11.3.2007 | 22:20
Inn í hvaða ríki ráðumst við næst?
Ef ég væri skyldaður til að gegna herþjónustu þá yrði ég vafalaust vonlaus hermaður. Ég hef aldrei botnað í þeim mönnum sem búa í löndum þar sem herskylda ríkir sem lýsa því yfir án umhugsunar að þeir væru reiðubúnir til að berjast fyrir land sitt. Ég þarf langa umhugsun til að finna þær aðstæður sem fá mig til að samþykkja að drepa mann og annan þar sem jafnframt væru verulegar líkur til að ég myndi sjálfur verða drepinn.
Ég á samt sem áður tvær gamlar minningar af bardögum sem ég tók þátt í. Fyrri minningin er frá þeim tíma að ég og systir mín reiddumst hvort öðru heiftarlega og hugðumst útkljá deilu okkar með vopnavaldi. Hún var með heimilissópinn og ég með skrúbbinn. Ég var á að giska 7-8 ára en hún 5 árum eldri. Okkur var fúlasta alvara með að koma höggi af fullu afli hvort á annað. Pabbi heyrði til okkar og kom að okkur þar sem við vorum í stofunni og hugðist skakka leikinn og afvopna okkur hið snarasta. Þetta var eitthvað sem við ætluðum okkur ekki að samþykkja. Án nokkurs samráðs hvort við annað beindum við systkinin reiðinni samtímis að pabba og þegar honum varð ljóst hvað verða vildi þá forðaði hann sér úr stofunni og inn í annað herbergi og lokaði að sér. Þetta fannst okkur brjálæðislega fyndið og lögðumst í gólfið í hlátuskasti og létum af frekara vopnaskaki. Lauk því þessum bardaga án þess að nokkurn tíma kæmi til blóðsúthellinga eða mannfalls.
Hinn bardaginn sem ég tók þátt í var öllu fjölmennari og var háður í Skólavörðuholtinu í Reykjavík. Átökin voru kölluð Lindargötubardaginn og ef mig misminnir ekki þá átti hann sér stað árið 1975. Af einhverjum ástæðum þá urðu til tvær fylkingar úr nokkrum árgöngum í Austurbæjarskóla. Í annarri voru krakkar sem flestir bjuggu næst Hallgrímskirkju en kjarninn í hinni bjó við Lindargötuna. Ekki man ég tilefni þessarra bardaga en ég man það að ég lagði mig fram um margvíslega hluti sem tilheyrði þessum stríðsrekstri. Eitt af því sem ég tók mér fyrir hendur var að smíða mín eigin vopn. Ég tók mig til og klambraði saman sverði sem síðan var svo brothætt að það mölbrotnaði skömmu síðar í samstuði við ræfilslega trjágrein andstæðings míns. Einnig tók ég mig til og bjó til gerðarlegan skjöld úr þykkri spónaplötu. Á plötuna boraði ég fjögur göt, þræddi síðan snærisspotta í gegnum götin og var að því búnu kominn með fullgerðan varnarbúnað. Til að kóróna múnderinguna þá setti ég upp loðhúfuna mína sem var með galloni hið ytra og mér fannst hún alltaf í laginu eins og hermannahjálmur eins og hafði séð í bíó. Í einni af síðustu orustu þessa stríðs þá ákváðum við úr efri hluta Skólavörðuholtsins að safna liði og arka niður á Lindargötu til að berjast við óvininn. Ég útbjó mig með öll mín vopn og þrammaði af stað með ca. 10-20 samherjum, en eftir því sem nær dróg Lindargötunni þá þreyttist ég óskaplega. Hinn gerðarlegi skjöldur minn var sannast sagna níðþungur og fjárans snærið var farið að skerast inn í lófann. Þegar fylkingin var komin alveg niður að Lindargötu og ætlaði að beygja fyrir hornið þá gengum við beint í flasið á fylkingu andstæðinganna. Þetta var eitthvað sem enginn átti von á. Stærstum hluta beggja fylkinganna varð svo hverft við að umsvifalaust brast á mikill flótti í bæði liðin og eingöngu aldursforsetarnir, 2-3 úr hvorri fylkingu, tókust á með krossviði og trjágreinum. Af sjálfum mér man ég það eitt að hafa fleygt frá mér fjárans skyldinum og tekið á rás og forðað mér alla leiðina heim án þess að kasta mæðinni fyrr en þangað var komið.
Þrátt fyrir andstöðu mína gegn stríðsrekstri og hraksmánarlega frammistöðu við slíka iðju í æsku þá er ég ekki með öllu fráhverfur því að ríki taki sig saman um að ráðast inn í annað. Svo nokkur dæmi séu tekin þá er ég því feginn því að NATO tók að sér að skakka leikinn á Balkanskaga og geri enga athugasemd við innrás Bandaríkjamanna inn í Afganistan eftir atburðina 11. september 2001. Að sama skapi hefði ég óskað þess að ríki heims hefðu tekið sig saman um að ráðast inn í Rúanda á sínum tíma. Ég hef heyrt ýmsa málsmetandi menn lýsa því yfir að þeir væru á móti árásarstríði. Ég skal umsviflaust viðurkenna að ég kann ekkert fyrir mér í hernaðarfræðum og stríðsrekstri. Þess vegna spyr ég eins og bjáni: Eru til árásarlaus stríð?
Ég vil taka það skýrt fram að ég hef megnustu óbeit á stuðningi íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak og spyr mig hvort núverandi stjórnarherrar á Íslandi muni styðja sams konar innrás í Íran. En ef marka má fréttir frá Bandaríkjunum þá hugnast Haukunum í Washington innrás í Íran fremur vel. Þess vegna þætti mér gaman að vita hvort íslensk stjórnvöld væru reiðubúin að styðja slíka árás og þá ekki síður hverjar séu meginforsendur þeirra í stuðningi við stríðsrekstur, þ.e. hvaða skilyrðum þarf að fullnægja svo unnt sé að lýsa yfir stuðningi við innrásir og hvers konar gögn vilja stjórnvöld fá til að geta gert upp hug sinn. Þegar stjórnin hef svarað þessum spurningum þá vil ég fá að sjá hin sömu gögn sem urðu þess valdandi að íslensk stjórnvöld ákváðu að lýsa yfir stuðningi við innrásina í Írak.
Athugasemdir
Skemmtileg grein Sigurður. Fyrir nokkrum dögum, vegna svipaðrar umræðu, velti ég því fyrir mér hvort ég væri til í að berjast og deyja fyrir Ísland ef gerð yrði innrás frá einhverju ríki eða hryðjuverkasamtökum. Ég komst að þeirri niðurstöðu að það myndi ég ekki gera. Ég myndi draga mig í hlé og bíða að öldur lægði. Með öðrum orðum ég myndi bara berjast ef ráðist yrði á mig persónulega eða fjölskyldu mína.
Þýðir þetta að ég sé ekki ættjarðarvinur? Jú, en ekki fífl. Það hefur engin tryggt mér aðra tilveru en þessa og ég vil halda í hana eins lengi og kostur er og ég nýt hennar. Fúli sannleikurinn er sá að ég er ekki tilbúinn að deyja fyrir núverand ríkisstjórn frekar en að hún myndi deyja fyrir mig. Svo er víst.
Þessi hverfastríð sem þú nefndir voru eiginlega algengari á árunum 60-70 fremur en 70-80. Ég lenti í tveimur þeirra: Stríð á milli Álfheima og Voga, líklega 1962 (þá 7 ára) og síðan 1966-7 á milli Álftamýrar og Háaleitisbrautar. Í hvorugu þessara stríða varð skráð mannfall, þó einhverjar skrámur. Eitthvert tjón varð á spýtusverðum og krossviðsskjöldum.
Að endingu Sigurður, með stórum staf. Ef ég væri staddur í Washington núna væri ég herfilega móðgaður. Haukur með stórum staf er sérnafn en haukarnir í Washington eru fuglar sem ég vil engin tengsl við undir neinum kringumstæðum. Afsökunarbeiðnin þín er hér með samþykkt!
Haukur Nikulásson, 11.3.2007 kl. 22:45
Ég játa að ég hefði mátt staldra lengur við "háin". En ég var pínu upptekinn við að haukarnir fyrir westan eru tilteknir nafngreindir einstaklingar og því fannst mér átæða til að nota sérnafnið líkt og um hljómsveit eða klíku væri að ræða. En ég geri mér grein fyrir því að þú vilt ekki að nafn þitt sé spyrt saman við þessa kumpána. Fyrirgefðu!!
Sigurður Ásbjörnsson, 11.3.2007 kl. 22:56
Ég tel að það sé ekki svo víst að íslensk stjörnvöld leggi "blessun" sína yfir árás á Íran. Einfaldlega vegna þess að um leið og bandaríski herinn hvarf á braut frá Miðnesheiði dró verulega eða jafnvel allveg úr því að ákvarðanir í utanríkismálum Íslendinga séu teknar í Pentagon eða í Hvíta húsinu.
Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 11.3.2007 kl. 23:00
semmtileg frásögn að Lindargötubardaganum.innlit ogkvitt
Laugheiður Gunnarsdóttir, 11.3.2007 kl. 23:31
Flottur pistill hjá þér, virkilega góð frásögn á Lindargötubardaga.
Tómas Þóroddsson, 12.3.2007 kl. 00:23
Frábær lesnig þetta ,þu ert frággnagóður mjög og það gaman/ mynnir mig á gamla daga /Halli Gamli
Haraldur Haraldsson, 12.3.2007 kl. 00:31
Eru karakkar og unglingar ekki farin að nota tölvuleikja kjaftæði til að fá útrás fyrir "stríðsmanninn" í sér?Sem að vísu er svo kanski fært út á götu þegar er verið að ráðast á fólk algjörlega að tilefnislausu...og nota sömu aðferðir þar og gert er í tölvuleikjunum..Ætla ekki að fullyrða að þetta sé rétt en mér hefur dottið þetta í hug þegar maður les og heyrir í fréttum um svona árásir...Með Iran ...þá er Bush karlinn að skapa múgæsingu til þess að fá þjóð sína til að leggja "blessun" yfir innrás í Iran...Við skulum vona að ekki verði varpað mini atombombu á Washington og svo haldi bandarísk stjórnvöld því fram að íslamskir Iranir sem hati alla kana hafi droppað bombunni... en þó er aldrei að vita nema liðið beiti sömu aðferðum og gert var til að fá bandarísku þjóðina til að samþykkja innrás í Iraq...Kommúnista grýlan er jú dauð... ekki hægt að nota hana sem tæki til að stjórna hinum almenna borgar og kúga til hlýðni.....þannig að það varð að búa til aðra "grýlu" og það er hún "Terrorisma"...en ég verð að segjaað ég get ómögulega skilið að hægt sé að innleiða lýðræði í öðrum löndum með vopnavaldi frá utanað komandi þjóð...Sorry..að ég fór út um "holt og móa" hér...
Agný, 12.3.2007 kl. 00:54
Mér finnst það hræsni á hæsta stigi að haukarnir í Ameríku skuli telja að þeir hafi leyfi til að deila og drottna. Hver er eina þjóðin sem hefur misbeitt kjarnorkuvopnum, og þeir eru einir af fáum þjóðum sem hafa virkilega farið með ófriði inn í önnur lönd, til að "skakka leikinn". Hver gaf þeim leyfi. Og þeir ættu að vera fyrsta ríkið af gefnu tilefni, sem ætti að neyða til að eyða sínum kjarnorkuvopnum og verum. Þeir hafa sýnt svo ekki verður um villst að þeir eru villimenn af verstu tegund. Og hana nú.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.3.2007 kl. 11:06
Frekar vildi ég berjast en að láta leiða mig til slátrunar sem húsdýr.
Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 11:52
Þú yrðir flottur hermaður...ef verja þyrfti land og þjóð!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 12.3.2007 kl. 18:05
Æði skemmtileg frásögn af bardögum fortíðar þinnar, gott að "lesa" að lítið komi til deyðingareðlis í þér. Ég finn hvorki hjá mér þörf né getu til að særa, meiða eða drepa einu einustu skepnu.
Anna Sigga, 13.3.2007 kl. 12:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.