Ótti við útlendinga

Útlendingahatur og rasismi hefur verið nokkuð í umræðunni einkum í kringum uppgjörið í Frjálslynda flokknum fyrir skömmu. Í Silfri Egils fyrir nokkru fór Magnús Þór Hafsteinsson alþingismaður mikinn og fann fjölgun útlendinga á síðustu misserum flest til foráttu. M.a. sagði Magnús Þór að hinn mikli fjöldi erlendra verkamanna ýtti undir þensluna í efnahagslífinu. Mér varð nokkuð brugðið við þá augljósu fákunnáttu sem Magnús varð uppvís að með þessarri yfirlýsingu sinni. Hið augljósa er að ef útlendingar koma til landsins í vertíðarvinnu við stórframkvæmdir þá vakir fyrst og fremst fyrir þeim að afla tímabundið mikilla tekna til að hafa með sér heim. Það slær, ef eitthvað er, á þensluna innanlands en eykur hana ekki.

Þrátt fyrir að vera þess sannfærður að Frjálslyndir væru á villigötum með afstöðu sinni í málefnum útlendinga ákvað ég að gefa þeim frekari séns og kynna mér nánar stefnu þeirra í þessum málaflokki. Eftirfarandi fann ég í nýrri stjórnmálaályktun á heimasíðu þeirra
www.xf.is:

 

Frjálslyndi flokkurinn mun þó beita sér fyrir að undanþága sú, sem samið var um í EES-samningnum, varðandi innflutning verkafólks frá aðildarlöndum EES, verði nýtt og innflutningur takmarkaður, í samræmi við ákvörðun íslenskra stjórnvalda.

 

Yfirvöld verða á öllum tímum að hafa stjórn á því hverjir og hvað margir innflytjendur koma til landsins. Jafnframt ber öllum, sem sækja hér um dvalarleyfi, að skuldbinda sig til að hlíta íslenskum lögum og stjórnarskrá.

 

Frjálslyndi flokkurinn varaði á Alþingi við afleiðingum þess að nýta ekki undanþáguákvæði um frjálst streymi fólks frá nýju aðildarlöndum Evrópusambandsins til landsins. Ríkisstjórnin neitaði að hlusta á þau varnaðarorð sem þingmenn Frjálslynda flokksins höfðu uppi, auk þess sem ríkisstjórnin vanrækti að marka stefnu í málefnum innflytjenda.

 

Því miður virðist Frjálslyndi flokkurinn vera á ámóta villigötum varðandi takmarkanir á innflutningi fólks frá einstökum löndum og varðandi áhrif þeirra á þensluna sem getið var að ofan. Því til staðfestingar vil ég benda á ágæta grein Eiríks Bergmanns Einarssonar sem hann birti fyrir skömmu á heimasíðu sinni. Í greininni segir Eiríkur m.a:

 

...rannsóknir sýna ennfremur að ómögulegt er að hefta straum innflytjenda með því einu að herða aðstreymisreglur.

 

Tökum dæmi. Eins og Íslendingar nýttu Finnar sér frest til að opna vinnumarkað sinn til nýju aðildaríkja ESB fram til 1. maí í ár. Vinnumarkaðurinn í Svíþjóð var hins vegar galopnaður strax 1. maí 2004. Eigi að síður var fjölgun innflytjenda frá nýju aðildarríkjum ESB meiri í Finnlandi heldur en í Svíþjóð. Með öðrum orðum þá er það eftirspurnin í efnahagslífinu sem skýrir flæði verkafólks, ekki þau höft sem sett eru.

 

Svo mörg voru þau orð. Ég er því í verulegum vandræðum með það hvernig ég á að skilja afstöðu þeirra Frjálslyndu. Ég hélt að ég ætti aldrei eftir að upphefja fáfræðina en ég vona að vandi Frjálslyndra felist í því að þeir séu illa að sér en ekki illa meinandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Ég veit ekki hvað þetta er heldur. Þekki vel meinandi fólk sem er í Frjálslynda flokknum, en það virðist hafa blindast af þessari umræðu. Eða fylgisaukningunni sem kom í kjölfarið. Hún virðist sem betur fer hafa gengið til baka.

Svala Jónsdóttir, 6.2.2007 kl. 09:16

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Rétt hjá þér þetta með þensluna. Auk þess að flytja burt fjármagn, sem þú nefndir, þá keyrir þetta niður launataxta og ætti því að tempra neyslu.  Það er þó aðeins hjá lægri launaflokkum og misskiptingin eykst.  Ég er ósammála óheftum aðflutningi vinnuafls að órannsökuðu máli.  Á næsta áratug verður samdráttur auðlinda til þess að atgerfisflótti eykst og viðkvæmt efnahagslíf okkar ber ekki hömlulausa viðbót fólks, hvort sem er til skamms tíma eða lengri. Það er misskilningur að halda því fram að verkamenn, sem eru hér til skamms tíma, séu hér til skamms tíma ef svo má segja því þótt einstaklingarnir dvelji stutt er viðbótin viðvarandi og vaxandi. Hér er ég eingöngu að tala um praktíska og félagslega hlið málsins og frábið mér dylgjum um kynþáttahyggju því kynþættir og uppruni koma málinu lítið við.  Það er þó ljóst af reynslu fyrri landa að þegar kreppir að í efnahagslífinu, þá verður metingur um rétt til auðlinda landsins milli þeirra, sem eru innfæddir og þeirra, sem eru aðfluttir. Ólga og óeining verður og fólk dregur sjálft sig í dilka eða sellur, sem stuðlar að aðskilnaði og erjum.

Þetta mál er ekki eins einfalt og menn vilja teikna það upp. Það er fyrir neðan mannlega virðingu að bregðast við slíkri umræðu með uppnefnum og fordæmingu. 

Jón Steinar Ragnarsson, 6.2.2007 kl. 09:38

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Tek það fram að ég er ekki málsvari Frjálslyndra hér, langt frá því.  Þú talar einnig um að framboð og eftirspurn ráði. Svo má virðast við fyrstu sýn. Alltaf verður hluti þessa fólks eftir og höfum við dæmin um það í kringum okkur. Upp úr þessu spretta hreyfingar öfga-hægrimanna, sem ala svo á úlfúð og mannfyrirlitningu. Það er ekki heimur, sem við viljum búa þessu fólki.  Við getum heldur ekki þjónað sem yfirfall fyrir önnur lönd í efnahagshremmingum. Göfugt málefni en algerlega óraunsætt.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.2.2007 kl. 09:46

4 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég á asíska tengdadóttur og þrjú lítil yndisleg hálf asísk barnabörn.

Svava frá Strandbergi , 6.2.2007 kl. 21:59

5 Smámynd: Sigrún Friðriksdóttir

Það hefur alltaf verið ómögulegt að skilja stjórnmálamenn og flokka Og þið kjósið þá sömu aftur og aftur

Sigrún Friðriksdóttir, 6.2.2007 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband