19.3.2007 | 20:19
Popp, kók og vísindi
Raunvísindadeild Háskóla Íslands stendur um þessar mundir fyrir röð fyrirlestra sem bera heitið Undur veraldar. Þar er margt áhugavert á dagskrá og vil ég hvetja menn til að sækja þessar samkomur því á þeim eru fluttir fyrirlestrar af hinum færustu vísindamönnum um margvísleg vísindi sem tengjast jörðinni. Fyrirlestrarnir eru ætlaðir almenningi og því eru þeir á auðskyldu máli og aðgengilegir hverjum þeim sem hefur áhuga á viðfangsefninu. Ég reyni eins og kostur er að fylgjast með fundum, ráðstefnum og málstofum sem snerta starfs- og áhugasvið mín og finnst mjög áhugavert að hlusta á skynsamt fólk flytja skipulögð erindi um það sem það hefur þekkingu á. Það er kærkomin tilbreyting frá hversdagslegu gjammi og gjálfri.
Því miður hef ég ekki átt heimangengt til að fylgjast með fyrirlestrunum til þessa, þar til síðast liðinn laugardag, þá komst ég á afar góðan fyrirlestur. Þar flutti Sigurður Reynir Gíslason jarðefnafræðingur á Jarðvísindastofnun Háskólans erindi sem nefndist: Loftslag, gróðurhúsaáhrfi og binding koltvíoxíðs í bergi. Á þessari samkomu var nafni minn ekki að skila rannsóknarniðurstöðum sínum til kolleganna í vísindasamfélaginu, heldur að kynna fyrir áhugasömum sína aðkomu að rannsóknum á kolefnisbúskap jarðar. Áður en fyrirlesturinn hófst var búið að stilla upp nokkrum munum á borðið í fyrirlestrarsalnum. Þar voru visin laufblöð, gráleitur hnullungur, silfurberg úr Helgustaðanámunni við Reyðarfjörð, pottablanta í hnignun, vatn, kók og sódastream-tæki. Ég hélt í fyrstu að nafni ætlaði sér að innbyrða alla drykkina en að aðrir hlutir væru þarna sem hluti af e.k. skrauti fyrirlestrarsalarins. Það reyndist hinn mesti misskilningur. Allir þessir munir höfðu hlutverki að gegna til að skýra eitt og annað í hegðun kolefnis á jörðinni.
Þeir sem þekkja til nafna míns vita að þeir verða ekki fyrir vonbrigðum með því að mæta á fyrirlestra hans. Á námsárunum í Háskóla Íslands þá sat ég námskeið sem hann kenndi ásamt Stefáni Arnórssyni prófessor, sem er afar snjall sérfræðingur í efnafræði heita vatnsins en Sigurður Reynir hefur sérhæft sig í efnafræði kalda vatnsins. Þegar nafni kenndi sinn hluta námskeiðsins þá fórum við nemendurnir með honum í helgarferð í Þórsmörk. Meðferðis höfðum við nauðsynlegan búnað til sýnatöku og greininga á kolsýru í vatni. Einnig höfðum við meðferðis tússtöflu svo unnt yrði að kenna með hefðbundnum hætti í Skagfjörðsskála í Þórsmörk. Við mættum í Þórsmörk og tókum sýni úr lindum á svæðinu og einnig úr Lóninu sem fellur undan Gígjökli sem kemur frá gíg Eyjafjallajökuls. Í Lóninu mældum við ótrúlega háan styrk af kolsýru. Ári eða tveimur síðar fór Sigurður Reynir enn á ný með nemendur sýna í Þórsmörk og endurtók hópurinn sams konar mælingar. Upp úr þessarri vinnu urðu til lærðar greinar sem við nemendurnir vorum afar stolt af að eiga nokkurn þátt í.
En í erindi sínu á laugardag fór Sigurður Reynir yfir kolefnishringrásina og birti þar m.a. gögn sem eru gamlir kunningjar úr mynd Al Gore ásamt öðrum gögnum og sínum eigin mælingum. Eins og ég gat um þá var nafni með kókflöskur á borðinu hjá sér. Önnur þeirra var ósnert 0,5 lítra flaska en hin var með 380 ml af kóki. Innhaldið var ekki valið af tilviljun. 380 ml flaskan var til þess að benda á það hlutfall sem er af koldíoxíði í hverjum rúmmetra lofts. En sú sem var óupptekin var "týnda" koldíoxíðið. Þ.e.a.s. ef saman er tekin öll losun á koldíoxíði frá upphafi iðnbyltingar þá mælast nú 380 ppm í andrúmsloftinu en ættu að vera um 880 ppm ef engin binding hefði átt sér stað. Sigurður benti á það á hérlendis væri náttúruleg binding í bergi miklu meiri en binding í gróðri, þar sem íslenska bergið, basaltið, hefur þá sérstöðu miðað við berggrunn flestra annarra landa að hvarfast við koldíoxíð um leið og það ummyndast. Það mátti á honum skilja að það hlyti að vera fyrst og fremst berg af svipaðri gerð og hvað mest er af hérlendis sem hefði bundið meirihluta koldíoxíðsins sem losað hefði verið en mældist ekki í andrúmslofti.
Þegar hér var komið í fyrirlestrinum fór ég að hugsa er e.t.v. heppilegra að hafa svæði eins og Mýrdalssand ógróinn í þeirri von að ummyndun sandsins fæli í sér mun meiri bindingu koldíoxíðs heldur en skógi vaxinn sandurinn. Ég bar þessa spurningu upp þegar erindinu var lokið. Sigurður benti mér á að mælingar til að meta slíkt hefðu ekki farið fram en það væri full ástæða til að rannsaka það.
Áhugaverðasti hluti fyrirlestrarins var um rannsóknarverkefni sem er verið að afla fylgis og fjármagns en það gengur m.a. út á það að reyna að dæla uppleystu koldíoxíði niður í jarðlög við jaðar jarðhitasvæða. Í sama rannsóknarverkefni er til skoðunar hvort unnt væri að taka útblástur frá álveri og senda í gegnum sívalning fylltan jarðefnum í þeirri von að flúor og brennisteinn, sem talsvert er af í útblástri álvera, virki sem hvati til að binda koldíoxíð. Eins og svo oft áður þegar ég hlusta á fyrirlestra Sigurðar Reynis þá fyllist ég bjartsýni og spenningi. Ég vona innilega að af þessu verkefni verði og ætla mér að fylgjast með framvindu þess fullur bjartsýni.
Athugasemdir
Þetta er auðvitað mjög áhugavert var ekki einhver útlenskur milli að auglýsa eftir verkefnum af þessu tagi nýega. Eða var það bara draumur.
Matthildur Ágústa Helgadóttir Jónudóttir, 20.3.2007 kl. 00:15
Mjög fróðlegt Sigurður.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 20.3.2007 kl. 02:51
Takk fyrir, greinilega fræðandi að fylgjast með.
Ester Sveinbjarnardóttir, 20.3.2007 kl. 03:18
Sæll. Minningar úr ferð þessari í Þórsmörk eru sælar. Og það var synd að komast ekki á þennan fyrirlestur, hann hefur greinilega verið skemmtilegur.
Hvað skyldi svo Sveinn Runólfsson segja um þessar pælingar um upptöku sandsins?
Þorbjörn Rúnarsson (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 08:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.