20.3.2007 | 17:41
Afmælingar?
Tæpri viku síðar varð sonur minn 9 ára. Hann kann betur en ég að halda upp á afmælið sitt. Tæplega 30 skólasystkin gæddu sér á pítsum og súkkulaðikökum en slógu að því búnu upp balli. Júróvisjondiskurinn var spilaður nánast í botni. Gestirnir sungu hástöfum og dönsuðu. Ég sá ekki betur en að hver einasti krakki kynni vinsælustu lögin utan bókar. Ein stúlka kom fram í eldhús og kvartaði undan eymslum í hálsi eftir sönginn og önnur kveinkaði sér í eyrunum eftir að einhver nærstaddur bekkjarbróðir tók undir með Eiríki Haukssyni í falsettu en var þá staddur nánast á eyrnasnepli bekkjarsystur sinnar.
Þriðja afmælisboðið var á laugardagskvöldið hjá félaga mínum Ágústi Ólafi Ágústsyni. Ágúst kann líka að halda upp á afmælið sitt. Hann fyllti samkomusalinn af fólki. Ágúst fékk flottustu gjöfina sem ég veit um í þessari hrinu afmæla. Hann fékk samþykkt á þingi baráttumál sitt um afnám fyrningarfrests á kynferðisbrotum gegn börnum. En Ágúst hefur allt kjörtímabilið reynt að koma þessu máli í gegn. Ágúst hefur notið í þessu máli öflugs stuðnings félagasamtaka og má nefna að samtökin Blátt áfram söfnuðu 23.000 undirskriftum málinu til stuðnings. Ég vil óska Ágústi sérstaklega með það sem stjórnarandstöðuþingmaður gerir mjög sjaldan, - að sjá árangur af starfi sínu!
Ég var vart komin út úr samkvæminu hjá Gústa en ég datt inn í næstu veislu, en þá var komið að mágkonu minni að halda upp á fertugsafmæli sitt. Hún var glaðbeitt og fyllti heimilið af vinum og ættingjum. Eftir því sem leið á kvöldið sá ég ekki betur en að brosið breyddist sífellt lengra yfir andlitið. Ég held að það hafi verið um 11-leytið ljóminn í andliti hennar náði því stigi að ég sá að hún er búin að láta taka endajaxlana, beggja megin og bæði í efri og neðri góm. Ef ég þekki hana rétt þá er hún nú þegar orðin full tilhlökkunar fyrir fimmtugsafmælið, enda ekki seinna vænna, þar sem tíminn líður óstjórnlega hratt á þessum aldri.
Hvurnig er annars með þetta orðskrípi "afmæli". Á það eitthvað skylt við mælingar? Ef svo er, þýðir orðið að það sé verið að telja niður, afmæla, þó svo að talan hækki með fjölgandi afmælum?
Athugasemdir
Er ekki verið að mæla af lífinu? Greinilega búið að vera mikið að gera í þessum bransa hjá þér og margra mánaða skammtur tekinn út á örfáum dögum. En er það ekki bara grín í þér að Eiki hafi farið í falsettu í laginu? :)
Jón Þór Bjarnason, 20.3.2007 kl. 18:23
Til hamingju
Ester Sveinbjarnardóttir, 20.3.2007 kl. 19:44
Mæla árin kannski? .... Afhverju heita vettlingar vettlingar?
Ester Júlía, 20.3.2007 kl. 19:45
Já, einmitt að mæla af. Til hamingju með afmæli þitt og sonarins.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 20.3.2007 kl. 19:49
Takk fyrir hlýjar kveðjur sem og að slá af mér meinlokuna.
Sigurður Ásbjörnsson, 20.3.2007 kl. 22:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.