Heiðraði Geir Hilmar Haarde, vinsamlega færðu rök fyrir máli þínu

Ég vil jafnframt þakka bankastjórninni og öllum starfsmönnum  bankans fyrir vel unnin störf undanfarna mánuði

Hvað er það sem bankastjórnin og allir starfsmenn bankans hafa gjört svo vel á undanförnum mánuðum?  

Það hefur einhvern veginn ekki skilað sér til landsmanna.


mbl.is Geir þakkar stjórum Seðlabanka vel unnin störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarráð nýrrar Framsóknar

Ekki ætla ég mér að gerast blaðafulltrúi Framsóknar.  En þar sem þessi félagsskapur er að gera sig breiðan á nýjan leik (lesist: kann ekki að skammast sín) þá ákvað ég að lesa mér til um nýjar áherslur þeirra.  Neðangreint er tekið beint af bls. 5 og 6 í ályktunum 30 flokksþings um stjórnarráðið.  En ályktanir flokksþings þeirra er að finna á heimasíðu Framsóknarflokksins.

 

Ályktun um Stjórnarráðið
Markmið
Framsóknarflokkurinn vill skýrari verkaskiptingu í Stjórnarráðinu. Verkaskipting ráðuneyta skal taka tillit til samfélags- og atvinnuhátta og áherslna ríkisstjórnar á hverjum tíma.  


Leiðir
• Að farið verði eftir tillögum nefndar Framsóknarflokksins um skipan Stjórnarráðsins sem lagðar voru fram til kynningar á 29. flokksþingi.
• Að leitast verði við að ráðuneyti í næstu ríkisstjórn sem Framsóknarflokkurinn á aðild að verði ekki fleiri en 10.
• Að flokksfélögum séu kynntar þær hugmyndir sem liggja að baki tillögum hópsins.

Fyrstu skref
Strax í næstu stjórnarmyndun Framsóknarflokksins verði lögð rík áhersla á nýtt fyrirkomulag og að hugsanlegum samstarfsflokki eða -flokkum verði kynnt tillagan. Breytingar á Stjórnarráði Íslands verði teknar fyrir á stjórnlagaþingi.

 

Hér er semsagt markmiðið skýrari verkaskipting án þess að gerð sé grein fyrir því hvað sé óskýrt en skal samt hringlað með fyrirkomulagið eftir því hvernig vindur blæs á hverjum tíma.  

Leiðir nýju Framsóknar eru þær að farið verði að tillögum gömlu Framsóknar frá 29. flokksþingi!!!  Ráðuneytin skulu vera 10 en að öðru leyti er okkur skítsama hvernig þeim er spyrt saman að því tilskildu að flokksmönnum séu kynntar hugmyndir einhvers hóps???

Fyrstu skref Framsóknar eru þau að kynna tillögur sínar (sem engin veit hverjar eru) fyrir hugsanlegum samstarfsflokki.  Breytingar á stjórnarráðinu skulu teknar fyrir á stjórnlagaþingi (af því að það er vinsæl hugmynd núna).

Vinsamlegst hlífið okkur við þessu bölvaða merkingarlausa froðusnakki.

 


Mælingamenn með þumla

Sú var tíðin að ég ætlaði mér að verða húsasmiður.  Eftir rúmt ár í námi og hálft ár við smíðar hjá fyrirtæki þá rann upp fyrir mér ljós.  Mér hafði verið úthlutað ríflegar af þumlum heldur en flestum öðrum og því ekki annað fyrir mig að gera heldur en að finna mér annað viðurværi, sem ég og gerði.  Engu að síður lærði ég eitt og annað af þeim miklu völundum sem reyndu sitt besta til að gera úr mér nothæfan smið.  Eitt af því sem situr fast í kolli mínum kom frá fullorðnum smið sem fylgdist einhverju sinni með mér saga borðvið í klæðningu af miklu kappi en lítilli forsjá.  Eftir ítrekaða handvömm mína kom sá gamli til mín og sagði: “Hér gildir að mæla tvisvar en saga einu sinni.”

 

Undanfarna daga hefur þessi ábending dúkkað upp í kolli mínum.  Ástæðan er sú hvernig komið er fyrir bankakerfi landsmanna svo skömmu eftir að hvert spekingateymið á fætur öðru hafði gefið bönkunum heilbrigðisvottorð.

 

Til upprifjunar minni ég á að matsfyrirtækin þrjú, Moody’s Investors Service, Fitch Ratings og Standard & Poor’s töldu í september að stóru viðskiptabankarnir þrír væru, þrátt fyrir versnandi stöðu, hreint ekki illa settir.  Á sömu nótum var niðurstaða Fjármálaeftirlitsins um miðjan ágúst eftir að hafa framkvæmt svokallað álagspróf.  Óþarft er að rifja það upp að viðskiptabankarnir eru allir þrír farnir á hausinn.

 

Hvert er hlutverk þessarra fyrirtækja og stofnana og hvernig rísa þau undir því hlutverki sínu?  Getur verið að við þurfum að leita eftir matsfyrirtækjum til að siga á matsfyrirtækin?


Gat nú verið

Tek heilshugar undir með Guðna Ágústssyni.  Hvurnig er það með þessa Samfylkingu?  Veit hún ekki hvurnig hækjur eiga að haga sér?  Hvað á það að þýða að vera að draga fram sína eigin stefnu.  Þetta gerðum við Framsóknarmenn aldrei í þau 12 ár sem við störfuðum með Sjálfstæðismönnum.  Enda var samstarfið afar farsælt.
mbl.is Samfylking hrærir í blóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leðjuslagur Demókrata

Forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum er eins og kunnugt er löngu lokið.  En svo virðist sem Hillary Clinton og hennar nánustu hafi ekki áttað sig á því.  Í dag þann 27. maí á eingöngu eftir að velja kjörmenn í þremur fylkjum (eða öllu heldur kjörsvæðum).  Samtals eru 86 fulltrúar þar til ráðstöfunar.  En af ofurkjörmönnunum eiga 200 kjörmenn eftir að gefa upp afstöðu sína.

Prófkjörin sem eru framundan eru í:

Puerto Rico        með 55 kjörmenn         þann 1. júní í opnu prófkjöri

Suður Dakóta    með 15 kjörmenn         þann 3. júní í lokuðu prófkjöri

Montana           með 16 kjörmenn         þann 3. júní í opnu prófkjöri

Formlega þarf frambjóðandi að fá 2.026 til að hljóta útnefningu flokksins.  Barak Obama vantar 51 fulltrúa til að ná tilsettri tölu en Hillary Clinton 246.  Úrslitin eru semsagt löngu ljós þó svo að ekki sé búið að flauta leikinn af.  Það kætir vitaskuld Rebúblikana að Obama og Clinton skuli enn um sinn gefa sér tíma til að klóra augun hvort úr öðru.

Fyrir áhugafólk um framvindu útnefningu Demókrata bendi ég á góða vefsíðu þar sem reglulega eru færðar inn upplýsingar eftir því sem fleiri ofurkjörmenn gera upp hug sinn.


Dylan í Laugardalnum

Mér er það fullljóst að margir voru hundfúlir yfir Dylan tónleikunum í kvöld.  En þeir (tónleikarnir) voru alls ekki alvondir.

Hljóðfæraleikurinn var óaðfinnanlegur og það var frábært að heyra gömul lög í útsetningum sem ég hafði aldrei heyrt áður.  T.d. má nefna Blowing in the Wind. Vitaskuld eiga þau skilaboð sem þar er komið til skila fullt erindi enn þann dag í dag.  En það hefði verið ótækt að flytja þau í gamla raunsæis-þjóðlagastílnum sem við þekkjum hvað best.

En það var líka eitt og annað sem hefði mátt fara betur.  Við hefðum þurft að hafa smá "blowing wind" í salnum, því það var óbærilega heitt.  Salurinn er vissulega frjálsíþróttasalur hefur reynst vel sem slíkur, en maður hefði átt að taka til gamla tauið frá því að maður var að æfa frjálsar.  A.m.k. hefðu stuttbuxur, hlýrabolur og svitaband um ennið komið sér vel.

Þess utan var Dylan allt öðru vísi en ég átti von á.  Framan af fannst mér ég heyra blús og stundum með e.k. Dixieland-ívafi (ég veit að það er ekki til, en slík var upplifunin).  Þá virkaði kappinn fremur kraftlítill.  Ekki veit ég hvort um er að kenna löngu flugi (mér var sagt að hann væri nýkominn frá Nýja-Sjálandi), slæmri hljóðblöndun eða hreinlega að sá gamli væri farinn að láta á sjá.

Þrátt fyrir ofantalda annmarka þá skemmti ég mér prýðilega og helst vildi ég setja Dylan á fóninn næstu tímana, en það er vinnudagur á morgun og allir í kotinu komnir undir sæng svo ég læt það ógert. 


Bölvaður auli er Össur!

Maðurinn kann augljóslega ekkert með tjáningarfrelsið að fara.  Getur hann ekki látið
sér nægja að svívirða Múslima eins og annað heiðvirt fólk?
mbl.is Pistill Össurar ræddur á þingflokksfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dúxinn í tossabekknum

Álit mitt á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur hefur vaxið að undanförnu.  En ég velti því fyrir mér hvort henni finnist útkoman úr þessari könnun vera hvetjandi til að standa í valdabaráttu.  Hvað þá að þiggja það úr hendi Vilhjálms að setjast í oddvitasætið.  Metnaðarfull manneskja hlýtur að vilja fá lýðræðislegra umboð heldur en hann getur boðið upp á.

Þess utan minnist ég þess ekki að hafa séð menn guma af því að dúxa í tossabekk.



mbl.is Flestir vilja Hönnu Birnu sem borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdið það er mitt!

Og ef þið trúið mér ekki þá skuluð þið spyrja Davíð.  Það gerði ég!

Auðvitað ráðfærði ég mig við lögmann um umboð mitt.  Ég fann auðvitað þann sem hafði mesta hagsmuni af því að REI málið rynni í gegn.  Ég var heppinn.  Hann er fyrrverandi borgarlögmaður. 

Síðan vil ég að það komi skýrt fram að ég játa og hef játað fyrr að ég gerði mistök.  Ég fór of geist.  En  þar með hljótið þið öll að skilja að ég myndi gera þetta allt aftur, en kannski örlítið hægar.

En örvæntið ekki ég fæ tækifæri til þess að endurtaka leikinn eftir 13 mánuði þegar ég tek við af Ólafi F. 


mbl.is Vilhjálmur: Hef axlað ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íþrótt í uppsveiflu

Líklega er kvennaknattspyrnan sú íþróttagrein sem er í hvað mestri uppsveiflu.  Það er raunar ekki gott að átta sig á því þegar eitt lið vinnur annað 10-0.  Markatala Valsstelpnanna eftir sumarið 88 skoruð en aðeins 7 mörk fengin á sig er heldur ekki vísbending um gæði íþróttarinnar í heild.  Ég vonaði í upphafi móts að Stjarnan og Keflavík yrðu aðgangsharðari við toppliðin sem ég hélt að yrðu Valur og Breiðablik.  En meðan svo mikill munur er á liðunum í deildinni þá eru fáir spennandi leikir, - því miður.  Það hefði verið meira spennandi ef Valur hefði verið með tvö lið í efstu deild.  Að vísu hefði hvorugt þeirra orðið Íslandsmeistari en ég þori að fullyrða að hvorugt hefði fallið.  Slík er breiddin í þeim hópi.

En hvað tel ég vitnisburð um uppsveiflu kvennaboltans?

  • Við sem sáum einn og einn leik með stelpunum fyrir 20-30 árum reynum ekki að bera saman boltann þá og nú.  Stelpurnar hafa reyndar alltaf haft nef fyrir spili (en strákarnir eru bara nýlega farnir að spila skemmtilega (þ.e. þeir eru hættir kraftakarlaboltanum)), en nú sér maður margar gríðarlega skotfastar stelpur, sprettharðar eru þær sem aldrei fyrr og með mikla skallatækni.
  • Það er ástæða til að benda á að kvennalandsliðið í fótbolta er margfalt betra en karlalandsliðið.  Ef áhorfendur myndu sýna stelpunum þó ekki væri nema helminginn af þeim stuðningi sem strákarnir fá, þá væru þær reglulegir gestir á úrslitakeppnum stórmóta.
  • Velgengni Vals og Breiðabliks í Evrópukeppninni á síðustu árum sínir ótvírætt að bestu liðin hér heima myndu spjara sig með ágætum í efstu deild í hvaða landi sem er.
Ég óska Valsstelpum til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn og óska þeim góðs gengis í Evrópukeppninni í næsta mánuði!
mbl.is Valur Íslandsmeistari kvenna 2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband