntlán eru raunhæfur kostur.

Júlíus Sigurþórsson, 14.3.2007 kl. 18:32

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Já þetta er góð grein og þarfleg/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 14.3.2007 kl. 20:57

3 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Góður pistill hjá þér.

Svava frá Strandbergi , 14.3.2007 kl. 21:32

4 Smámynd: www.zordis.com

     

www.zordis.com, 14.3.2007 kl. 22:04

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð spurning hvort taka eigi upp Euro.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 15.3.2007 kl. 09:34

6 identicon

Hef rekið mig á að þessi myntkörfusamsuða er ekki góð frekar en ísl.kr ein og sér mv núverandi stöðu.

miðað við stöðuna núna er skynsamlegt að velja sér eina-tvær stöðugar myntir td. jap.yen og svissneska franka.  það kostar lítið sem ekkert að breyta lánunum (ca. 5-10 þús) nú þegar verðbólgan fer aftur niður þá er bara hægt að skipta aftur, einfalt ekki satt.

Það vill loða við að fólk trúir bankastarfsfólki í blindni án þess að kynna sér hlutina neitt. Afhverju haldið þið að bankarnir græði svona mikið? Það er vegna þess að viðskiptamódelið hjá þeim  er stílað upp á að þeir græði sem mest en ekki að viðskiptavinirnir græði.  Bankarnir eru bara einkarekin fyrrtæki sem eru að ná sér í sem mestan hagnað,það liggur í hlutarins eðli í fyrirtækjarekstri enda hefur það sýnt sig að þeir eru eiginlega í vandræðum með allann hagnaðinn.

Varðandi upptöku á evru  þá held ég að það sé ekki góður kostur fyrir okkur almúgan, þó það gæti kannski hentað mönnum eins og Björgúlfi að gera fyrirtækin sín upp í evrum,það er ekki sami hluturinn að taka upp evru og gera fyrirtæki upp í evru sem geta verið skráð hvar sem er í heiminum

Það er dýrara að vera í evrópusambandinu en að vera þar ekki og ef við göngum í það verður EKKI aftursnúið. Mig minnir að ég hafi séð einhversstaðar að öll aðildarlöndin nema austurevrópulöndin sjá eftir því að hafa gengið í þennan evrópuklúbb.

Annars ágætur pistill hjá þér

Glanni (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 09:56

7 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ágæt grein. Við erum flest með þessi lánamál á bakinu og enginn getur sagt fyrir um þróun þessara peningamála vegna þess hversu þungt huglægi þátturinn vegur í þessu samhengi öllu. Væri til patent lausn værum við öll líklegast að nota hana.

Haukur Nikulásson, 15.3.2007 kl. 14:10

8 Smámynd: Jón Gunnar Kristinsson

Góður pistill!

 Jón Gunnar Kristinsson

Jón Gunnar Kristinsson, 15.3.2007 kl. 22:41

9 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Athyglisverð pæling. Man örvæntinguna sem geysaði haustið 1983 þegar húsnæðilánin hækkuðu í takt við ægiverðbólgu. Úff...  gott að vera ekki þáttakandi í þessu

Guðrún Þorleifs, 16.3.2007 kl. 06:41

10 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

Á einn eða annan hátt, áður en langt um líður mun hér verða breytinga á þrátt fyrir yfirlýsingar Davíð Oddssonar o.fl. Til að þetta gerist liggja margar ástæður og margir samtvinnaðir þættir. T.d. eru ekki margir sem taka lengur húsn. eða bílalán í ísl.kr. Æ fleiri eru að hugsa málið varðandi skrif þín og hugsun er til alls fyrst, síðan er það þannig að líkt dregst að líku, sem myndar þá sífellt stækkandi orkuöldu og svo sjáum við hana raungerast í efninu. Stöndum svo saman, það er styrkur að því. Sjáum svo hvað setur og eigðu góðan dag!

Vilborg Eggertsdóttir, 16.3.2007 kl. 12:44

11 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Lestu nú voða vel Sigurður, ég ætla að seila með þér reynslu minni! Þú færð stuttu útgáfuna, nenni ekki að skrifa mjög mikið núna!

Ég kom heim frá Evrópudvöl eftir 6 ár í Danmörk og 2 í Hollandi, árið 2004!...ég fékk sjokk á bankamarkaðnum hér heima!

Átti hús í Danmörk og þar voru 6,5 % vextir án verðtryggingar!

Árið 2002 tóku í gildi einhverjir ESB samningar sem gerðu það að verkum að Ísland varð bjóða erl. myntir líka í lan (hef heyrt að Íslnadsbanki hafi riðið á vaðið fyrr).

Ég (sem nenni varla að hugsa um pening) lagðist yfir reiknivélar bankanna3 (sem hurfu eftir gengisfellinguna fyrir ári síðan).

Ég átti pening frá Danmörk og þurfti 10 millj kr lán (mikið hærra en þitt)

Tæki ég það í verðtryggðu ísl. láni þá (2004) með 2.5% verðbólgu (gerði ráð fyrir verðbólgumarkmiði Seðlabankans) í 40 ár yrði heildarkostnaður 56 millj. 

Tæki ég lánið í jenum (lægstu vextir ) og svissneskum frönkum (næstlægstu vextir plús það að fylgja Evrunni í stöðugleika) þá myndi ég borga af 10 millj í 40 ár tæpar 18 millj. í heildarkostnað...(ath, engin verðtrygging)

Ég var ekki lengi að hugsa mig um og tók 50%, 50% í jenum og sw franka!

Þetta var í enda árs 2004 og krónan styrktist allt árið 2005 svo ég borgaði bara sömu upphæð á eina bók og þar safnaðist svo sannarlega fyrir...þegar krónan féll svo í mars 2006 fann ég ekkert fyrir því (og finn ekki enn)

2 bankabækur leysa jöfnuna um óvissu krónunnar

Ég ætlaði auðvitað að leysa út pening í íbúðinni minni (hafði hækkað og hækkað og er enn að hækka)

Þá höfðu bankarnir3 tekið út allar reiknivélar um erl. lán á sínum heimasíðum ásamt verðbólguþáttinum, enda jókst hún bara)

Þeir breyttu líka (Ísl.banki og landsbanki) erl. veði úr 80% í 50% vegna áhættu!???

Kaupþing var og er með 70%

Ég fór til Jóhannesar í Neytendasamtökunum og hann var svo sætur að skrifa bréf til bankastjóranna.

Lélegri svör hef ég varla fengið, enda ekki vön fjármálaheimi karlmanna!

Í stuttu máli gekk þetta allt saman út á ÁHÆTTU ney tenda..???...en auðvitað er hún engin ef krónan er lág!!!

Á sama tíma (vor 2006) tóku bankarnir stærsta SAMBANKALÁN íslandssögunnar...í evrum...(einmitt það sem ég ætlaði að gera)

Frjálsi Fjárfestingarbankinn kom svo á markaðinn í vor með myntkörfurnar sínar og einu reiknivélina núna á netinu (þær voru hjá öllum bönkum á sama tíma fyrir ári)

...svo mitt ráð til þín Sigurður er TAKTU MYNTKÖRFU NR. 4 HJÁ FRJÁLSA FJÁRFESTINGARBANKANUM!

Eftir 10 ár ertu búin að borga höfuðstólinn svo mikið niður að þetta verður fín Ellilýfeyrisfjárfesting!!!

Svona hugsa ég...og þetta hef ég gert!

Bestu kveðjur

Anna 

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 16.3.2007 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband