8.4.2007 | 22:35
Hvað er háskóli?
Þegar ég var 9 eða 10 ára gamall nemandi í Austurbæjarskólanum þá var minn árgangur í sérstakri tilraun. Tilraunin fólst í því að byrja að kenna okkur ensku einu ári fyrr en hafði tíðkast. Enskukennarinn okkar var Vilborg Dagbjartsdóttir. Ég man all vel eftir fyrstu tímunum hjá Vilborgu. Á einum vegg í kennslustofunni hékk stórt heimskort. Vilborg benti á öll þau lönd þar sem enska var töluð. Við, nemendurnir, vorum umsvifalaust sannfærðir um að enskukunnátta væri hið þarfasta mál þar sem við yrðum að geta gert okkur skiljanleg sem víðast. Síðan hófst kennslan. Í fyrstu fengum við að heyra hvað hinir hversdagslegu hlutir í kring um okkur hétu á þessu merkilega tungumáli. Vilborg lyfti blýanti og sagði "pensil", penna og sagði "pen" en benti síðan á dyrnar og sagði "dor", gluggann og sagði "vindóv", á borðið og sagði "teibol". Þetta síaðist all fljótt inn í okkur og ég man að í þessum fyrsta enskutíma voru flestir farnir að höndla blýantinn eins og málningarpensil.
Eftir því sem enskunáminu vatt áfram þá jókst orðaforðinn smám saman. Ég minnist þess að hafa á einhverjum fyrstu árum enskunámsins hnotið um eitt orð. Það var orðið "highschool". Þar sem ég taldi mig vera kominn með nokkurn orðaforða þá leyfði ég mér að andmæla kennaranum sem fullyrti að "highschool" þýddi gagnfræðaskóli. "En kennari, þýðir ekki fyrri hluti orðsins, þ.e. "high" hátt, há eða hár? Kennarinn játti því en sagði að þó svo að ég gæti þýtt orðhlutana beint þá væri engu að síður "highschool" það sem við köllum gagnfræðaskóla á íslensku. Þetta fannst mér stórfurðulegt. Ég held hreinlega að ég hafi litið á þetta sem hið argasta svindl. Hvernig segir maður þá háskóli á ensku? Kennarinn svaraði: það er júnivörsití. Ó mæ god, - hvernig getur nokkur maður lært svo langt og leiðinlegt orð sem er þess utan skrifað allt öðru vísi heldur en það er borið fram?
Á síðustu árum hefur mér fundist eins og manntamálayfirvöld í landinu séu með ámóta þekkingu á því hvað háskóli er eins og ég var þegar ég stóð uppi í hárinu á enskukennaranum mínum í barnaskóla.
Það munu vera starfandi 8 háskólar í landinu. Þeir eru: Háskóli Íslands, Kennaraháskólinn, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskóli Íslands, Landbúnaðarháskólinn, Háskólinn á Hólum og Háskólinn á Bifröst. En hvað í veröldinni er háskóli og hvernig urðu þessir skólar að háskólum? Sá elsti, Háskóli Íslands, var í fyrstu embættismannaskóli og það fyrsta sem talin var ástæða til að kenna í íslenskum háskóla var guðfræði, lögfræði og læknisfræði. Með tímanum fjölgaði námsbrautunum og smám saman varð sú þróun innan flestra greina Háskóla Íslands að hann varð að allgóðum skóla fyrir verðandi vísindamenn.
Ekki ætla ég mér að rekja sögu háskólanna, enda auðfundnir betri menn til þess heldur en sá sem hér skrifar. Hins vegar hefur mér ekki staðið á sama um það hvernig sumir hinna yngri háskóla hafa orðið til. Landbúnaðarráðuneytið hefur með einföldu pennastriki stofnað tvo háskóla úr þeim skólum og nokkrum stofnunum sem undir ráðuneytið heyra. Er það þannig sem háskólar verða til? Og á það að vera þannig? Verða allar skólastofnanir sem útskrifa fólk með sérþekkingu á tilteknu starfsviði að heita háskólar? Þekkjum við ekki muninn á rannsóknarháskólum og samfélagsskólum sem skila fólki með praktíska menntun út í samfélagið?
Því miður þá óttast ég að svarið við þessum spurningum sé ekki mjög jákvætt. Hitt veit ég eftir að hafa fylgst með störfum nokkurra starfsmanna við þessa háskóla að þar fer metnaðarfullt fólk með háleitar hugmyndir. Mér finnst það hins vegar afleitt að þurfa að reiða sig á nokkra metnaðarfulla einstaklinga til að halda uppi skólakerfi, en það er eina vonin þegar stjórnarherrarnir hafa hvorki heildarsýn né þekkingu á því sem best er gert í skólakerfinu í löndunum í kring um okkur.
Athugasemdir
Þekki svolítið til Landbúnaðarháskólans, eða er það ekki fyrrverandi Garðyrkjuskóli ríkisins. Ég gekk í þann skóla, og verð að segja að kröfurnar þar voru ansi lágar að mínu mati. Og svo var minn ekta maki í Landbúnaðarháskólanum, byrjaði í garðyrkjuskólanum og var svo allt í einu komin í háskóla. Og ég verð að segja það, kröfurnar hafa ekki aukist. Alla vega finnst mér þetta ekki vera þær kröfur sem ég vil gera til fólks á háskólabraut. Og ég ætla ekki að tjá mig um þekkingu sumra sem hafa lokið prófi frá þessum skóla. Mér þykir nefnilega vænt um fólk. Og ég er ekki að tala um manninn minn í því sambandi.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.4.2007 kl. 22:52
Ég er hinsvegar beinn þátttakandi í uppbyggingu Háskólans á Hólum sem er eftir atvikum elsti eða yngsti háskóli landsins eftir því hvort miðað er við 1106 eða 2007. Það er rétt sem þú bendir á Sigurður að í íslenskum háskólalögum er ekki gerður greinarmunur á því sem t.d. á ensku væri university, polytechnic eða university college. Það er heldur enginn greinarmunur gerður á því hvort viðkomandi stofnun er rannsóknastofnun jafnframt því að vera kennslustofnun. Þegar frumvarp til háskólalaga lá fyrir og umsagnar skólastjórnar Myndlista- og handíðaskólans sáluga var óskað, man ég eftir að við gagnrýndum þetta atriði einmitt. Háskólinn á Hólum er nefnilega númer tvö af íslenskum háskólum sem ég tek þátt í að færa af einhverju óskilgreindu svæði yfir í ramma gildandi laga um háskóla, hinn var MHÍ sem varð að deild í Listaháskóla Íslands.
Þetta er ákveðinn galli á lögunum, en það segir hinsvegar lítið um hvernig staðan er á hinum ýmsu stofnunum sem samkvæmt þeim geta kallað sig háskóla uppá íslensku. Mynd- og hand átti kröfu til þessarar skilgreiningar fyrst og fremst vegna þess að hann stóð sambærilegum skólum erlendis jafnfætis í kennslu á sínu sviði og var reyndar gegnum nemendaskiptaáætlanir Evrópusambandsins önnum kafinn við að mennta erlenda stúdenta til BFA gráðu meðan hann sjálfur mátti ekki veita slíka.
Háskólinn á Hólum kallar sig reyndar Hólar University College uppá ensku þar sem þar eru einungis þrjár deildir og því langt í land að vera sú alfræðistofnun sem university stendur fyrir. Hins vegar hefur metnaður okkar lengi staðið til að vera í fremstu röð á þeim sviðum sem við stundum rannsóknir og kennslu á, því leggjum við mikla áherslu á að standast jafningjamat innan háskólasamfélagsins og á gæði kennslunnar.
Áhyggjur af fjölda stofnana eru að mínu mati ekki það sem ætti að vega þyngst í umræðunni um íslenska háskóla heldur hitt hvernig þeim gengur að uppfylla kröfur um gæði kennslu og rannsókna annarsvegar og hinsvegar hvernig þeim gengur að verða hluti af því menntasamfélagi sem íslenskir háskólanemar eiga að hafa greiðan aðgang að hvar sem þeir eru í sveit settir. Til þess að byggja þetta menntasamfélag þarf háskólafólk að leggja nokkuð á sig í samstarfi, hugsa íslenska háskóla meira eins og klasa fyrirtækja sem vissulega á í samkeppni en mun aldrei standa sig í henni nema með samstarfi.
Fjöldi háskóla er engin ógnun við þekkingarsamfélagið, hitt er alvarlegri ógnun að um 40% íslendinga á vinnumarkaði hefur aðeins lokið grunnskólaprófi. Því meira og aðgengilegra námsframboð á framhalds- og háskólastigum því betra.
Guðrún Helgadóttir, 9.4.2007 kl. 12:42
Mig undrar, að Landbúnaðarskólinn á Hvanneyri skuli ekki vera háskóli, því að þar hafa starfað margir góðir og metnaðarfullir fræðimenn.Stóra spurningin er, hvað kröfur eru settar til að skóli geti kallast háskóli og standi undir þeirri nafnbót á alþjóðamælikvarða.Það er engum gerður greiði, hvorki nemendum né stjórnendum (kennurum) með því að leyfa aðiljum að skreyta sig með "stolnum" fjöðrum. Við ættum að reyna að kynna okkur reglur annarra þjóða í þessum efnum, áður en við sitjum uppi með of marga annars flokks háskóla.
Með góðri kveðju frá Siglufirði, KPG.
Kristján P. Gudmundsson, 9.4.2007 kl. 12:56
Landbúnaðarháskóli Íslands varð til við sameiningu Garðyrkjuskólans, Rannsóknarstofnun Landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri - þannig að skólinn á Hvanneyri er orðinn háskóli
Það hefur mikil gerjun orðið hvað varðar háskólamenntun á Íslandi síðustu ár. Það er gott - en að sama skapi er ég algjörlega sammála Sigurði að það þurfi að gæta sín í öllum þessum hamagangi að gengisfella ekki háskólamenntunina. Sú reynsla sem ég hef haft af háskólakennslu, sem er við tvo af þessum 8 háskólum, en þó aðallega við HÍ, segir mér að ýmislegt mætti bæta í innra eftirliti til að tryggja gæði skólastarfsins.
Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 18:13
Ég var í Mynd og hand og man vel eftir því þegar byrjað var að tala um að skólinn ætti að verða háskóli. Síðar fór ég í islensku í Háskóla Íslands en hætti þegar mér bauðst kennarastaða í myndlist og fl. við ákveðinn framhaldskóla. En ég með mína menntun úr Mynd og hand var skilgreind sem væri ég þegar háskólamenntuð þegar ég innritaði mig í HÍ þar sem ég hefði verið í MHÍ.
Nú er barnabarn mitt sex ára steluskott að byrja í Landakotsskóla. næsta haust. Hún mun læra ensku og frönsku þar í fyrsta bekk eftir því sem mamma hennar segir mér. Það er aldeilis munur.
Svava frá Strandbergi , 10.4.2007 kl. 00:29
Ég var í Heimspeki við Háskóla Íslands og síðar lauk ég BS námi í Danmörku...kröfurnar í HÍ voru svo sannarlega ekki síðri!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 10.4.2007 kl. 18:56
Ég hef einmitt velt þessu pínu fyrir mér, þar sem ég útskrifaðist úr tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík, sem hefur oft legið undir mjög ósanngjarnri gagnrýni frá Háskóla Íslands. HÍ gat ekki skilið að það væri hægt að kenna tölvunarfræði með öðruvísi áherslum en HÍ var með á þeim tíma, og þótti því HR ekki merkilegur pappír. Það er því undarlegt að horfa á stöðuna í dag, þar sem langtum stærsti hluti rannsókna í tölvunarfræði fara fram við HR, stjórnendur eru að flytja sig frá NASA til að taka við tölvunafræði deildinni þar, og stór hluti þeirra sem eru með doktorsgráðu í faginu eru starfsmenn skólans -- og næstum allir að vinna við rannsóknir.
Í masternum mínum var ég í University og Alberta í Kanada, og í DTU í Danmörku sem eru báðir mjög góðir og virtir skólar. Ég fullyrði að HR hafi ekki verið mikið síðri en þeir skólar, og það er alveg ljóst að það er verið að leggja mikinn metnað við að gera enn betur, og með þessu starfsfólki sem er þar þá er ég viss um að þetta verður tölvunarfræðideild á heimsmælikvarða.
Þess vegna er ég orðinn mjög skeptískur á það þegar talað er um að ríkið verði að setja meiri kröfur og að hitt og þetta nám sé mögulega ekki háskólanám; skólarnir og stjórnendur þeirra sem hljóta að vita best hvernig á að reka skólana sína, og það er þá frekar markaðarins að ráða hvort þessi skólastofnun getur staðið undir nafni eða ekki.
Jónas Tryggvi Jóhannsson, 10.4.2007 kl. 21:38
Spurningin er - þarf öll menntun að vera á háskólastigi ? Í löndunum í kringum okkur er ákveðin menntun ekki á háskólastigi s.s. geislafræðinganám (áður röntgentæknir þegar ekki á háskólastigi) og lífeindafræðinganám (meinatæknir þegar námið var ekki á háskólastigi). Við lengjum ákveðið nám til að háskólavæða það en er það nauðsynlega skref til framfara ? Er menntun einskis virði nema hún sé á háskólastigi ? Við þurfum að spyrja okkur þeirrar spurningar áður en lengra er haldið. Dýrkun okkar á háskólanámi hefur rýrt gildismat okkar á verkmenntun. Verðum við að búa til Verkmenntaháskóla Íslands og útskrifa smíðafræðinga og rörafræðinga til að fólk fari í slíkt nám ?
Svava S. Steinars, 12.4.2007 kl. 01:12
Þetta er þarft spjall hjá þér. Mig langar í þessu sambandi til að segja frá atviki, sem átti sér stað fyrir margt löngu, á öldurhúsi í Reykjavík. Þéttsetinn bekkurinn. Meðal þeirra, sem þarna vættu kverkarnar voru nokkrir menntamenn, aðalega lögfræðingar og sagnfræðingar. Eitthvað voru sumir þeirra að ræða sín fræði, eins og gengur og gerist. Kunningi minn einn, sem þarna var staddur, þekkti flesta af þessum ágætu mönnum, þótt ekki hefði hann setið með þeim á skólabekk, enda var hann verkamaður. Þetta var gamansamur náungi og ölær vel. Þar kom, að honum þóttu staupfélagar sínir gera heldur mikið úr sinni menntun. Tilkynnti hann þá hátt og snjallt, að sjálfur væri hann engu minni menntamaður en þeir, hann væri nefnilega stúd alk. Var góður rómur gerður að orðum hans.
Árum saman hafði þessi ágæti maður unnið í plastverksmiðju og vissi ekki betur, en hann væri iðnverkamaður. En eitt sinn, þegar hann las launaseðilinn sinn, skömmu eftir gerð kjarasamninga, tók hann eftir því, að hann var ekki lengur skráður sem verkamaður, heldur plasttæknir. Þessi svo kallaða „nafnbót" hækkaði launin hans, samkvæmt nýju samningunum. Er það ekki einmitt þetta, sem hluti þess, sem nú er farið að kalla háskólanám gengur út á?
Þessi þróun er ekki sér íslenst fyrirbæri. Þannig eru Englendingar farnir að skipta háskólagengnu fólki í tvo flokka, þ.e.a.s. trained people og educated people, sem útleggst; þjálfað fólk og menntað. Þeir gera sem sagt greinarmun á sérhæfðri starfsþjálfun og akademískri menntun. Það gerum við ekki hér á Fróni. Því miður.
Pjetur Hafstein Lárusson, 12.4.2007 kl. 11:33
Góð grein Sigurður og gagnleg og góð umræða...
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 12.4.2007 kl. 13:58
Góð umræða. Þörf er fyrir öflugra verknám á Íslandi og vel skilgreinda skóla og námsbrautir. Endalaust snobb okkar og dýrkun á svokallaðri "æðri" menntun er afdalamennska. Háskóli Íslands er gífurlega metnaðarfullur háskóli og það er mál manna og reynsla, að nemendur með BA og BS próf þaðan, séu sérdeilis vel undirbúnir fyrir MA og MS próf erlendis, t.d. í USA. Sjálf hef ég reynslu af því.
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 12.4.2007 kl. 23:15
Í sambandi við athugasemd Pjeturs Hafsteins Lárussonar rifjaðist upp fyrir mér svipuð saga og hann segir frá. Eldri bræður mínir tveir fóru eitt sinn saman á Hótel Borg . Sá eldri var á þeim tíma að læra læknisfræði við Háskóla Íslands, en hinn yngri var sjómaður og mikill æringi.
Settust þeir bræður við borð hjá vini eldri bróðurins og var sá maður einnig læknanemi við Hí. Sá maður stóð upp þegar yngri bróðir minn ætlaði að setjast við borðið, rétti honum hendina og sagðist heita Jón Jónsson stud med. Það stóð ekki á svarinu hjá bróður mínum. Hann heilsaði manninum með virktum og sagði að bragði. Já, komdu sæll, Yngvi Þór Guðjónsson heimsmet.
Svava frá Strandbergi , 13.4.2007 kl. 21:30
svo satt...svo satt
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 14.4.2007 kl. 23:46
Skemmilegur pistill hjá þér. Ég er hins vegar svo léttúðug að það eina sem ég man úr enskutímum í gamla daga var þegar við lásum texta um Jim sem var bachelor. Pétur Ormslev var í kjölfarið spurður að því hvort hann væri married. Pétur svaraði: No I am a barbeque. Þetta fannst mér hryllilega fyndið en þar sem ég var ekki í náðinni hjá kennaranum Arngrími Jónssyni var ég send til skólastjóra. Pétur gat alveg fyrirgefið mér flissið.
Steingerður Steinarsdóttir, 15.4.2007 kl. 01:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.