10.2.2007 | 18:14
Ríkisrekið stóðlífi
Þessi pistill er ekki um málefni Byrgisins ef einhverjir hafa lesið þannig í fyrirsögnina þá verða þeir hinir sömu fyrir vonbrigðum. Ég ætla mér að fjalla um hluta landbúnaðarins en ekki rekkjubrögð misyndismanna.
Eins og kunnugt er gerðu sauðfjárbændur og landbúnaðarráðherra með sér nýjan samning fyrir skömmu: Að sinni ætla ég ekki að fjalla um þann samning. Þess í stað ætla ég að fjalla um aðra búgrein, nefnilega hrossaræktina. Hrossaræktin er sú búgrein sem hefur tekið heljarstökk fram á við á fáeinum áratugum. Flest það sem gerst hefur í þessari búgrein hefur átt sér stað án afskipta ríkisins. Auðvitað hafa menn rekið sig á og ráðist í verkefni sem voru illa ígrunduð og vart rekstrarlegar forsendur fyrir. Dæmi um slíkt er reiðhöllin í Víðidal í Reykjavík.
Hin jákvæða þróun í hrossaræktinni þar sem greinin hefur þróast yfir í mikla fagmennsku og alvöru atvinnugrein án afskipta ríkisvaldsins hefur gengið án afskipta ríkisvaldsins. Ég veit ekki hvernig á því stendur en það er eins og þessi þróun fari í taugarnar á landbúnaðarráðuneytinu. Í stað þess að notast við hrossaræktina sem fyrirmynd fyrir aðrar búgreinar og draga úr ríkisstyrkjum til þeirra þó ekki væri nema skref fyrir skref á ákveðnum aðlögunartíma þá hefur landbúnaðarráðherra lagt sig fram með ráðum og dáð við að koma hrossaræktinni á jötuna. Um þetta eru mörg dæmi, ég minni á hið undarlega embætti, umboðsmaður íslenska hestsins, launað hestalandslið, 330 milljónir í 28 reiðhallir vítt og breytt um landið.
Ég held það væri landbúnaðarráðuneytinu hollt að staldra við og rifja upp hvert hlutverk ríkisvaldsins, a.m.k. endrum og sinnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.2.2007 | 20:54
Góð frammistaða í vikunni
Ég hét sjálfum mér því þegar ég ákvað að reyna fyrir mér á þessum vettvangi bloggheima að ég myndi aldrei fjalla um: úrslit í íþróttakappleikjum, sjónvarpsdagskrána, matargerð á heimilinu og persónulegan kláða.
Ég gæti hins vegar þegið ábendingar bloggverja og annarra gesta þessa párs að fá ábendingar um framsetningu efnis. Sjálfur hef ég verið mikill sveimhugi varðandi þá aðferð sem best gefst við að velja framsetningu efnis. T.d. finnst mér að sú leturgerð sem birtist hjá mér sé þess eðlis að stafirnir renni saman. Ef einhver getur bent á rétta skjámynd eða annað sem kann að nýtast þá tek ég öllum ábendingum fagnandi. Þeir sem ekki vilja senda mér ábendingar sem athugasemd í bloggkerfinu mega senda mér línu í tölvupósti á netfangið: sas@vortex.is.
En tilefni þessarar færslu er frammistaða tveggja aðlila sem ég sé sérstaklega tilefni til að hrósa eftir fréttir vikunnar. Fyrstan vil ég nefna Pétur Haukson sem benti á nauðsyn þess að umsvifalaust yrði gripið til aðgerða til að sinna fórnarlömbum misnotkunar í Byrginu, ekki væri verjandi að bíða í 40 ár.
Hin hetja vikunnar er Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður. Eins og þeir vita sem fylgst hafa með störfum Alþingis síðustu áratugina þá ber Jóhanna höfuð herðar hné og tær yfir vinnufélaga sína í þeim málaflokkum sem hún sinnir með nefndarsetu sinni. Styrkleiki Jóhönnu er fyrst og fremst á sviði félagsmála, skattamála og heilbrigðismála. Ég hef stundum vorkennt langskólagengnum sérfræðingum sérfræðistofnanna sem hafa þurft að mæta fyrir þingnefndir þar sem Jóhanna er í hópi nefndarmanna. Skattamál, tölfræði, vaxtamál, greiðslubyrði, vísitölur og annars konar tölfræði vefst ekki fyrir henni, þó svo að þessi svið reynist mörgum torskilin og framandi. Það hlýtur að vera bráðnauðsynlegt að vera vel undirbúinn til að svara fyrirspurnum hennar. Ég vek athygli á því að það var Jóhanna Sigurðardóttir sem áttaði sig á því að nefskattar á borð við gjald í framkvæmdasjóð aldraðra sem og hinn nýja RÚV-skatt Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, féllu eingöngu á hefðbundna launamenn en ekki á þá sem eingöngu greiddu fjármagnstekjuskatt.
Jóhanna Sigurðardóttir fékk opið skotfæri í hendurnar nú í vikunni þegar upplýst var um stöðu Byrgismálsins og skjólstæðinga þess. Það hefur vafalaust verið freistandi fyrir marga að hleypa af á félgsmálaráðherra og alla þá sem höfðu fengið upplýsingar um fjárhagsleg og félagsleg axarsköft sem framin höfðu verið í málefnum Byrgisins. Jóhanna veit hins vegar sínu viti og í stað þess að láta ginnast af þeim pólitísku freistingum sem boðið var upp á þá er hún aðal hvatamaður þess að allt verði lagt í sölurnar til að sinna fórnarlömbunum úr Byrginu.
Hinn pólitíski slagur bíður seinni tíma. Takk fyrir fagmennsku Pétur Hauksson og Jóhanna Sigurðardóttir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.2.2007 | 20:09
Hvað er það versta við Kárahnjúkavirkjun?
Ég ætla ekki að leggja orð í belg um áhrif Kárahnjúkavirkjunar á náttúrufar norðan Vatnajökuls ég hef engu við þá umræðu að bæta (eða læt það a.m.k. ógert).
Ég hef hins vegar áhyggjur af áhrifum Kárahnjúkavirkjunar á verðskyn landsmanna. Byggingarkostnaður við virkjunina, háspennulínur og álverið á Reyðarfirði mun kosta á milli 200 og 300 milljarða króna.
Áður en rætt var um fyrirhugaðar framkvæmdir fyrir austan heyrðust svo háar fjárhæðir sjaldan nefndar nema ef rætt var um skuldir þjóðarbúsins við útlönd. Þess utan þarf ekki að fara svo ýkja langt aftur í tímann til að rifja upp að þegar fjallað um halla á viðskiptum við útlönd var þess sérstaklega getið ef Flugleiðir keyptu eða seldu flugvél.
Nú er öldin önnur. Kostnaður virðist ekki hamla nokkurri hugmynd það er sama hversu arfavitlaus hún er. Besta dæmið um þetta er þráhyggja Árna Johnsen o.fl. um göng úr Landeyjunum til Eyja. Munninn yrði á flóðasvæðinu vestan Markárfljóts og síðan færi rörið eftir endilöngu gosbeltinu. Ég ætla ekki að reyna að rifja upp þær tölur sem nefndar hafa verið sem hugsanlegur kostnaður við þessa fantasíu. Þá er ámóta hugmynd á flugi austur á fjörðum. En þar vilja hugumstórir menn nota tækifærið áður en borvélarnar á Kárahnjúkasvæðinu verða teknar saman og fluttar úr landi. Áformin á því svæði hljóða upp á ca. 30 km göng.
Það vakir ekki fyrir mér að senda sérstaka pillu til Vestmannaeyja eða austur á Firði. Hið brenglaða verðskyn hefur borist eins og faraldur um allt land. Héðinsfjarðargöng eru í framkvæmd, tvöföldun Suðurlandsvegar á sér jarmandi jákór sem gagnrýnislaust ryðst áfram og mislægir gatnamótaflokkar stjórna öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
Líklegast er það bjartsýni að biðja kjósendur og frambjóðendur um að standa með báða fætur á jörðinni þegar 3 mánuðir eru til kosninga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.2.2007 | 22:34
Mengunarbótareglan lögfest?
Umhverfisráðherra lagði fram frumvarp til laga á Alþingi í dag sem ber heitið meginreglur umhverfisréttar. Mér brá talsvert þar sem ég hef allgóða hugmynd hverjar þessar reglur eru en hef hvorki séð þess merki að umhverfisráðherra né hans nánustu vildu gera þær að sínum. Ein þessara regla er almennt kölluð mengunarbótareglan en í frumvarpinu kallast hún greiðslureglan og hljóðar svo:
Greiðsluregla.
Í því skyni að tekið sé tillit til umhverfiskostnaðar skal beita hagrænum stjórntækjum í samræmi við meginregluna um að sá sem mengar beri að jafnaði þann kostnað sem hlýst af því að koma í veg fyrir eða draga úr áhrifum vegna mengunar.
Merkilegt nokk! Í mínu fyrsta bloggi fjargviðraðist ég yfir því að starfshópur umhverfisráðuneytisins gerði það ekki að tillögu sinni að mengunarvaldar svifryks á höfuðborgarsvæðinu greiddu fyrir mengunina sem þeir eiga mesta sök á. Þessi tillaga starfshóps ráðuneytisins var kynnt á málstofu sl. föstudag. Daginn eftir þurfti ég að leita á læknavaktina (kr. 1500) og kaupa asmalyf (kr. 3.500). Hver finnst ykkur að eigi að borga brúsann, sá sem mengar eða þolendur?
Að öllu jöfnu yrði ég himinlifandi ef mengunarbótareglan yrði lögfest. En í ljósi annarra tillagna frá umhverfisráðuneytinu þá er ég vondaufur um að henni verði haldið til streitu þegar á reynir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.2.2007 | 14:07
Hefur Ingibjörg Sólrún þá rétt fyrir sér?
Uss, þetta má ekki spyrjast út. Fólk gæti farið að kjósa Samfylkinguna. T.d. fólkið sem stýrir og starfar hjá fyrirtækjunum sem eru kominn með allan sinn rekstur í aðrar myntir. Eða þau heimili sem hafa verið að færa skuldir sínar úr krónum yfir í erlendar myntkörfur.
Plís ekki segja neinum...
Segir ástand gengismála óviðunandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.2.2007 | 09:24
Ál og fiskur
Fyrir skömmu var það upplýst að hlutur íslenska sjávarfangsins á heimsmarkaði væri um 2%. Miðað við núverandi framleiðslu í Straumsvík (ca. 200.000 tonn á ári), fulla framleiðslu skv. starfsleyfi Norðuráls á Grundartanga (ca. 300.000 tonn á ári) og Fjarðaál í fullri stærð ( 346.000 tonn á ári) þá verður heildarframleiðsla áls á Íslandi um 846.000 tonn á ári. Samkvæmt heimasíðu samtaka álframleiðanda (http://www.world-aluminium.org/) þá var heildarframleiðsla áls í heiminum tæp 24.000 tonn árið 2006. Full afköst íslensku verksmiðjanna er því nálægt 3,5 % af álmarkaðinum í heiminum. Það lætur því nærri að vera tvöföld hlutdeild íslenska sjávarfangsins á heimsmarkaði .
Var einhver að segja að við yrðum að finna aðra lífsbjörg en einhæfan sjávarútveg?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.2.2007 | 20:10
Af hverju erum við að missa?
Samfylkingin vill fresta stóriðjuframkvæmdum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.2.2007 | 12:56
Það kostar þá kr. 2.000 að heimsækja Kerlingafjöll eða Hveravelli
Vilja hefja undirbúning nýs vegar yfir Kjöl í einkaframkvæmd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.2.2007 | 09:10
Ótti við útlendinga
Útlendingahatur og rasismi hefur verið nokkuð í umræðunni einkum í kringum uppgjörið í Frjálslynda flokknum fyrir skömmu. Í Silfri Egils fyrir nokkru fór Magnús Þór Hafsteinsson alþingismaður mikinn og fann fjölgun útlendinga á síðustu misserum flest til foráttu. M.a. sagði Magnús Þór að hinn mikli fjöldi erlendra verkamanna ýtti undir þensluna í efnahagslífinu. Mér varð nokkuð brugðið við þá augljósu fákunnáttu sem Magnús varð uppvís að með þessarri yfirlýsingu sinni. Hið augljósa er að ef útlendingar koma til landsins í vertíðarvinnu við stórframkvæmdir þá vakir fyrst og fremst fyrir þeim að afla tímabundið mikilla tekna til að hafa með sér heim. Það slær, ef eitthvað er, á þensluna innanlands en eykur hana ekki.
Þrátt fyrir að vera þess sannfærður að Frjálslyndir væru á villigötum með afstöðu sinni í málefnum útlendinga ákvað ég að gefa þeim frekari séns og kynna mér nánar stefnu þeirra í þessum málaflokki. Eftirfarandi fann ég í nýrri stjórnmálaályktun á heimasíðu þeirra www.xf.is:
Frjálslyndi flokkurinn mun þó beita sér fyrir að undanþága sú, sem samið var um í EES-samningnum, varðandi innflutning verkafólks frá aðildarlöndum EES, verði nýtt og innflutningur takmarkaður, í samræmi við ákvörðun íslenskra stjórnvalda.
Yfirvöld verða á öllum tímum að hafa stjórn á því hverjir og hvað margir innflytjendur koma til landsins. Jafnframt ber öllum, sem sækja hér um dvalarleyfi, að skuldbinda sig til að hlíta íslenskum lögum og stjórnarskrá.
Frjálslyndi flokkurinn varaði á Alþingi við afleiðingum þess að nýta ekki undanþáguákvæði um frjálst streymi fólks frá nýju aðildarlöndum Evrópusambandsins til landsins. Ríkisstjórnin neitaði að hlusta á þau varnaðarorð sem þingmenn Frjálslynda flokksins höfðu uppi, auk þess sem ríkisstjórnin vanrækti að marka stefnu í málefnum innflytjenda.
Því miður virðist Frjálslyndi flokkurinn vera á ámóta villigötum varðandi takmarkanir á innflutningi fólks frá einstökum löndum og varðandi áhrif þeirra á þensluna sem getið var að ofan. Því til staðfestingar vil ég benda á ágæta grein Eiríks Bergmanns Einarssonar sem hann birti fyrir skömmu á heimasíðu sinni. Í greininni segir Eiríkur m.a:
...rannsóknir sýna ennfremur að ómögulegt er að hefta straum innflytjenda með því einu að herða aðstreymisreglur.
Tökum dæmi. Eins og Íslendingar nýttu Finnar sér frest til að opna vinnumarkað sinn til nýju aðildaríkja ESB fram til 1. maí í ár. Vinnumarkaðurinn í Svíþjóð var hins vegar galopnaður strax 1. maí 2004. Eigi að síður var fjölgun innflytjenda frá nýju aðildarríkjum ESB meiri í Finnlandi heldur en í Svíþjóð. Með öðrum orðum þá er það eftirspurnin í efnahagslífinu sem skýrir flæði verkafólks, ekki þau höft sem sett eru.
Svo mörg voru þau orð. Ég er því í verulegum vandræðum með það hvernig ég á að skilja afstöðu þeirra Frjálslyndu. Ég hélt að ég ætti aldrei eftir að upphefja fáfræðina en ég vona að vandi Frjálslyndra felist í því að þeir séu illa að sér en ekki illa meinandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.2.2007 | 01:32
Stelpurnar í fótboltanum!
Að ýmsu leyti hefur mér fundist að afrekskonur í íþróttum væru um margt betri fyrirmyndir ungmenna en afrekskarlar. Ég leyfi mér að nefna sérstaklega Mörtu Ernstdóttur langhlaupara, Guðrúnu Arnardóttur í 400 m grind, Völu og Þóreyju Eddu í stangarstökki og Margréti Láru í fótboltanum. (Sorrý, Jón Arnar, Eiður Smári og Örn Arnarsson en það vantar eitthvað á karakterinn hjá ykkur til að ég geti sett ykkur á stall með stelpunum að ofan.)
Ég hef gaman af fótbolta og fjölmörgum öðrum íþróttum. Sú var tíðin að ég æfði handbolta, fótbolta, körfubolta, frjálsar og glímu. En hin síðari ár hefur lítið farið fyrir skipulagðri íþróttaiðkun fyrir utan það að ég tek mínar tarnir í ræktinni. Engu að síður þá er áhuginn á íþróttum enn til staðar. Uppáhaldið eru frjálsar og fótbolti. Sonur minn hefur síðustu tvö árin æft fótbolta með Val og við feðgarnir höfum farið á völlin til að fylgjast með því hvernig Völsurum gangi í meistaraflokki. Síðastliðið sumar fórum við á 4 leiki hjá mfl. karla og 3 hjá mfl. kvenna. Við reyndum að sjá fjóra leiki hjá Valsstelpunum en 4. leikurinn var lokaleikur Íslandsmótsins sem aldrei fór fram.
Daginn sem lokaumferðin á Íslandsmótinu í knattspyrnu kvenna fór fram varð ég afar vonsvikinn vegna framkomu KSÍ. Fyrir það fyrsta var eingöngu eitt lið á vellinum, Valur. En þess utan var enginn frá KSÍ til að afhenda þeim verðlaunin. Það fauk svo í mig að þegar ég kom heim af vellinum sendi ég tölvupóst á stjórnarmenn Knattspyrnusambandsins. Efni póstsins er hér:
Til aðal- og varamanna í stjórn KSÍ
Ég get ekki orða bundist eftir atburði dagsins. Síðasta umferð í Íslandsmótinu í knattspyrnu kvenna og það vantar liðið sem á að etja kappi við verðandi Íslandsmeistara! Það var vitað 30 mínútum fyrir leik að einungis 6 leikmenn kvennaliðs FH voru mættir og að leikurinn yrði ekki spilaður.Af hverju þurftu Valsstúlkur að bíða í heilan klukkutíma eftir að fá Íslandsbikarinn afhentan? Er það almennt til siðs hjá KSÍ að senda fulltrúa sinn þegar 5 mínútur eru eftir af leiknum til að afhenda verðlaun í síðasta leik Íslandsmótsins? Hvernig ætlar KSÍ að refsa FH-ingum fyrir lítilsvirðinguna sem þær sýna íþróttinni? Þó svo að nú um stundir sé Íslandsmót kvenna í raun bara tveggja liða deild þá gildir það um ýmsar karladeildir í Evrópu og skráðum liðum ber að mæta í leiki.
Hetjur dagsins eru:
Valsstúlkur og
þær FH-stúlkur sem komu til að spila og höfðu metnað til að standa sína plikt þrátt fyrir að örlög liðsins (fall um deild) væru ráðin.
Skussar dagsins eru:
Restin af FH liðinu sem ekki mætti til leiks og
KNATTSPYRNUSAMBAND ÍSLANDS!
Framundan mun vera ársþing Knattspyrnusambands Íslands laugardaginn 10. febrúar nk. Fram hefur komið að þrír hafa gefið kost á sér til formennsku. Geir Þorsteinsson hefur starfað sem framkvæmdastjóri KSÍ og unnið náið með fráfarandi formanni. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt eða séð neitt um áherslur Geirs en flestir líta á hann sem framhald af núverandi stjórn. Einnig hefur Jafet Ólafsson, viðskiptamógúll gefið kost á sér í formennsku. Jafet var eitt sinn formaður Batmintonsambandsins og hefur lagt áherslu á tengsl KSÍ við knattspyrnufélögin í landinu. Þá ber að geta Höllu Gunnarsdóttur sem hefur í senn minnt á stöðu kvenna í boltanum og ekki síður á aðstöðuleysi fámennra félaga á landsbyggðinni.
Ég get ekki annað en dáðst að framboði Höllu og tel að hún hafi nú þegar haft áhrif til hins betra innan KSÍ, a.m.k. er búið að sjá til þess að landsliðsmenn fái sömu dagpeninga óháð kynferði. En KSÍ verður að gera betur. Ég vil benda á að íslenska kvennalandsliðið er í 21. sæti á heimslista FIFA en karlaliðið okkar er í 93. sæti. Fyrir frammistöðu sína finnst mér að stelpurnar eigi mikið inni hjá KSÍ og vona að nýr formaður, hver sem annars velst í það embætti geri sér grein fyrir því.
Að síðustu vil ég hvetja knattspyrnuáhugamenn til að mæta á leiki í kvennaboltanum í sumar. Ég hef rökstuddan grun um að efsta deild kvenna verði ekki bara tveggja turna einvígi milli Vals og Breiðabliks.
Sigurður Ásbjörnsson
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)