Það liggur ekkert á

Ég vil vetja athygli á tveimur athyglisverðum verkefnum sem hafa komið fram á síðustu misserum og ganga út á orkuöflun á Íslandi með öðrum hætti en gert hefur verið til þessa.  Ég verð samt að biðjast forláts á því að vera fremur verkfræðilega þenkjandi að þessu sinni.  Hvorugt verkefnið er komið það langt að unnt sé að hrinda þeim í framkvæmd en þau vekja vonir um orkuöflun í meiri sátt við umhverfið en flest önnur sem til stendur að hrinda í framkvæmd.

 

Hið fyrra er djúpborunarverkefnið sem af og til hefur verið til umræðu án þess að almennilega hafi verið gerð grein fyrir stöðu þess.  Verkefnið gengur út á það að bora um 4-5 km djúpar holur þar sem finna má 400-500°C heitan vökva undir miklum þrýstingi.  Við hinn mikla þrýsting er suðumark vökvans kominn yfir 300°C.  Von manna stendur til að afl slíkra hola geti verið 5-10 falt það sem fæst úr hefðbundnum holum (erfitt er raunar að tala um eitthvað hefðbundið því sumar eru þurrar og gefa ekkert afl á meðan aðrar gefa yfir 10 MW).  Djúpborunarverkefnið á hins vegar langt í land og það eru mýmörg óleyst verkfræðileg viðfangsefni sem fylgja því.  Kostnaður við eina holu af þessarri gerð er áætlaður 1,5 til 2 milljarðar króna.  Dýrt, áhættusamt en afar spennandi.  Það versta sem kæmi út úr verkefni af þessu tagi væri engin orka, en gríðarleg þekking á dýpi í jarðskorpunni sem við höfum haft fremur óljósar hugmyndir um.

 

Hitt verkefnið sem ég vil nefna til sögunnar eru svokallaðir Gorlov hverflar.  Vafalítið hljómar fyrirbærið framandi fyrir þorra fólks.  En ég heyrði fyrst um fyrirbærið á ráðstefnu Orkustofnunar haustið 2004 sem bar yfirskriftina Nýir kostir til orkuöflunar.  Með mikilli einföldun má segja að þessir hreyflar séu ætlaðir til að virkja sjávarfallastrauma án þess að nokkur stíflumannvirki þurfi að koma til sögunnar.  Hverflarnir yrðu á kafi svo unnt yrði að sigla yfir þá og veður hefði þar með engin áhrif á gang þeirra.  Fyrirlesarinn, Geir Guðmundsson á Iðntæknistofnun, taldi ástæðu til að kanna hvort unnt væri að nota slíkan búnað til að virkja Röstina í Hvammsfirði inn af Breiðafirði og e.t.v. víðar.  Ekki hef ég grænan grun um hver framvinda þessa verkefnis hefur verið og veit ekki hvort hugmyndin hafi verið afskrifuð.  Engu að síður þá eru þessi tvö verkefni sem ég nefndi að ofan eingöngu dæmi um það sem fagfólk hefur verið að vinna að varðandi orkuöflun til framtíðar. 

 

Við þurfum ekki að láta eins og það sé einhver “síðasti séns” að reisa virkjanir út um víðan völl.  Eins og Sigríður Anna Þórðardóttir, alþingismaður, nefndi í ræðu á Alþingi fyrir skömmu.  Það er óhætt að slaka aðeins á, orkuverðið gerir ekki annað en að hækka á næstu árum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

já, innilega sammála.

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 16.2.2007 kl. 22:39

2 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Sammála. Allt til þess að Ísland verði ekki 'örum skorið'

Svava frá Strandbergi , 16.2.2007 kl. 23:19

3 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Áhugavert, hlítur að vera flötur á alþjóðlegu samstarfi til þróa tæknina, kanski hægt að sækja einhverja styrki til Evrópusambandsins í þessu tilfelli.  Alla vega eitthvað sem heimsbyggðin er að leita eftir, nýjar leiðir til orkuframleiðslu.

Ester Sveinbjarnardóttir, 17.2.2007 kl. 01:26

4 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Forysta í notkun hreinnar orku er eitthvað sem stjórnmálamenn hér elska að nefna í tengslum við Ísland, þegar þeir eru á erlendri grund. Einnig höfum við afskaplega undarlega hugsaðar hugmyndir um að skipa Háskóla Íslands í raðir hundrað bestu háskóla heims.

Góð leið til þess væri að nýta sérstöðu landsins til þess að styrkja áhugaverð rannsóknarefni. Hrein orka er eitthvað mikilvægasta verkefni framtíðarinnar, og sífellt bendir fleira til þess að nú megi ekki væflast og bíða lengur, ef við eigum að afstýra snöggum loftslagsbreytingum, og sér í lagi mögulegum hafstraumabreytingum?

Það er sorglegt að sjá Háskóla Íslands fjársveltan með metnaðargjarnari stefnu en nokkurn tímann, og á sama tíma flæðir féð úr ríkiskassanum í gríðarstórar framkvæmdir, notandi gamla tækni sem hefur í för með sér dramatísk umhverfisspjöll, þegar réttara væri auðvitað að leggja fé í rannsóknir og framkvæmdir á hreinum orkulindum -- eins og Ísland er nú frægt fyrir að nýta.

Það hryggir mann að sjá efnahyggjuna og skammsýnina ráða öllu hér, líkt og hjá vinum okkar Bandaríkjamönnum. En það má vel sjá tengsl milli þeirra stefnu, mikilli mengun og ótrúlegum seinagangi við takmörkun mengunar og umhverfisvernd.

Ég vona innilega að notkun þeirra orkugjafa sem þú talar um sé enn uppi á pallborðinu hér á Íslandi, og við getum stigið skrefi nær því að vera hluti af lausninni.

Steinn E. Sigurðarson, 17.2.2007 kl. 11:43

5 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Áhugaverð samantekt.  Það munu pottþétt verða miklar tækniframfarir í orkumálum í framtíðinni, bara spurning hversu fljótt þær munu eiga sér stað...

Sigfús Þ. Sigmundsson, 17.2.2007 kl. 12:16

6 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Já, þetta er kórrétt hjá þér. Auðvitað flýtum við of mikið. Það er eins og margir pólitíkusar

okkar séu að missa af síðasta strætó. Allt á helst hafa gerst í gær eða í síðasta lagi í fyrradag!

Sem gamall lyfsali myndi ég gefa þessu liði eina róandi (sumum tvær) og senda þá svo í sam-

talsmeðferð (suma á áframhaldandi lyfjameðferð til öryggis) og/eða þær meðferðir, sem þeir

trúa helst á, því að lyfjameðferð tels ekki nútímalegt nú á dögum (!), nær margir eru farnir að

trúa á stokk og steina eða ekkert nema sjálfan sig!

En svona án gamans, þá eru þeir kostir, sem þú nefnir í þinni ágætu grein, vel þess virði,

að þeir séu kannaðir frekar í fullri alvöru og jafnfram má benda á rafmagnsframleiðslu með

vindorku, sem yfrið nóg er til af á Íslandi. Ég er ekki að hugsa eingöngu um Þingeyjarsýslur

í því sambandi, því að vindorku er að finna í öllum landshornum og víða á milli þeirra.

Bara vindorkan ein og sér er mikið rannsóknarefni, en hún mun eðli málsins samkvæmt

aldrei geta verið áreiðanleg einsömul, en góð í bland.

Kannske ættum við að stofna landsamtök áhugafólks um nýja virkjunarkosti og taka þá, sem

vilja virkja sólarorkuna með. Sjálfsagt má tína fleira til, en mér datt þetta svona í hug, en vil

að lokum þakka þér, Sigurður, fyrir ágæta grein. Kveðja, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 17.2.2007 kl. 14:15

7 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Kristján, vindorkan hefur þá annmarka að henni fylgir ekki síður mengun, þá erum við að tala um sjónmengun og gríðarlega hljóðmengun.  Tek undir orð Steins hér að ofan.

Ester Sveinbjarnardóttir, 17.2.2007 kl. 14:33

8 Smámynd: www.zordis.com

Hvað áttu eiginlega marga bloggvini og hvernig gengur þér að rækta þá bloggvináttu sem þú hefur skapað þér?  Ég á fullt í fangi með þá fáu en svona erum við misjöfn eins og við erum mörg .....................  Life is wonderful

www.zordis.com, 17.2.2007 kl. 17:45

9 identicon

Mér finnst þessar hugmyndir um orkuna gífurlega spennandi.  Mér finnst ekki endilega þurfa að vera svo mikil sjónmengun af þessum tegundum virkjana.  Það er vel hægt að gera flottar "vindmillur"  og ef fjölda þeirra er stillt í hóf.  En kannski horfi ég öðruvísi á hlutina sem tæknifræðinemi.  Veit ekki.  Allaveganna hef ég komist að því að ýmiss mannvirki sem mér þykir flott og spennandi falla kannski ekki í kramið hjá umhverfisvænum almenninginum (er það ekki nánast þorri þjóðarinnar?).  En við værum kannski ekki með allar þessar umræður og átök um virkjanir, mislæg gatnamót, há eða lágbrú fyrir Sundabraut  og svo lengi mætti telja ef við værum öll sammála.  Ekki satt?

Hildur Sif Helgadóttir (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 18:13

10 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þetta eru greinargóðar lysingar a hlutunum og eg segji eins og fleiri það lyggur ekki lifið á þesssu!!!!Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 17.2.2007 kl. 18:59

11 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Kjarnasamrunaver til Frakklands

Hvenær má búast við...?

 Egill Egilsson skrifaði margar greinar í Moggann um kjarnasamruna fyrir nokkrum árum.

Pétur Þorleifsson , 19.2.2007 kl. 23:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband