Færsluflokkur: Bloggar

Eru bankarnir góðar fyrirmyndir í efnahagsmálum?

Það líður varla sá dagur að hinar svokölluðu greiningardeildir stóru viðskiptabankanna ausi ekki úr brunni visku sinnar yfir okkur vitleysingana sem kunnum ekki að fara með fé.  Mér finnst afar klógt hjá bönkunum að kalla þessar deildir sínar greiningardeildir.  Maður verður umsvifalaust fullviss um að innan þeirra starfi eingöngu afburða greindir einstaklingar og það sem frá þeim kemur hlýtur því að vera vel ígrunduð niðurstaða eftir stranga yfirlegu hinna mestu spekinga.  Þessar deildir spá fyrir um margvíslega hluti s.s. líklegt lánshæfismat ríkissjóðs, þróun verðbólgunnar sem og fasteignaverðs, auk margvíslegra annarra efnahagslegra þátta.

En hvers konar fyrirbæri eru bankar yfirhöfuð og til hvers í veröldinni eru þeir að senda frá sér spár um hina ýmsu þætti efnahagsmála? 

Nú nýverið ákvað Íbúðalánasjóður að hækka lánshlutfall sitt í 90%.  Í kjölfarið fylgdi Kaupþing og bauð betur með 100 % lánshlutfall til íbúðarkaupa.  Ég velti því strax fyrir mér hvort Kaupþing hafi fjármagnað stóran hluta byggingaframkvæmda hinna bjartsýnu verktaka sem, eftir því sem sagnir herma, eiga orðið ansi mikið af óseldum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.  Ég veit í raun ekkert um það en ef það er tilfellið þá er bankinn í raun að meta sína eigin hagsmuni umfram annað.  Gjaldþrota verktakafyrirtæki getur verið þungur baggi, jafnvel fyrir stóran banka.  Skömmu eftir að Kaupþing ákvað að hækka lánshlutfall íbúðarlánanna sinna þá sendi greiningardeild sama banka frá sér spá um að íbúðarverð komi til með að hækka á næstunni.  Auðtrúa neytendur eiga því að drífa sig og kaupa íbúð þar sem hún verður dýrari á morgun.

Á undanförnum misserum hafa bankarnir verið duglegir við að bjóða fólki lán fyrir öllum fjáranum.  Fyrir nokkru var borin bæklingur frá Spron inn á mitt heimili.  Yfirskriftin framan á bæklingnum var eitthvað á þessa leið:  Er ekki kominn tími til að endurnýja?  En fyrir neðan spurninguna var mynd úr eldhúsi á einhverju heimili.  Ég minnist þess að hafa grandskoðað myndina, en ég fann ekkert að eldhúsinnréttingunni sem augljóslega var ætlast til að yrði endurnýjuð.  Það var hvergi að sjá að viðurinn væri farinn að láta á sjá, lamirnar sýndust í góðu standi en innréttingin var gömul og alls ekki í stíl við það sem nú er í tísku.  Ef einhver hefði sett svona innréttingu inn í nýtt húsnæði í dag þá hefði hinn sami þótt hallærislegur og gamaldags.

Maður frá Glitni hringdi eitt sinn í mig og bauð mér sannkölluð vildarkjör.  Maðurinn sem hringdi sagði að ég væri í hópi traustustu viðskiptavina bankans og því bæðist mér að ganga í eitthvað sem héti Gullvild.  En til þess að vera gjaldgengur í þann klúbb þá varð viðkomandi að uppfylla ákveðin skilyrði um viðskipti og þjónustukaup af bankanum.  Ég þurfti ekki að staldra lengi við til að átta mig á því að bankinn vildi gerast áskrifandi að kaupinu mínu í meiri mæli en verið hefur.  Augljóslega var ekki verið að hugsa um mína hagsmuni.  Ég var hvattur til að taka lán fyrir einhverju sem mig vantaði ekki en enginn lagðist yfir viðskipti mín til að skoða og koma með ábendingar um betri vaxtakjör með endurfjármögnun.  Viðskiptabankinn minn, líkt og aðrir viðskiptabankar, hefur því ítrekað sýnt mér að hann hugsar fyrst um sinn hag áður en kemur að hag viðskiptavinanna.  Þjóðarhagur er vitaskuld neðstur.

En ég vil engu að síður þakka viðskiptabönkunum öllum fyrir það að hafa kennt mér að styðjast fremur við eigin dómgreind og stærðfræðikunnáttu en gylliboð þeirra.  Um leið afþakka ég næstu jólagjöf.  Hjólsagarblaðið með jólasveininum í miðjunni hefur ekki verið notað.  Við eigum ekki hjólsög.  Hatturinn sem konan mín fékk sendan frá sínum banka er að sama skapi ónotaður.  Það er enginn á heimilinu nógu höfuðstór fyrir hann.


Ég, Björgólfur Thor og evran

Við Björgólfur Thor Björgólfsson höfum verið að velta því fyrir okkur að taka upp evruna.  Við höfum að vísu ekki borið saman bækur okkar um það hvort og þá hvernig heppilegast sé að standa að þessu enda hafa leiðir okkar, eftir því sem ég best veit, aldrei legið saman. 

Björgólfur Thor mun vera með efnaðari mönnum á Vesturlöndum og það sem fyrir honum vakir er að bókfæra í evrum, lítinn bílskúrsrekstur, Straum Burðarás, sem hann á í félagi við aðra.  Ég hef ekki átt þess kost að kíkja í bækurnar hjá Björgólfi en það er fullyrt í fréttum að Straumur Burðarás starfi að stærstum hluta utan Íslands, þó svo að reksturinn sé skráður hérlendis.  Fram hefur komið að Straumur Burðarás sé með viðskipti sín erlendis í allmörgum gjaldmiðlum en ekki eingöngu evrum.    

Ég hef verið að setja mig í spor Björgólfs Thors og félaga og hef reynt að glöggva mig á því hvers vegna þeir vilja losna undan krónunni og því þeir kjósi evruna í staðinn.  Mér gengur allvel að skilja flótta þeirra undan krónunni.  Það er auðséð að þegar við búum við afleita efnahagsstjórn sem fer þannig fram að ríkisstjórnin gerir það sem hún getur til að auka þenslu en Seðlabankinn hamast á móti við að halda verðbólgunni niðri með því að hækka stýrivextina, þá verður einhvers staðar að tappa þrýstingnum af kerfinu.  Í óstjórninni er það eingöngu gert með breytingum á genginu (það gerist raunar sjálfvirkt).  Það er því ekkert undarlegt við það að þeir sem eru með starfsemi í mörgum löndum vilji vera með allan sinn rekstur í erlendri mynt.  Í því sambandi má benda á að þær breytingar sem verða innbyrðis á milli erlendra gjaldmiðla eru óverulegar í samanburði við háttalag krónunnar.  Ef jen eða dollar hækka eða lækka um 2% gagnvart pundi eða evru þá súpa menn hveljur á erlendum mörkuðum en slíkar breytingar á krónunni eru nánast bara dægursveifla.  Íslenska krónan er því um margt sambærileg íslenska veðrinu og dúndrast upp og niður, en stærstu breytingar sem verða á erlendum gjaldeyrismörkuðum eru í huga íslenskra fyrirtækja innan þess svigrúm sem við myndum kalla geirnegldan stöðugleika.  En af hverju vill Straumur Burðarás taka upp evru frekar en aðra mynt?  Það þarf ekki að koma á óvart þar sem að á bak við evruna eru m.a. þýska, franska, spænska, ítalska, portúgalska, austurríska, belgíska, hollenska, írska og lúxembúrgíska hagkerfið.  Auk þess sem flest hin nýju aðildarríki Evrópusambandsins í eystri hluta Evrópu stefna að upptöku evrunnar.      

Mínar forsendur fyrir upptöku evrunnar eru af öðrum toga en Björgólfs Thors.  Ég og fjölskylda mín erum með allar eignir, tekjur og skuldir hérlendis.  Það sem fyrir okkur vakir er að reyna að minnka skuldir heimilisins eins og kostur er. 

 

Eins og í tilfelli flestra venjulegra launamanna á Íslandi þá eru skuldirnar fyrst og fremst það sem hvílir á íbúðinni sem við keyptum árið 2002.  Þá tókum við lán upp á kr. 7.250.000 til 40 ára hjá Íbúðalánasjóði.  Nú er staða lánsins þannig að við skuldum 8.439.297 og erum að greiða um 43.000 á mánuði.  Við erum því búin að greiða 2,3 milljónir af láninu en á sama tíma hefur það hækkað um 1,2 milljónir.

 

Hvað er til ráða?  Við höfum við verið að velta því fyrir okkur að taka myntkörfulán t.d. hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum.  Við höfum fylgst með ábendingum fjárfróðra manna sem hafa bent á að það kunni að vera vafasamt að taka há lán sem eru bundin við eina mynt og því sé viturlegra að taka slík lán sem eru samsett af nokkrum gjaldmiðlum.  Ef stórkostlegar breytingar yrðu á gengi einnar myntar þá þyrftum við ekki að óttast stóran skell.

 

Tvennt hefur valdið því að við höfum ekki látið til skarar skríða og ráðist í endurfjármögnun húsnæðislánanna.  Annars vegar er það stimpilgjaldið sem við héldum að yrði lagt af hið snarasta, ekki síst þegar það fréttist að jafn ólíkir þingmenn og Jóhanna Sigurðardóttir og Pétur Blöndal væru samsinna um slíka gjörð.  Ég veit ekki fyrir hvað fólk er að borga með þessu stimpilgjaldi, ég kem a.m.k. auga á það sem þjónustu eða umsýslukostnað, en stjórnvöld hafa ekki lyft litla fingri til að lækka eða afleggja það en þess í stað verið upptekin af lækkun skatta á þá sem bera mest úr býtum.  Þess í stað mega venjulegir launamenn og fjölskyldufólk éta það sem úti frýs.  Hin ástæðan fyrir því að við hikum við endurfjármögnunina er sú að við það breytist greiðslubyrðin umtalsvert. 

 

Ef ég læt þá Frjálsu um endurfjármögnun úr valinni myntkörfu þá geri ég ekki ráð fyrir gengisbreytingum og fæ vexti á 3,96%.  Til að byrja með snarhækkar greiðslubyrðin og verður um 10 % hærri en hún er í dag en eftir 5 ár verður hún komin á svipað ról og nú er en eftir það lækkar hún og eftir 10 ár er hún orðin um 90 % af því sem hún er í dag.  Heildargreiðslan af kr. 8.439.297 verður kr. 14.468.660 á öllum lánstímanum en ef ég held áfram að vera þægur og greiða Íbúðalánasjóði uppsett gjald þá mun ég á lánstímanum greiða þeim samtals kr. 29.353.648.  Þessar tæpu 15 milljónir sem skeikar á Íbúðalánasjóði og myntkörfunni eru afar freistandi.  En þessir útreikningar miðast við að enginn lántökukostnaður sé greiddur, en í dæminu að ofan þá er hann um 220.000.  Ef ekkert væri stimpilgjaldið þá væri endurfjármögnun með erlendri mynt raunhæfur kostur en ef maður þarf að auka heimilisskuldirnar til að skuldbreyta þá er vafasamt að leggja út í þá aðgerð.  En þar sem ég kann ekki að spá fyrir um gengisbreytingar og það eina sem ég veit er að gengi krónunnar muni breytast þá er ég sem fyrr tvístígandi. 

 

Ég held því áfram mínu hiki en hvað Björgólfur Thor kann að gera, veit ég ekki.

Nýting endurnýjanlegrar orku

Á fundi um virkjanir í neðri hluta Þjórsár í Árnesi fyrir skömmu talaði upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar um nauðsyn þess að Íslendingar virkjuðu sem mest af orkulindum sínum jafnt vatnsafli sem og jarðvarma.  Mátti á máli hans skilja að því meira sem virkjað yrði af vatnsafli og jarðvarma hérlendis þeim mun betur tækist heimsbyggðinni að takast á við loftslagsbreytingar.  Okkur bæri því siðferðileg skylda til að virkja.  Máli sínu til stuðnings birti upplýsingafulltrúinn tilvitnanir í áramótaávarp forseta Íslands annars vegar og hins vegar í ræðu fyrrverandi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan.  Eftir þetta erindi fannst mér eins og upplýsingafulltrúinn leggði þær skyldur á Skeiðamenn og Gnúpverja að þeir yrðu að virkja til að bjarga heimsbyggðinni sem að öðrum kosti stefndi á heljarþröm.

Í ágætri grein í Lesbók Morgunblaðsins um helgina setur Jón Kalmansson fram þá spurningu hvort það sé hnattræn skylda að virkja.  Ég vil benda lesendum á ágæta umfjöllun Auðar Ingólfsdóttur um greinina og hvet fólk til að lesa blogg Auðar sem og greinina sjálfa í Lesbókinni.  Ég hef litlu við að bæta.

Á fyrrgreindum Árnesfundi talaði einnig framkvæmdastjóri Landverndar, Bergur Sigurðsson.  Bergur tók næst til máls á eftir fulltrúa Landsvirkjunar.  Bergur hafði gjörólíka sýn á framlag Íslendinga til loftslagsvandans heldur en fulltrúi Landsvirkjunar.  Bergur benti á nokkur atriði sem varða virkjanir á Íslandi og hnattræn orkumál.  Eftir framsögu Bergs hafa eftirfarandi hugleiðingar mallað í kollinum á mér:

  • Ef öll aðgengileg orka Íslands yrði virkjuð þá myndi hún duga til að sjá 6 milljóna borg fyrir rafmagni.  Íslensku orkulindirnar eru einfaldlega ekki meiri á heimsvísu.  Það er því villandi að halda því fram að íslensku orkulindirnar muni leysa einhvern alheims vanda.
  • Ál er víða notað þar sem unnt væri að nota stál í sama tilgangi (máli sínu til stuðnings sýndi Bergur mynd af handriði úr áli).  En það þarf um 20-30 sinnum meiri raforku til að búa hlutinn til úr áli heldur en stáli.
  • Vöxtur álnotkunar er gríðarlegur í umbúðaiðnaði.  Er það gott framlag til hnattrænna umhverfismála að hvetja til einnota lifnaðarhátta?  Eigum við ekki frekar að kenna heimsbyggðinni skilagjaldskerfið okkar á álumbúðum?  Til að bræða álúrgang í endurvinnslu þarf eingöngu 5% af þeirri raforku sem þarf til frumvinnslunnar.
  • Er það ekki betra framlag frá Íslendingum til umhverfismála heimsbyggðarinnar að starfa sem ráðgjafar við jarðhitanýtingu í Kína? 

Mér fannst erindi framkvæmdastjóra Landverndar firna gott og fannst hann svara siðferðispredikun Landsvirkjunar skýrt og skilmerkilega. 

Eftir stendur að sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps á eftir að fara yfir athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins og ákveða í framhaldinu hvort virkjanaáformunum verði haldið til streitu.  Hver skyldi vera hennar sýn á umhverfismál heimsbyggðarinnar?  A.m.k. er umhverfis-, samfélags- og efnahagslegur ávinningur fyrir íbúa sveitarfélagsins vandfundinn.


Inn í hvaða ríki ráðumst við næst?

Ef ég væri skyldaður til að gegna herþjónustu þá yrði ég vafalaust vonlaus hermaður.  Ég hef aldrei botnað í þeim mönnum sem búa í löndum þar sem herskylda ríkir sem lýsa því yfir án umhugsunar að þeir væru reiðubúnir til að berjast fyrir land sitt.  Ég þarf langa umhugsun til að finna þær aðstæður sem fá mig til að samþykkja að drepa mann og annan þar sem jafnframt væru verulegar líkur til að ég myndi sjálfur verða drepinn.

Ég á samt sem áður tvær gamlar minningar af bardögum sem ég tók þátt í.  Fyrri minningin er frá þeim tíma að ég og systir mín reiddumst hvort öðru heiftarlega og hugðumst útkljá deilu okkar með vopnavaldi.  Hún var með heimilissópinn og ég með skrúbbinn.  Ég var á að giska 7-8 ára en hún 5 árum eldri.  Okkur var fúlasta alvara með að koma höggi af fullu afli hvort á annað.  Pabbi heyrði til okkar og kom að okkur þar sem við vorum í stofunni og hugðist skakka leikinn og afvopna okkur hið snarasta.  Þetta var eitthvað sem við ætluðum okkur ekki að samþykkja.  Án nokkurs samráðs hvort við annað beindum við systkinin reiðinni samtímis að pabba og þegar honum varð ljóst hvað verða vildi þá forðaði hann sér úr stofunni og inn í annað herbergi og lokaði að sér.  Þetta fannst okkur brjálæðislega fyndið og lögðumst í gólfið í hlátuskasti og létum af frekara vopnaskaki.  Lauk því þessum bardaga án þess að nokkurn tíma kæmi til blóðsúthellinga eða mannfalls.

Hinn bardaginn sem ég tók þátt í var öllu fjölmennari og var háður í Skólavörðuholtinu í Reykjavík.  Átökin voru kölluð Lindargötubardaginn og ef mig misminnir ekki þá átti hann sér stað árið 1975.  Af einhverjum ástæðum þá urðu til tvær fylkingar úr nokkrum árgöngum í Austurbæjarskóla.  Í annarri voru krakkar sem flestir bjuggu næst Hallgrímskirkju en kjarninn í hinni bjó við Lindargötuna.  Ekki man ég tilefni þessarra bardaga en ég man það að ég lagði mig fram um margvíslega hluti sem tilheyrði þessum stríðsrekstri.  Eitt af því sem ég tók mér fyrir hendur var að smíða mín eigin vopn.  Ég tók mig til og klambraði saman sverði sem síðan var svo brothætt að það mölbrotnaði skömmu síðar í samstuði við ræfilslega trjágrein andstæðings míns.  Einnig tók ég mig til og bjó til gerðarlegan skjöld úr þykkri spónaplötu.  Á plötuna boraði ég fjögur göt, þræddi síðan snærisspotta í gegnum götin og var að því búnu kominn með fullgerðan varnarbúnað.  Til að kóróna múnderinguna þá setti ég upp loðhúfuna mína sem var með galloni hið ytra og mér fannst hún alltaf í laginu eins og hermannahjálmur eins og hafði séð í bíó.  Í einni af síðustu orustu þessa stríðs þá ákváðum við úr efri hluta Skólavörðuholtsins að safna liði og arka niður á Lindargötu til að berjast við óvininn.  Ég útbjó mig með öll mín vopn og þrammaði af stað með ca. 10-20 samherjum, en eftir því sem nær dróg Lindargötunni þá þreyttist ég óskaplega.  Hinn gerðarlegi skjöldur minn var sannast sagna níðþungur og fjárans snærið var farið að skerast inn í lófann.  Þegar fylkingin var komin alveg niður að Lindargötu og ætlaði að beygja fyrir hornið þá gengum við beint í flasið á fylkingu andstæðinganna.  Þetta var eitthvað sem enginn átti von á.  Stærstum hluta beggja fylkinganna varð svo hverft við að umsvifalaust brast á mikill flótti í bæði liðin og eingöngu aldursforsetarnir, 2-3 úr hvorri fylkingu, tókust á með krossviði og trjágreinum.  Af sjálfum mér man ég það eitt að hafa fleygt frá mér fjárans skyldinum og tekið á rás og forðað mér alla leiðina heim án þess að kasta mæðinni fyrr en þangað var komið.

Þrátt fyrir andstöðu mína gegn stríðsrekstri og hraksmánarlega frammistöðu við slíka iðju í æsku þá er ég ekki með öllu fráhverfur því að ríki taki sig saman um að ráðast inn í annað.  Svo nokkur dæmi séu tekin þá er ég því feginn því að NATO tók að sér að skakka leikinn á Balkanskaga og geri enga athugasemd við innrás Bandaríkjamanna inn í Afganistan eftir atburðina 11. september 2001.  Að sama skapi hefði ég óskað þess að ríki heims hefðu tekið sig saman um að ráðast inn í Rúanda á sínum tíma.  Ég hef heyrt ýmsa málsmetandi menn lýsa því yfir að þeir væru á móti árásarstríði.  Ég skal umsviflaust viðurkenna að ég kann ekkert fyrir mér í hernaðarfræðum og stríðsrekstri.  Þess vegna spyr ég eins og bjáni: Eru til árásarlaus stríð?

Ég vil taka það skýrt fram að ég hef megnustu óbeit á stuðningi íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak og spyr mig hvort núverandi stjórnarherrar á Íslandi muni styðja sams konar innrás í Íran.  En ef marka má fréttir frá Bandaríkjunum þá hugnast Haukunum í Washington innrás í Íran fremur vel.  Þess vegna þætti mér gaman að vita hvort íslensk stjórnvöld væru reiðubúin að styðja slíka árás og þá ekki síður hverjar séu meginforsendur þeirra í stuðningi við stríðsrekstur, þ.e. hvaða skilyrðum þarf að fullnægja svo unnt sé að lýsa yfir stuðningi við innrásir og hvers konar gögn vilja stjórnvöld fá til að geta gert upp hug sinn.  Þegar stjórnin hef svarað þessum spurningum þá vil ég fá að sjá hin sömu gögn sem urðu þess valdandi að íslensk stjórnvöld ákváðu að lýsa yfir stuðningi við innrásina í Írak.


Meintur grunur

Það eru margvíslegar lýsingar og orðfæri sem notuð eru í fjölmiðlum sem að öllu jöfnu við gerum ekki athugasemdir við.  Ein slík lýsing er: ökumaður grunaður um ölvun.  Ég spurði eitt sinn lögregluþjón fyrir hvað þetta stendur og á hverju slíkur grunur er almennt byggður.  Lögregluþjónninn svaraði mér afdráttarlaust.  "Þetta þýðir að viðkomandi var það sem við köllum hversdagslega, pissfullur.  Grunurinn er byggður á öllu því sem við sjáum á ölvuðu fólki annars staðar.  Viðkomandi lyktar eins og sprittbrúsi, er reikull í spori, augun eru fljótandi og flöktandi, menn eru örir og allt annað sem við hversdagslega greinum af útliti og hátterni þeirra sem eru fullir."  Ég varð hugsi og spurði síðan: "eru ekki líka í þessum flokki þeir sem hafa fengið sér rauðvínsglas með matnum".  Löggi svaraði hið snarasta: "Nei, biddu fyrir þér.  Hins vegar hvílir á okkur rannsóknarskylda og það er að endingu blóðprufa sem ræður mestu um þau viðurlög sem viðkomandi hlýtur."

Þá vitum við það.  Grunur um ölvun þýðir pissfullur á mannamáli!


mbl.is Bifreið fór út af veginum á Hellisheiði; ökumaður grunaður um ölvun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Törnin á tökkunum

Senn líður að þinglokum en samkvæmt starfsáætlun Alþingis er gert ráð fyrir að vorþingi ljúki þann 15. mars, þ.e. næstkomandi fimmtudag.  Þar sem þingkosningar eru í vor þá lýkur þingi snemma.  Að sumu leyti er það eðlilegt en að ýmsu leyti er ekkert eðlilegt við starfstíma þingsins.  Það er ljóst að fram að kosningum eiga stjórnmálaflokkarnir eftir ýmislegt ógert, t.d. í málefnavinnu og áherslum.  Flest af því á betur heima í umræðum utan þings heldur en innan.  Þá má ekki gleyma því að stjórnarflokkarnir eru orðnir svo samgrónir eftir 12 ár með lyklavöldin í stjórnarráðinu eða þeir eru með öllu búnir að glata rótum sínum og þekkja vart sínar eigin áherslur frá stefnu samstarfsflokksins.  Þeir eru því í svipaðri stöðu og Bakkabræður í fótabaðinu að þeir þekkja ekki eigin bífur.  Ef skoðanakannanir ganga eftir þá verða kjósendur í hlutverki förumannsins sem sló með svipunni á fætur bræðranna frá Bakka og kenndi þeim hver ætti hvaða fætur.

 

Alþingi er undarlegur vinnustaður og deginum ljósara að síðari tíma vinnubrögð í mannauðs- og tímastjórnun hafa ekki verið tekin upp á Alþingi.  Þessu til stuðnings vil ég benda á nokkur dæmi sem Alþingismenn hafa frætt mig á.

  • Þingmál sem stjórnarandstöðuþingmaður leggur fram nær aldrei í endanlega atkvæðagreiðslu þar sem þjóðin fær að vitna um raunverulega afstöðu einstakra þingmanna til málsins.  Málið fær ekki endanlega afgreiðslu úr nefnd.
  • Þingmál sem hefur verið lagt fram á þingi þarf að leggja aftur fram á næsta þingi þó svo að umsagnarbeiðnir og ferli málsins hafi verið komið vel á skrið (þó svo að ekki hafi verið kosið til þings í millitíðinni).
  • Frumvörp til laga verða ekki til í þingnefndum, heldur ráðuneytum.  Í sumum tilfellum verða ákvarðanir eingöngu til á tveggja manna tali (t.d. stuðningurinn við innrásina í Írak).  En stundum fá fjórir að leggja í púkkið, s.s. auðlindaákvæðið sem stjórnarflokkarnir ætla að leggja fram.  Í því máli vekur sérstaka athygli að nú er starfandi stjórnarskrárnefnd sem allir flokkar eiga fulltrúa í.  Formenn stjórnarflokkanna kjósa hins vegar ekki að fara með málið í gegnum sína fulltrúa í nefndinni og frá nefndinni til þingsins!
  • Sum þingmál koma mjög seint fram og hafa þingmenn því takmarkaðan tíma til að setja sig inn í málin áður en þeim er ætlað að verða að lögum.  Landbúnaðarráðherra er frægur fyrir að vera með sín þingmál á síðustu stundu.
  • Mál sem eru lögð fram á þingi er vísað til viðkomandi þingnefndar eftir fyrstu umræðu.  Þingnefndin sendir síðan þingmálin til sérfræðinga og hagsmunaaðila til umsagnar.  Þegar þingmál koma seint fram er tími fyrir umsagnaraðila styttur.  Minni tími lakari rýni.
  • Alþingi er löggjafasamkoma.  Langstærstur hluti laganna fær endanlega afgreiðslu á síðustu dögum fyrir jól og í þinglok á vorin.  Þá starfar þingið nánast allan sólarhringinn.  Starfsmenn þingsins sem þykja faglegir og dugmiklir vinna jafnlengi.  Slík vinnutörn þingmanna og starfsfólks þingsins býður heim hættu á yfirsjónum og hroðvirkni sem er heimatilbúinn vandi.

Framundan er lokasprettur þingsins að þessu sinni ljóst er að miðað við hefðbundin vinnubrögð þá munu þingmenn haga sér eins og bónusvíkingar við flæðilínu.  Hvaða leikreglur samfélagið fær yfir sig eða óskalög hverra verða spiluð á eftir að koma í ljós.  Það eina sem er á hreinu er að það verður brjálað að gera á tökkunum í næstu viku.


Óvenjuleg sýn á Mið-Austurlönd vestanhafs

Það eru hrein undur og stórmerki hvað sumum mönnum fer það vel að bera titilinn fyrrverandi.  Ég veit ekki hverju það sætir en sumir sýna sínar bestu hliðar þegar þeir hafa látið af mikilvægum embættum.  Gárungarnir myndu sjálfsagt segja að þetta væru seinþroska einstaklingar en ég er ekki á sama máli.  Ég tel fremur að þeir sem blómstra áberandi seint eftir að hafa gegnt viðamiklum embættum séu fremur manískir í eðli sínu.  A.m.k. finnst mér það gilda um fyrrum Bandaríkjaforseta, Jimmy Carter, sem virkaði ekki sannfærandi á meðan hann gegndi embætti. 

Því miður er lítils að vænta af ástandi mála fyrir botni Miðjarðarhafs þegar einu gildir hvort húsbóndinn í Hvíta húsinu er Repúblikani eða Demókrati.  Stuðningur Bandaríkjanna við Ísrael gengur út yfir gröf og dauða og í þeim efnum hegða Bandaríkin sér ver gagnvart Ísrael heldur en Íslensk stjórnvöld í stuðningi sínum við utanríkisstefnu Bandaríkjamanna.  Hélt ég þó að Íslensk utanríkisstefna væri neðst í tossabekknum.


mbl.is Mótmæli gegn Jimmy Carter
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki hægt að halda sérstaka Olympíuleika lyfjafyrirtækja?

Þegar kemur að lyfjanotkun íþróttamanna verður mér orðfall.  Þess í stað gef ég Jónasi heitnum Árnasyni orðið:

Best er hóflega hormóna að taka

eins og glöggt sást á keppninni í Cuaca

þegar Hugo von Toft

stökk svo hátt upp í loft

að hann ókominn enn er til baka.

 

Limran er úr kveri eftir Jónas sem heitir Jónasarlimrur og kom út 1994.


mbl.is Rússneskur skíðagöngumaður féll á lyfjaprófi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Bjarni Ármannsson ofbeldishneigður?

Nei.  Ég hef enga ástæðu til að ætla að svo sé og hef rökstuddan grun um að Bjarni Ármannsson sé fremur dagfarsprúður maður, en ég þekki hann ekki persónulega.  Ég veit ekki til þess að hann hafi lagt stund á bardagaíþróttir en hitt veit ég að hann er liðtækur langhlaupari.

Tilefni þessarar fáránlegu fyrirsagnar á pistli mínum er fyrirsögnin á Mbl.is um Baugsmálið sem birtist á vefnum í dag.  Fyrirsögnin Bjarni Ármannsson ber vitni í Baugsmálinu býður heim a.m.k. þrenns konar túlkun, þ.e. ef við lesum ekkert annað en fyrirsögnina.  Við gætum auðvitað ályktað sem svo að Bjarni hafi gengið í skrokk á vitni í Baugsmálinu.  Einnig er sá möguleiki til staðar að eitthvert hinna fjölmörgu vitna hafi verið fótafúið og því hafi Bjarni hjálpað viðkomandi með því að taka það í fangið t.d. inn og út úr dómssal.  Þá gæti Bjarni hafa borið einhvern nauðugan, viljugan, t.d. starfsmann Glitnis, sem ætlaði að þráast við og sniðganga kvaðningu um vitnisburð fyrir héraðsdómi.  En við þurfum ekki að lesa nema fyrstu línu neðan fyrirsagnarinnar þegar ljóst er að Bjarni var sjálfur vitni í Baugsmálinu.

Augljóslega eru blaðamenn netmiðla einhvers konar atvinnubloggarar að vísu ekki með jafn frjálsar hendur í efnisvali og við sem erum að gutla við þetta í frístundum, en texti sem verður til á skömmum tíma hann verður oft og iðulega hvorki jafn vandaður né meitlaður og það sem verður til í rúmum tíma og eftir ítarlegan yfirlestur.  Gildir þetta um hvern þann sem setur frá sér texta án frekari skoðunar.

Þetta leiðir hugann að ýmsum þeim hættum og annmörkum sem bloggheimar í raun eru.  Textinn er oft ansi hrár, firnanna fár af ambögum, innsláttarvillum, endurtekningum og þversögnum sem hyrfu við frekari skoðun.  Ég sé iðulega ambögur og axarsköft í fyrri færslum eftir sjálfan mig.  Ef ég sé þær strax þá leiðrétti ég þær, en ef eitthvað er um liðið þá læt ég þær eiga sig og hugsa sem svo; æ, þetta er einnota fyrirbæri sem vekur engan áhuga manna á morgun.  Ég leyfi þessu að firnast án breytinga.

Ég held hins vegar að okkur sé öllum hollt að muna að það er stundum of auðvelt að senda frá sér texta og slíkt ættu menn að láta ógert ef lundin er erfið eða maður við skál.

Um alla tíð gildir gömul ábending frá Einari Ben.

Aðgát skal höfð í nærveru sálar


mbl.is Bjarni Ármannsson ber vitni í Baugsmálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki greiða Íslandi atkvæði!

Þessi færsla er ekki um Eurovision söngvakeppnina.  Heldur þá hégómlegu ákvörðun íslenskra stjórnvalda að sækja um inngöngu í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.

 

Ég hef verið eindregin talsmaður samstarfs og samvinnu ríkja heimsins á sem flestum sviðum og tel að ýmsar alþjóðlegar samþykktir séu ekki hvað síst mikilvægar fyrir fámenn ríki á borð við Ísland.  Jafnframt tel ég að Íslendingar hafi ýmistlegt fram að færa á meðal þjóða heimsins.  Við skulum ekki gleyma því að okkur hefur verið treyst fyrir alþjóðlegum verkefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna.  Nægir þar að nefna að tvær deildir Háskóla S.þ. eru starfræktar á Íslandi, Jarðhitaskólinn og Sjávarútvegsskólinn.

 

Öryggisráðið er hins vegar allt annar vettvangur heldur en sérfræðikennsla og þróunaraðstoð.  Mér finnst eiginlega að þeir sem fái sæti í öryggisráðinu þurfi að hafa sýnt fram á að þeir hafi eitthvað til málanna að leggja, t.d. að þeir eigi sér sögu um sjálfstæða utanríkisstefnu.  Því er ekki til að dreifa hjá okkur.  Íslensk utanríkisstefna hefur aldrei falist í neinu öðru en því að við höfum hagað okkur sem klappstýra bandarískra stjórnvalda og stutt þau án þess að hugleiða afleiðingar tiltækja þeirra.  Á þessu er ein undantekning, ekki má gleyma því að Jón Baldvin Hannibalsson sýndi, í sinni tíð sem utanríkisráðherra, gríðarlegt frumkvæði með stuðningi sínum við sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna.  Að því slepptu hefur ekki verið til sjálfstæð íslensk utanríkisstefna.  Ég tel því afar brýnt að Íslendingar taki ekki sæti í öryggisráðinu.  Heimsbyggðin þarf ekki á því að halda að þeir sem sæti eiga í öryggisráðinu styðji gagnrýnslaust hver þau heimskupör sem bandarískum stjórnvöldum kemur til hugar. 

 

Á síðustu árum hafa íslensk stjórnvöld tekið upp stjórnmálasamband við fjölmörg smáríki.  Ég hef talið mig sæmilega að mér í landafræði en ég verð að játa að ég þurfti að grípa fram Times Atlasinn til þess að finna hvar í veröldinni marga hinna nýfengnu vini okkar væri að finna.  Á vef utanríkisráðuneytisins er að finna lista yfir 98 ríki sem Ísland hefur tekið upp stjórnmálasamband við eftir árið 1990.  Ég hef ekkert á móti því að Íslendingar líkt og aðrar þjóðir hafi með sér samstarf og samband.  En hin nýja vinsemd sem utanríkisráðuneytið hefur sýnt löndum, einkum smáríkjum, vítt og breytt um jarðarkringluna er vitaskuld ekki til komin vegna þess að stefnt sé að heimsmeti í stubbaknúsi. 

 

Hér að neðan er listi yfir þau ríki sem Ísland hefur tekið upp stjórnmálasamband við eftir árið 1990.  Í síðari dálkinum er ártalið þegar sambandið var tekið upp.  Þeir sem eru leiðir á netinu en fróðleiksfúsir ættu að ná í landabréfabók og reyna að finna löndin.

 

Þegar kemur að vali á fulltrúum í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna er bón mín til hinna nýju vinaríkja einföld:

            Please, dont vote for Iceland! 
Afganistan

 

17.3.2004

Antígva og Barbúda11.3.2004
Armenía15.5.1997
Aserbaídsjan27.2.1998
Austur-Tímor4.12.2003
Belís
7.7.2004
Benín23.2.2005
Bosnía og Hersegóvína8.5.1996
Bólivía17.9.2004
Brúnei Darússalam27.4.2006
Búrkína Fasó23.10.2001
Búrúndí14.12.2006
Djíbútí
19.7.2005
Dóminíka29.6.2004
Dóminíska lýðveldið
23.6.2003
Eistland26.8.1991
Ekvador11.12.2003
El Salvador25.10.2000
Erítrea6.10.2004
Filippseyjar24.2.1999
Fílabeinsströndin14.10.2005
Gabon
27.5.2005
Gambía11.5.2004
Georgía21.9.1992
Gínea14.5.2004
Gínea-Bissá24.9.2004
Gvatemala5.8.1993
Gvæana10.3.2005
Haiti18.11.2005
Hondúras15.9.2004
Hvíta-Rússland25.5.2001
Jamaíka
24.5.2000
Jórdanía1990
Kambodía
19.6.2003
Kasakstan14.5.2004
Katar24.1.2002
Kirgisía2.4.2001
Kíribatí15.9.2005
Kongó15.12.2004
Kostaríka10.1.1997
Kómoraeyjar29.10.2004
Króatía30.6.1992
Kúveit26.4.1996
Laos
2.9.2004
Lettland26.8.1991
Liechtenstein1992
Litháen26.08..1991
Líbería28.11.2006
Líbía15.3.2004
Madagaskar
21.9.2006
Makedónía29.12.1993
Malasía1999
Malaví14.8.1998
Maldíveyjar30.1.1990
Malí23.7.2004
Malta3.7.1998
Marshalleyjar25.1.1993
Máritanía6.10.2004
Máritíus15.12.2003
Miðbaugs-Gínea10.9.2004
Míkrónesía27.9.2004
Moldóva1.6.1994
Mósambík5.3.1997
Namibía
10.12.1990
Narú17.2.2004
Óman26.2.1992
Palá
6.10.2004
Panama4.6.1999
Papúa Nýja Gínea
12.8.2004
Paragvæ17.3.2004
Rúanda12.5.2004
Sambía
23.7.2004
Sameinuðu arabísku furstadæmin17.9.2003
Samóa15.10.2004
Sankti Kristófer og Nevis5.5.2004
Sankti Lúsía17.5.2006
Sankti Vinsent og Grenadíneyjar27.5.2004
Senegal7.4.2004
Seychelleseyjar8.11.1990
Singapúr4.5.1999
Síerra Leóne13.11.2006
Slóvenía24.2.1992
Suður-Afríka31.5.1994
Súdan13.6.2003
Súrinam9.11.2004
Svartfjallaland26.9.2006
Svasíland3.12.1993
Sýrland6.5.2004
Tadsjikistan
14.2.2006
Tógó19.11.2004
Tsjad14.4.2004
Túrkmenistan13.2.1997
Túvalú26.7.2005
Úganda
2000
Úkraína30.3.1992
Úrúgvæ18.6.1991
Úsbekistan25.9.1997
Vanúatú27.9.2004
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband