Er erfitt að kyngja stoltinu eða ....

Mér hefur oft þótt Geir H. Haarde vera fremur geðþekkur náungi, ekki síst í samanburði við fyrirrennara sinn á formannsstóli Sjálfstæðisflokksins.  En ég veit ekki hvort hann sé haldinn stakri kvenfyrirlitningu eða hvort hann sé bara svona klaufskur þegar hann tjáir sig um konur.  Flestum er í minni hin ógeðfellda samlíking hans á varnarsamstarfi og kvennafari, en fyrir skömmu bætti hann um betur þegar hann tjáði sig um þær stúlkur sem hafa orðið ófrískar eftir vistina í Byrginu og sagði að auðvitað væri ekki hægt að fullyrða að þær hefðu ekki orðið ófrískar án þess að hafa dvalið í Byrginu.  Ég ætla hins vegar að leggja hlutina á besta veg fyrir Geir og halda því fram að hann hafi bara misst þetta út úr sér án þess að nokkur alvara hafi búið að baki.  Þetta var fljótfærni sem við skulum fyrirgefa.

 

Hins vegar er annað í lífi og starfi Geirs H. Haarde, samstarfsmanna hans í ríkisstjórninni og klappliði stjórnarflokkanna á Alþingi sem ég á afar bágt með að sætta mig við.  Það er yfirlýstur stuðningur Íslands við innrásina í Írak.  Ég er almennt ekki langrækinn en daglega fæ ég fréttir af dauða óbreyttra borgara í Írak, auk þess sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar þreytast ekki á því að réttlæta stuðning sinn og svara með skætingi og útúrsnúningi þegar einhver leyfir sér að gera athugasemdir við þann gjörning.  Ég er því daglega minntur á einhverja dapurlegustu ákvörðun íslenskra stjórnvalda í utanríkismálum.

 

Ég get ekki að því gert að mér finnst við hafa brugðist Bandaríkjamönnum með því að hafa gagnrýnislaust lýst yfir stuðningi við innrás þeirra í Írak.  Tilfellið er að Íslendingar og Bandaríkjamenn hafa átt farsælt samstarf á mörgum sviðum í áratugi.  Svo nokkur dæmi séu nefnd þá höfum við haft með okkur varnarsamstarf, mikill fjöldi Íslendinga hefur stundað nám við bestu skóla Bandaríkjanna, í gegnum tíðina hafa viðskipti landanna verið góð og Íslendingar ferðast mikið vestur um haf og á móti eru þeir í hópi þeirra erlendu ferðamanna sem eru hvað duglegastir við að sækja okkur heim.  Eða í stuttu máli, það hefur farið tiltölulega vel á með þjóðunum og ég held hreinlega að það sé hægt að tala um vináttu í þessu sambandi.  En í þessu stóra máli, innrásin í Írak, reyndumst við þeim ekki vel.  Sá vinur er ekki traustsins verður sem hefur ekki kjark til að hnippa í vini sína þegar auðsýnt er að hann er á villigötum.  Það heitir að bregðast vinum sínum.

 

Þar sem forsætisráðherrann og vinnufélagar hans í ríkisstjórninni þreytast ekki á því að réttlæta þau voðaverk sem framin eru daglega í Írak þá verður sú háttsemi ekki skilin öðru vísi en svo: við myndum gera þetta aftur í dag og á morgun og hinn og ........


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sérlega athygliverð var sú tilraun þeirra félaga hans og Guðna til að skeyta saman ólöglegum stuðningi við innrásina annars vegar þar sem ákvörðun var tekin af tveimur mönnum utanríkisráðherra og forsætisráðherra og svo fjárhagsstuðningi við uppbyggingu sem samþykkt var af alþingi.  Eru þessir menn gjörsamlega veruleika fyrrtir, eða á að reyna allt til að rugla fólk í ríminu, halda þeir virkilega að við íslendingar séum svona bláir að við sjáum ekki muninn á þessu tvennu ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.2.2007 kl. 21:21

2 Smámynd: Björk Vilhelmsdóttir

Takk Sigurður fyrir frábæran pistil um tengl ríkistjórnar okkar íslendinga við dagleg dráp í Írak. Það er ekki eins og Írakar séu eitthvað minni virði en við hér á Fróni. Hver og einn sem drepinn er í þessu árásarstríði Bandaríkjanna, gæti allt eins verið við sjálf og börnin okkar. Þessu megum við ekki gleyma. Takk aftur. Björk

Björk Vilhelmsdóttir, 22.2.2007 kl. 21:27

3 Smámynd: Benedikt Bjarnason

Ég skil einfaldlega ekki ástæðu þess að við erum ennþá á þessum lista. Það sem ég óttast mest er að það komi að því að íslendingur lendi í óþægilegri aðstöðu í mið-austurlöndum vegna afstöðu "íslensku þjóðarinnar". Það væri t.d. erfitt að útskýra fyrir hópi öfgasinnaðra mannræningja að meirihluti þjóðarinnar hafi verið á móti innrásinni.

Benedikt Bjarnason, 22.2.2007 kl. 22:27

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þarna erum við sko sammála ,það hefði verðið mjög gott fyrir Geir Haarde að segja við eigum ekki að gera svona ,eg held að hann hefi ekki verið spurður a sinum f tima /Aldrei og seint að viðkenna mistök þá þeirra sem þetta gerður Daviðs og Halldórs/En um þetta er stór hluti minna manna Xd alls ekki sammála .þvi miður/Þetta var og er skömm og ekkert annað/// Kveðja Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 22.2.2007 kl. 22:27

5 identicon

æi mér finnst það bara hrikalega sorglegt að ég hafi verið dregin inní samþykkt um slíka viðbjóðslega ákvörðun. ég kýs að taka þessu persónulega þar sem ég er hluti af íslensku þjóðinni. ákvörðun um að styðja stríð er hrikalega stór og ljót ákvörðun. þessu er ekki hægt að gleyma aðeins sýna iðrunina sem ber í máli sem slíku

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 23.2.2007 kl. 01:19

6 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Hafðu þökk fyrir þessa ágætu grein, Sigurður, því að "vinur er sá, sem til vamms segir" segir

máltækið. Davíð og Halldór eru dauðlegir menn eins og við hin. Þeir eru menn að meiri, ef þeir

bæðu okkur, íslensku þjóðina og bandarísku þjóðina, vini okkar í bráð og lengd afsökunar á mistökum sínum.Svona skandall má aldrei henda okkar ráðamenn aftur, aldrei aftur!

Með góðri kveðju, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 23.2.2007 kl. 08:02

7 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Góð grein, vel þess virði að minnast á þetta. Mér finnst ennþá að draga ætti til ábyrgðar þá fanta sem skrifuðu undir stuðningsyfirlýsingu fyrir Íslands hönd, þegar augljóst er að íslenska þjóðin styður ekki stríð.

Það skiptir nánast engu máli hvaða stríð um ræðir, að styðja stríð er að styðja mannlegar hörmungar. Að styðja stríð sem er byggt á litlum, vafasömum gögnum, og augljóslega tengt fjárhagslegum ávinningi, er ekki bara rangt, það er glæpur gegn mannkyni.

Steinn E. Sigurðarson, 23.2.2007 kl. 11:15

8 Smámynd: halkatla

sammála! gott að einhver geti skrifað svona málefnanlegan pistil um þetta. og tek undir hvert orð hjá Kleópötru Mjöll og fleirum líka.  

halkatla, 23.2.2007 kl. 11:32

9 Smámynd: Guðlaugur Kristmundsson

Hæ frændi, góð grein.

Guðlaugur Kristmundsson, 23.2.2007 kl. 14:25

10 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sigurður, ég er ánægður með þig. Sjálfur mun ég tuða um þennan dæmalausa stuðning við Íraksstríðið þar til menn sjá að sér í ríkisstjórn Íslands. 

Haukur Nikulásson, 23.2.2007 kl. 16:06

11 Smámynd: Bergþóra Jónsdóttir

Rétt einu sinni talarðu eins og þú sért minn sérlegi sendiherra.  Ég gæti ekki verið meira sammála.  Mér finnst punkturinn um vináttu þjóðanna góður. Er sjálf ein af þeim sem hef búið vestra, og finn í samtölum við vini mína þar, að mælir bandarísku þjóðarinnar er líka fullur.  Það er sárt að sjá daglega ömurlegar afleiðingar innrásarinnar og finna til þessarar endalausu samsektar, og vita um leið að við hefðum getað staðið með bandarísku þjóðinni gegn forheimskun og dáðleysi ráðamanna þeirra.  Ákvörðun okkar ráðamanna var tekin fyrir okkar hönd - að okkur forspurðum, sem mér þykir ekki tiltakanlega lýðræðislegt, og lýsir einungis ótta þeirra sjálfra um að hún hefði aldrei verið samþykkt annars.

Bergþóra Jónsdóttir, 23.2.2007 kl. 18:04

12 Smámynd: Katrín

Og enn einu sinni komast þessir kónar hjá því að gefa upp hvaða röngu upplýsingar voru það sem réðu ákvörðun þeirra Davíð og Halldórs.  

Katrín, 23.2.2007 kl. 20:59

13 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Mæltu manna heilastur varðandi Íraksstríðið - það er ævarandi smánarblettur á íslenskri þjóð að hafa lent á lista hinn "viljugu þjóða".

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 25.2.2007 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband