Dylan í Laugardalnum

Mér er það fullljóst að margir voru hundfúlir yfir Dylan tónleikunum í kvöld.  En þeir (tónleikarnir) voru alls ekki alvondir.

Hljóðfæraleikurinn var óaðfinnanlegur og það var frábært að heyra gömul lög í útsetningum sem ég hafði aldrei heyrt áður.  T.d. má nefna Blowing in the Wind. Vitaskuld eiga þau skilaboð sem þar er komið til skila fullt erindi enn þann dag í dag.  En það hefði verið ótækt að flytja þau í gamla raunsæis-þjóðlagastílnum sem við þekkjum hvað best.

En það var líka eitt og annað sem hefði mátt fara betur.  Við hefðum þurft að hafa smá "blowing wind" í salnum, því það var óbærilega heitt.  Salurinn er vissulega frjálsíþróttasalur hefur reynst vel sem slíkur, en maður hefði átt að taka til gamla tauið frá því að maður var að æfa frjálsar.  A.m.k. hefðu stuttbuxur, hlýrabolur og svitaband um ennið komið sér vel.

Þess utan var Dylan allt öðru vísi en ég átti von á.  Framan af fannst mér ég heyra blús og stundum með e.k. Dixieland-ívafi (ég veit að það er ekki til, en slík var upplifunin).  Þá virkaði kappinn fremur kraftlítill.  Ekki veit ég hvort um er að kenna löngu flugi (mér var sagt að hann væri nýkominn frá Nýja-Sjálandi), slæmri hljóðblöndun eða hreinlega að sá gamli væri farinn að láta á sjá.

Þrátt fyrir ofantalda annmarka þá skemmti ég mér prýðilega og helst vildi ég setja Dylan á fóninn næstu tímana, en það er vinnudagur á morgun og allir í kotinu komnir undir sæng svo ég læt það ógert. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Heyrði frá tveimur í gær sem sögðu að illgerlegt hefði verið að heyra textaflutning Dylans og að sum lögin hafi verið í mjög svo undarlegum útsetningum. Raunar svo skrýtnum að viðkomandi þekkti þau ekki fyrr en í miðju lagi.

Persónulega tel ég Dylan afleitan flytjanda en frábæran laga- og textasmið. Smekksatriði eru þó þannig að um þau má endalaust dyla... deila. 

Haukur Nikulásson, 27.5.2008 kl. 08:48

2 Smámynd: Sigurður Ásbjörnsson

Ég stóð mig að því sama, þ.e. að hlusta á það sem ég hélt að væru ný en flott lög, en áttaði mig á því eftir smá stund að þetta voru gamlir smellir í framandi útsetningum.  En það dularfulla við tónleikana var samsetning söngs og hljóðfæraleiks.  En sem fyrr sagði veit ég ekki hvort það var við Dylan eða tæknimenn að sakast.  Textaflutningur Dylans minnir um margt á textaflutning Megasar.  Ef maður er að heyra lög frumflutt með þeim á tónleikum þá nær maður ekki orðaskilum.  En þekki maður kveðskapinn þá nýtur maður þess að heyra nýja útgáfu á tónleikum.

Sigurður Ásbjörnsson, 27.5.2008 kl. 09:12

3 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég er sammála þér Sigurður. Ég skemmti mér konunglega á tónleikunum og þótt ég hefði alveg viljað heyra gömlu lögin í upprunalegri útgáfu þá var það ekki stórmál. Þau er hægt að setja á fóninn heima í stofu. Hljómsveitin var hreint frábær og lögin öll frábærlega samin eins og Dylans er von og vísa.

Steingerður Steinarsdóttir, 27.5.2008 kl. 09:24

4 identicon

Mér fannst þetta bara frábærir tónleikar .

Jón Helgi 

Jón Helgi Gíslason (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 11:18

5 Smámynd: Júlíus Valsson

Karlinn var frábær og bandið óaðfinnanlegt. Hljómburðurinn var eins og við mátti búast í Höllinni. Hefur sem sagt ekkert lagast. Ekki skrítið þó fólk nenni ekki lengur að fara á tónleika hér á landi.  Einnig er það spurning hvort það er ekki löngu úrelt fyrirkomulag að bjóða fólki að standa upp á endann í hitasvækju í tvo tíma? Fínt fyrir unglinga sem eru að slamma en ekki hina. Þeir sem skipuleggja tónleika hér á landi ættu að skreppa til Nashville í USA og læra hvernig góð hljómkerfi á tónleikum eiga að hljóma.

Júlíus Valsson, 27.5.2008 kl. 13:41

6 identicon

Röddin er svolítið mikið blowin in the wind hjá kallinum, en bara mjög fínir hljómleikar annars og hljómsveitin alveg fantagóð. Ég segi eins og Júlíus að hljómburðurinn er slæmur þarna og hitasvækjan var hræðileg. 

Stefán (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 15:47

7 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Ég náði þessum orðaskilum : It´s either one or the other or neither of the two og þetta rumbling..  Sé ekki eftir að hafa mætt á þessa ágætu tónleika þó að heyrist svona og svona í söngvaranum eins og í spilaranum hér.

Pétur Þorleifsson , 27.5.2008 kl. 16:43

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Fínir tónleikar. Hljómsveitin var hreint frábær, hefði bara mátt sleppa framan af sér beislinu meira ef eitthvað er. Hef ekki heyrt svona hrátt og ferskt köntrí síðan ég sá North Missisipi allstars. Radsetningin hjá BD var ekki algalin, en hann hefði mátt vera með bakraddir, helst gospel, til að setja aðra vídd í herlegheitin. Hitinn var merkielga mikið, sem "betur fer" dansa íslendingar ekki, því þá hefði fyrst soðið upp úr.

Arnar Pálsson, 28.5.2008 kl. 11:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband