Færsluflokkur: Bloggar
28.3.2007 | 23:19
Virkja sem allra mest!
Haldið þið að við réttum ekki úr kútnum þegar Kárahnjúkavirkjun hefur verið plöggað inn? Eða er þessi neikvæða einkunn alþjóðasamfélagsins vegna klúðursins með spennana fyrir austan?
En við getum verið róleg því þegar Geir, Jón og Valgerður hafa endurnýjað umboð sitt þann 12. maí nk. þá hljóta þau að bretta upp ermarnar að nýju og drífa menn áfram með sinni rafrænu færni.
(Æ sorrý, ég mundi ekki eftir því fyrr en í lokin að Jón hefur ekkert umboð. Það var kannski þess vegna sem hann sagði að stóriðjustefnunni væri lokið?)
Ísland missir stöðu sína í rafrænni færni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
26.3.2007 | 20:13
og iðrunin gengur vel...
Iðrunaráform sunnlenskra Sjálfstæðismanna (operation ISS) virðist ganga bærilega. Góðkunni gítarleikarinn og brekkusöngvarinn frá Heimaey er á fullu eftir því sem best er vitað. Þeim sem ástunda iðrun er reyndar nokkur vorkunn þar sem iðrunarferlinu virðist ekki ljúka með prófgráðu og útskrift eins og svo margt annað í tilverunni. Það er því enginn furða að þeir sem hafa verið í þessu ferli um hríð spyrji endrum og sinnum sem svo: Ég vona að ég hafi iðrast nóg. Þetta voru nú bara tæknileg mistök.
Annar tónelskur trúbróðir þess heimaeyska, Todmobilaði Túborgarinn, þurfti af kunnum ástæðum að lappa nokkuð upp á líf sitt eftir að hafa skrikað bensínfótur. Túborgarinn virðist ekki vera í vandkvæðum með að átta sig á því hvar hann er staddur í iðrunarferlinu. Hann virðist fulliðraður og er augljóst hann hefur lagst í lærdóm. Leikreglur samfélagsins eru honum greinilega ofarlega í huga og hann er því farinn að lesa lög. Ekki svo að skilja að hann sé á nýjan leik lagstur yfir gömlu nótnaheftin heldur er það prentmálið frá Alþingi sem á hug hans allan. Hann hefur því rekið augun í það að Spaugstofan hefur innanborðs eintómt glæpagengi sem hreinlega kann sig ekki.
Sá sem hér skrifar fagnar því að búa í samfélagi þar sem flestir fá viðfangsefni við hæfi. Svo virðist sem Túborgarinn hafi fundið sinn sess í tilverunni. Nú skal vakað yfir hverjum þeim lögbrotum sem fyrir augu ber og upplýsa þau fyrir alþjóð.
Batnandi manni er best að lifa ...... eða hvað!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
25.3.2007 | 21:21
Samfélagsrýnar í sýndarveröld
Ég var rétt í þessu að ljúka við að lesa skemmtilegt kver, Að vera eða sýnast, eftir Hörð Bergmann. Í þessarri bók tekur Hörður sig til og setur fram skemmtilega gagnrýni á ýmislegt sem á okkur dynur frá stjórnmálamönnum og í fjölmiðlum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hörður skrifar slíka bók. Að minnsta kosti á ég tvær aðrar eftir hann sem eru af sama meiði. Eldri bókin heitir Umbúðaþjóðfélagið en sú yngri Þjóðráð. Þegar ég var að koma bókinni fyrir í bókaskáp þá áttaði ég mig á því að ég er gjarn á að kaupa mér og lesa bækur þar sem samfélagsrýni er stunduð. Sennilega er ég unnandi gagnrýninnar hugsunar og fagna hverjum þeim sem leyfir sér að spyrja og efast í stað þess að láta mata sig á alls kyns klisjum án frekari umhugsunar.
Hörður er ekki eini maðurinn sem heldur uppi gagnrýnni umræðu um samfélagið. Ég sé í mínum eigin bókaskáp að hann er í félagi við Karl Th. Birgisson sem sendi fyrir nokkrum árum pistlasafnið Orð í eyra. En pistlarnir voru upphaflega fluttir í Speglinum á RUV. Skammt undan er lítil bók eftir Jón Steinar Gunnlaugsson sem heitir Deilt á dómarana. En í þeirri bók er Jón Steinar afar gagnrýnin á meðferð nokkurra mála fyrir dómstólum landsins. Ekki ætla ég að færa á netið tæmandi lista yfir það lesmál sem er að finna í bókaskápum heimilisins en nokkrir ágætir háskólakennarar einkum í heimspeki og stjórnmálafræði hafa skrifað mjög góðar greinar og bækur bæði sem fræðimenn í gagnrýninni hugsun og sem sérfræðingar í ýmsum samfélagsmálum. Þar er ég t.a.m. að hugsa um Kristján Kristjánsson og Þorstein heitinn Gylfason úr heimspekinni. En Stefán Ólafsson, Gunnar Helga Kristinsson, Jón Orm Halldórsson og Magnús Þorkel Bernharðsson úr stjórnmálafræðinni.
Það eru hins vegar tveir merkir höfundar sem mér finnst verðskulda mun meiri athygli og umfjöllun en þeir hafa fengið til þessa. Annar þeirra, Þorgeir Þorgeirson rithöfundur, skrifaði á sínum tíma grein í Morgunblaðið þar sem hann fjallaði um hrottaskap innan lögreglunnar. Í stuttu máli þá var Þorgeir kærður og dæmdur fyrir meiðyrði í héraðsdómi og Hæstarétti en mátti eiga í því í áratug að sækja sér málfrelsið til Strassborgar fyrir Mannréttindadómstólnum. Fullnaðarsigur Þorgeirs í Strassborg leiddi síðar til réttarbóta fyrir íslenskt samfélag. Á árunum í kringum 1990 skrifaði Þorgeir mjög margar greinar sem voru hver annarri merkilegri og komu út í greinasöfnunum, Uml II, Að gefnu tilefni og Tvíræðum.
Lögmaður Þorgeirs var Tómas Gunnarsson. Tómas skrifaði bók sem heitir Skýrsla um samfélag. Tómas og Þorgeir eiga það sammerkt að skrif þeirra eru ekki tilbúnar hugrenningar eftir pælingar í sófanum eða við tölvuna. Þeirra skrif eru öðrum þræði byggð á persónulegri reynslu þeirra við íslensku dómstólana.
Þeir samfélagsrýnar sem ég gat um í upphafi eru í mínum huga góðir blaðamenn með gagnrýna hugsun og eiga mikið hrós skilið fyrir sitt framlag. Ekki síst vegna þess að lesendahópurinn er ekki stór enda eru skrif þeirra gjarnan svar við ákveðinni umræðu sem svarar tíðarandanum. Það er ekki líklegt að slíkar bækur verði taldar til klassískra meistarastykkja á borð við Bréf til Láru eftir Þórberg eða Alþýðubókina eftir Kiljan.
Það verður alltaf þörf fyrir þá sem gera athugasemdir við það að leiðin til megrunar liggi í gegnum einhvers konar át og að eina leiðin til að spara fjármuni sé að eyða þeim í margvíslegt glingur. Ég er því vongóður um að lesendum samfélagsrýnanna fari heldur fjölgandi. Þá von byggi ég á gríðarlegum vinsældum og ótrúlegum áhrifum Draumalands Andra Snæs Magnasonar. Vonandi kemur að því að ábendingar Þorgeirs og Tómasar nái að fanga fleiri en þann sem hér skrifar. Því þeir eiga svo sannarlega skilið að verkum þeirra sé gefinn betri gaumur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.3.2007 | 15:52
Kindur og kleinur
Þegar ég var lítill putti varði ég öllum sumrum í sveit. Sumrin 1966 til 1973 dvaldist ég á bænum Höfða í Eyjahreppi á Snæfellsnesi. Þar bjuggu afi minn og amma ásamt föðurbróður mínum. Á bænum voru nokkur hundruð ær, tvær mjólkurkýr, nokkrir kálfar, um tíu hross, tugur af hænum og einn hundur. Ég unni mér afar vel innan um búpeninginn. Leikfélagi minn var hundurinn á bænum og saman gegndum við embætti kúasmalans.
Á bænum voru tvær kindur sem höfðu alist upp sem heimalningar. Þ.e. ærnar sem báru þær gengust ekki við þeim og hleyptu þeim ekki á spena. Fyrir vikið voru þær aldar á kúamjólk úr pela. Þær urðu því fremur spakar og héldu sig heima við bæinn. Þegar þær síðar uxu upp sem gemlingar og fullburða ær urðu þær frekar og ekki þýddi með nokkru móti að reka þær út fyrir girðinguna umhverfis heimatúnið. Þær fundu sér ávallt leið í gegnum girðinguna og héldu sig heima við bæinn.
Heimalningarnir fengu sín nöfn og við frændsystkinin kölluðum aðra þeirra Gibbu en hina Árásargibbu. Árásargibba var eins og nafnið bendir til bæði frekari og viðskotaillri við okkur krakkana heldur en Gibba. Sú viðskotailla brást gjarnan við með því að setja undir sig hausinn og sýna hornin ef einhver nálgaðist hana þegar hún var nýborin. Auk þess sem hún átti það til að stanga mig af tilefnislausu ef ég var úti að leika mér og tók ekki eftir að hún var nálæg.
Eitt vorið þegar ég var á að giska 5 eða 6 ára gamall og nýkominn í sveitina gerðist nokkuð sem mér hefur alla tíð verið minnisstætt. Amma ákvað að taka vel á móti mér og hafði því steikt kleinur sem átti að borða með miðdegiskaffinu. En áður en að því kom þurfti hún að skreppa út og sækja nokkra saltkjötsbita sem voru í tunnu úti í skemmu. Ég fékk þau fyrirmæli að halda mig innandyra en svo ég héldi ró minni þá mátti ég fá eina nýsteikta kleinu til að maula á meðan amma var úti. Annað var ekki hægt því allur bærinn ilmaði af nýsteiktum kleinum. En skyndilega var bankað á útidyrnar. Ég hafði ekki fengið nein fyrirmæli um það hvort og þá hvernig átti að taka á móti gestum en ákvað að bregðast við með hefðbundnum hætti og fór til dyra. Mér fannst bankið reyndar svolítið sérstakt og opnaði því dyrnar varlega og kíkti út. Viti menn, upp við dyrnar stóð þá ógnvaldurinn sjálfur Árásargibba ásamt tveimur afkomendum sínum. Áður en ég náði að skella hurðinni aftur var frekjudósin komin með snoppuna milli stafs og hurðar. Það var ekki nema eitt í stöðunni. Ég varð að flýja. Ég þaut úr forstofunni inn í borðstofu og þaðan inn í eldhús. Þegar þangað var komið leit ég um öxl og sá að bölvuð skjátan fylgdi mér fast eftir. Ég þreif því eldhúskoll stökk upp á hann og þaðan upp á eldhúsborð. Það þarf ekki að taka það fram að ég var með lífið í lúkunum og orgaði eins og stunginn grís, sannfærður um að ég væri að lifa mín síðustu augnablik. Sem betur fer lét rolluófjetið það ógert að elta mig upp á eldhúsborð enda kom í ljós að hún hafði engan áhuga á mér. Það sem hafði dregið hana inn var ilmurinn af kleinunum. Einhvern veginn tókst henni opna eldhússkápinn og finna stóru skálina með nýju kleinunum. Ekki nóg með það því þegar hún reyndi að krækja sér í kleinu úr skálinni þá endasentist skálin út á gólf og mölbrotnaði. Hin einstæða og sjálfstæða tvílemba naut hins vegar veislufanganna ásamt lömbunum sínum innan um glerbrotin. Fjölskyldan át hvern einasta kleinubita upp til agna, skeit síðan á eldhúsgólfið og trítlaði að því búnu út.
Skömmu eftir að þetta gerðist kom amma til baka. Gamla konan var hreint ekki ánægð með aðkomuna. Kleinurnar voru búnar, stóra spariskálin mölbrotin, kindaskítur á eldhúsgólfinu og spor eftir skjáturnar um allt. Gamla konan var svo sótreið að hún var sonarsyni sínum ekki til mikillar huggunar en notaði orkuna í reiðikastinu til að þrífa upp eftir skjáturnar. Þegar kom að miðdegiskaffinu voru engar kleinur á boðstólum heldur eingöngu harðar flatkökur og þurrt mjólkurkex.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
23.3.2007 | 20:55
Gleymda skoðanakönnunin
Ég biðst forláts en ég var búinn að steingleyma því að um nokkurt skeið hefur verið opin skoðanakönnun á vinstri spássíunni á síðunni minni. Ég lagði það í dóm gesta hvernig sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps ætti að afgreiða breytingartillögu á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem fela í sér Hvamms- og Holtavirkjun. Niðurstöðurnar eru svohljóðandi eftir svör 76 þáttakenda:
26,3% telja að sveitarstjórn skuli heimila framkvæmdirnar.
44,7% telja að sveitarstjórn skuli leggjast gegn framkvæmdunum og fjarlægja þær af skipulagi.
28,9% telja að staðið skuli fyrir bindandi atkvæðagreiðslu um málið meðal íbúa sveitarfélagsins.
Ég geri mér fulla grein fyrir því að þessi könnun stenst engan veginn vísindalega aðferðafræði. Vel má vera að sami aðilinn hafi greitt öll atkvæðin. En ef svo hefur verið þá er sá hinn sami mikill sveimhugi í afstöðu sinni. Því miður hef ég gleymt þessu tiltæki mínu og man því ómögulega hvenær ég setti könnunina í gang. En svona fór hún.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.3.2007 | 21:06
Hvernig reynast nýju jakkafötin?
Jakob Magnússon er vinsæll tónlistarmaður. Hann er einn af Stuðmönnum. Stuðmenn eru skemmtilegir. Jakob hefur samið mörg skemmtileg lög. Jakob er að öllu jöfnu smekklegur til fara. Í sjónvarpsfréttum í kvöld sá ég ekki betur en að hann hefði verið í nýjum, smart, köflóttum jakkafötum. Jakob hefur í tvígang reynt fyrir sér í prófkjörum hjá Samfylkingunni. Hann hlaut dapurlega útreið í bæði skiptin.
Þar sem Jakob hefur að stærstum hluta átt afkomu sína undir því að selja tónlist á markaði þá hélt ég að hann hefði fyrir löngu áttað sig á samhenginu milli framboðs og eftirspurnar. Góð plötusala en afleit útkoma úr prófkjörum myndu flestir taka sem skýr skilaboð um hvers fólk væntir af honum.
Kæri Jakob! Þessu ættir þú að vera farinn að átta þig á. En af einhverjum völdum hefur það reynst þér um megn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.3.2007 | 20:10
Steinar og Jónar - hæfi og hæfni
Hvernig ætli það sé að vera kominn á toppinn? Besti vinur manns er búinn að redda vinnu í Hæstarétti. Hvernig launar maður slíkt?
Hvernig ætli sé að uppgötva það þegar maður hefur verið með sama lögmanninn um nokkurt skeið að hann er farinn að sækja mál gegn sambýlismanni þínum? Hvernig ætli það sé að uppgötva það að lögmaðurinn sinn sé farinn að sækja mál gegn fyrirtækinu sem maður á nokkurn hlut í?
Hvernig ætli það sé að vera öryrki og þurfa að leita réttar síns fyrir Hæstarétti og sá sem á að dæma tók þátt í að semja lögin sem skertu bótaréttinn?
Hvernig ætli það sé að þurfa að leita réttar síns fyrir Hæstarétti og hafa átt í hörðum pólitískum deilum við besta vin eins dómarans, teljandi að dómarinn sé í skuld við vininn? Ekki síst þar sem dómarinn hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Flokkinn.
Hvernig ætli það sé að leita réttar síns fyrir Hæstarétti eftir að hafa verið nemandi í Versló og hafa horft á svívirðingar frá einum af hæstaréttardómurunum til skólastjórans innrammaðar á vegg um nokkra ára skeið?
Hvernig ætli það sé að vera natinn dómari við Hæstarétt og þurfa með reglubundnum hætti að hlýða á einn af meðdómurunum þurfa að skýra í fjölmiðlum aðkomu sína að málum sem rekin eru fyrir dómstólum? Hvernig ætli það sé að vera dómari við Hæstarétt og þurfa í hvert skipti þegar dómarar skipta með sér verkum að þurfa að óttast um vanhæfi eins úr hópnum þar sem hann hefur verið óragur við að tjá sig með tveimur hrútshornum um menn og málefni út um allar koppagrundir? Hvernig ætli það sé að dæma við Hæstarétt vitandi að sá sem leitar réttar síns í dómssal er tortrygginn á að hann fái réttláta málsmeðferð vegna þess að einn dómarinn hefur alla tíð verið einn af umdeildustu mönnunum í íslensku samfélagi?
Þegar stórt er smurt, - þá þarf mikið smjör!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
20.3.2007 | 22:11
Tæknileg mistök??
Það var raunalegt að sjá til Kristins Björnssonar í Kastljósinu í kvöld. Kristinn hefur í gegnum tíðina verið afdráttarlaus í svörum og staðið fast á skoðun sinni. Að þessu sinni var hikað og stamað í sífellu. "Nei við svindluðum aldrei. Þúverður að skilja það Sigmar, líkt og þjóðin verður að skilja það að við svindluðum aldrei. ...... En hins vegar get ég játað það að við hefðum mátt standa öðru vísi að málum í nokkrum tilfellum og þá meina ég t.d. í samskiptum við stóru kúnnana. En þá er ég að tala um eitt tilvik eða í mesta lagi fimm"
Svo við höfum þetta á máli Sjálfstæðismanna: Kristinn, áttu við að þið forstjórarnir hafið gert tæknileg mistök?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
20.3.2007 | 17:41
Afmælingar?
Tæpri viku síðar varð sonur minn 9 ára. Hann kann betur en ég að halda upp á afmælið sitt. Tæplega 30 skólasystkin gæddu sér á pítsum og súkkulaðikökum en slógu að því búnu upp balli. Júróvisjondiskurinn var spilaður nánast í botni. Gestirnir sungu hástöfum og dönsuðu. Ég sá ekki betur en að hver einasti krakki kynni vinsælustu lögin utan bókar. Ein stúlka kom fram í eldhús og kvartaði undan eymslum í hálsi eftir sönginn og önnur kveinkaði sér í eyrunum eftir að einhver nærstaddur bekkjarbróðir tók undir með Eiríki Haukssyni í falsettu en var þá staddur nánast á eyrnasnepli bekkjarsystur sinnar.
Þriðja afmælisboðið var á laugardagskvöldið hjá félaga mínum Ágústi Ólafi Ágústsyni. Ágúst kann líka að halda upp á afmælið sitt. Hann fyllti samkomusalinn af fólki. Ágúst fékk flottustu gjöfina sem ég veit um í þessari hrinu afmæla. Hann fékk samþykkt á þingi baráttumál sitt um afnám fyrningarfrests á kynferðisbrotum gegn börnum. En Ágúst hefur allt kjörtímabilið reynt að koma þessu máli í gegn. Ágúst hefur notið í þessu máli öflugs stuðnings félagasamtaka og má nefna að samtökin Blátt áfram söfnuðu 23.000 undirskriftum málinu til stuðnings. Ég vil óska Ágústi sérstaklega með það sem stjórnarandstöðuþingmaður gerir mjög sjaldan, - að sjá árangur af starfi sínu!
Ég var vart komin út úr samkvæminu hjá Gústa en ég datt inn í næstu veislu, en þá var komið að mágkonu minni að halda upp á fertugsafmæli sitt. Hún var glaðbeitt og fyllti heimilið af vinum og ættingjum. Eftir því sem leið á kvöldið sá ég ekki betur en að brosið breyddist sífellt lengra yfir andlitið. Ég held að það hafi verið um 11-leytið ljóminn í andliti hennar náði því stigi að ég sá að hún er búin að láta taka endajaxlana, beggja megin og bæði í efri og neðri góm. Ef ég þekki hana rétt þá er hún nú þegar orðin full tilhlökkunar fyrir fimmtugsafmælið, enda ekki seinna vænna, þar sem tíminn líður óstjórnlega hratt á þessum aldri.
Hvurnig er annars með þetta orðskrípi "afmæli". Á það eitthvað skylt við mælingar? Ef svo er, þýðir orðið að það sé verið að telja niður, afmæla, þó svo að talan hækki með fjölgandi afmælum?
Bloggar | Breytt 21.3.2007 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.3.2007 | 20:19
Popp, kók og vísindi
Raunvísindadeild Háskóla Íslands stendur um þessar mundir fyrir röð fyrirlestra sem bera heitið Undur veraldar. Þar er margt áhugavert á dagskrá og vil ég hvetja menn til að sækja þessar samkomur því á þeim eru fluttir fyrirlestrar af hinum færustu vísindamönnum um margvísleg vísindi sem tengjast jörðinni. Fyrirlestrarnir eru ætlaðir almenningi og því eru þeir á auðskyldu máli og aðgengilegir hverjum þeim sem hefur áhuga á viðfangsefninu. Ég reyni eins og kostur er að fylgjast með fundum, ráðstefnum og málstofum sem snerta starfs- og áhugasvið mín og finnst mjög áhugavert að hlusta á skynsamt fólk flytja skipulögð erindi um það sem það hefur þekkingu á. Það er kærkomin tilbreyting frá hversdagslegu gjammi og gjálfri.
Því miður hef ég ekki átt heimangengt til að fylgjast með fyrirlestrunum til þessa, þar til síðast liðinn laugardag, þá komst ég á afar góðan fyrirlestur. Þar flutti Sigurður Reynir Gíslason jarðefnafræðingur á Jarðvísindastofnun Háskólans erindi sem nefndist: Loftslag, gróðurhúsaáhrfi og binding koltvíoxíðs í bergi. Á þessari samkomu var nafni minn ekki að skila rannsóknarniðurstöðum sínum til kolleganna í vísindasamfélaginu, heldur að kynna fyrir áhugasömum sína aðkomu að rannsóknum á kolefnisbúskap jarðar. Áður en fyrirlesturinn hófst var búið að stilla upp nokkrum munum á borðið í fyrirlestrarsalnum. Þar voru visin laufblöð, gráleitur hnullungur, silfurberg úr Helgustaðanámunni við Reyðarfjörð, pottablanta í hnignun, vatn, kók og sódastream-tæki. Ég hélt í fyrstu að nafni ætlaði sér að innbyrða alla drykkina en að aðrir hlutir væru þarna sem hluti af e.k. skrauti fyrirlestrarsalarins. Það reyndist hinn mesti misskilningur. Allir þessir munir höfðu hlutverki að gegna til að skýra eitt og annað í hegðun kolefnis á jörðinni.
Þeir sem þekkja til nafna míns vita að þeir verða ekki fyrir vonbrigðum með því að mæta á fyrirlestra hans. Á námsárunum í Háskóla Íslands þá sat ég námskeið sem hann kenndi ásamt Stefáni Arnórssyni prófessor, sem er afar snjall sérfræðingur í efnafræði heita vatnsins en Sigurður Reynir hefur sérhæft sig í efnafræði kalda vatnsins. Þegar nafni kenndi sinn hluta námskeiðsins þá fórum við nemendurnir með honum í helgarferð í Þórsmörk. Meðferðis höfðum við nauðsynlegan búnað til sýnatöku og greininga á kolsýru í vatni. Einnig höfðum við meðferðis tússtöflu svo unnt yrði að kenna með hefðbundnum hætti í Skagfjörðsskála í Þórsmörk. Við mættum í Þórsmörk og tókum sýni úr lindum á svæðinu og einnig úr Lóninu sem fellur undan Gígjökli sem kemur frá gíg Eyjafjallajökuls. Í Lóninu mældum við ótrúlega háan styrk af kolsýru. Ári eða tveimur síðar fór Sigurður Reynir enn á ný með nemendur sýna í Þórsmörk og endurtók hópurinn sams konar mælingar. Upp úr þessarri vinnu urðu til lærðar greinar sem við nemendurnir vorum afar stolt af að eiga nokkurn þátt í.
En í erindi sínu á laugardag fór Sigurður Reynir yfir kolefnishringrásina og birti þar m.a. gögn sem eru gamlir kunningjar úr mynd Al Gore ásamt öðrum gögnum og sínum eigin mælingum. Eins og ég gat um þá var nafni með kókflöskur á borðinu hjá sér. Önnur þeirra var ósnert 0,5 lítra flaska en hin var með 380 ml af kóki. Innhaldið var ekki valið af tilviljun. 380 ml flaskan var til þess að benda á það hlutfall sem er af koldíoxíði í hverjum rúmmetra lofts. En sú sem var óupptekin var "týnda" koldíoxíðið. Þ.e.a.s. ef saman er tekin öll losun á koldíoxíði frá upphafi iðnbyltingar þá mælast nú 380 ppm í andrúmsloftinu en ættu að vera um 880 ppm ef engin binding hefði átt sér stað. Sigurður benti á það á hérlendis væri náttúruleg binding í bergi miklu meiri en binding í gróðri, þar sem íslenska bergið, basaltið, hefur þá sérstöðu miðað við berggrunn flestra annarra landa að hvarfast við koldíoxíð um leið og það ummyndast. Það mátti á honum skilja að það hlyti að vera fyrst og fremst berg af svipaðri gerð og hvað mest er af hérlendis sem hefði bundið meirihluta koldíoxíðsins sem losað hefði verið en mældist ekki í andrúmslofti.
Þegar hér var komið í fyrirlestrinum fór ég að hugsa er e.t.v. heppilegra að hafa svæði eins og Mýrdalssand ógróinn í þeirri von að ummyndun sandsins fæli í sér mun meiri bindingu koldíoxíðs heldur en skógi vaxinn sandurinn. Ég bar þessa spurningu upp þegar erindinu var lokið. Sigurður benti mér á að mælingar til að meta slíkt hefðu ekki farið fram en það væri full ástæða til að rannsaka það.
Áhugaverðasti hluti fyrirlestrarins var um rannsóknarverkefni sem er verið að afla fylgis og fjármagns en það gengur m.a. út á það að reyna að dæla uppleystu koldíoxíði niður í jarðlög við jaðar jarðhitasvæða. Í sama rannsóknarverkefni er til skoðunar hvort unnt væri að taka útblástur frá álveri og senda í gegnum sívalning fylltan jarðefnum í þeirri von að flúor og brennisteinn, sem talsvert er af í útblástri álvera, virki sem hvati til að binda koldíoxíð. Eins og svo oft áður þegar ég hlusta á fyrirlestra Sigurðar Reynis þá fyllist ég bjartsýni og spenningi. Ég vona innilega að af þessu verkefni verði og ætla mér að fylgjast með framvindu þess fullur bjartsýni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)