FÍB svífur yfir umhverfisráðuneytinu!

Fyrsta Stefnumót umhverfisráðuneytisins og Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands var haldið föstudaginn 2.febrúar 2007.  Til umfjöllunar var svifryk til umræðu undir fundarheitinu Hvað svífur yfir Esjunni?

Erindi stefnumótsins voru þrjú:
Þorsteinn Jóhannsson jarðfræðingur og meistaranemi í umhverfis – og auðlindafræðum flutti erindi sem hann nefndi Orsakir svifryks

Sigurður Þór Sigurðarson læknir flutti erindi sem nefndist Áhrif svifryks á heilsufar

Ingimar Sigurðsson skrifstofustjóri umhverfisráðuneyti talaði um Aðgerðir stjórnvalda til að minnka svifryk

Tilefni þessarar færslu er síðasta erindið á þessari samkomu.  Ingimar gerði þar grein fyrir tillögum starfshóps á vegum umhverfisráðuneytisins.  Sannast sagna var engar afdráttarlausar tillögur að heyra frá starfshópnum.  Nokkuð sem olli mér umtalsverðum vonbrigðum þar sem ég var fullur væntinga eftir að hafa heyrt það haft eftir Jóninu Bjartmars að hún teldi mikilsvert að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.  En einnig höfðu borist af því fréttir að starfshópurinn hefði lagt til að aðflutningsgjöld af ónegldum hjólbörðum yrðu lækkuð eða jafnvel felld niður.  En sú hugmynd hefur mér fundist með öllu gagnslaus.  Í stuttu máli sagt þá eru tillögur starfshópsins fremur fátæklegar og ljóst að ávinningur af þeim verður óverulegur ef þá nokkur.  Því miður er starfshópnum fyrirmunað að ráðast að rót vandans og leggja til alvöru aðgerðir til að draga úr umferð einkabíla.  Það sem verra er, mengunarbótareglan virðist tabú hjá umhverfisráðuneytinu.  En skýring þessa er auðfundin þegar maður skoðar hverjir sátu í starfshópnum.  Í starfshópnum voru fyrrnefndur skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, formaður starfshópsins, en auk hans, fulltrúar samgönguráðuneytis, Hollustuverndar ríkisins, umferðarráðs, FÍB og Reykjavíkurborgar.  Ég verð að lýsa yfir fyrirlitningu minni á því að skipa fulltrúa frá umferðarráði og FÍB í slíkan hóp.  Það er vísasta leiðin til að tryggja að ekkert verði aðhafst sem máli skiptir.  

 

Í fyrirspurnum að loknum erindunum bar starfsmaður Reykjavíkurborgar fram fyrirspurn þess efnis hvað væri að því að þeir sem ættu mestan þátt á eyðingu gatna borgarinnar væru látnir greiða fyrir kostnaðinn sem af því hlýst.  En fyrirspyrjandinn upplýsti að slitið næmi um 12.000 tonnum á ári, bara í Reykjavík!!  Fulltrúi umhverfisráðuneytisins greindi frá því að ekki hefði náðst samstaða í starfshópnum vegna andstöðu fulltrúa FÍB við allar hugmyndir um gjaldtöku.  Um þetta er óþarft að hafa nokkur orð.  Því miður er undirlægja umhverfisráðuneytisins við fulltrúa þeirra sem hafa neikvæð áhrif á umhverfið orðið að reglu en ekki undantekningu.  En afar dapurlegt er til þess að vita að starfshópur sem á að starfa á faglegum forsendum en ekki pólitískum skuli ófær um að sinna hlutverki sínu.  Hvernig ætli standi á því?

Sigurður


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband