Forhertar fitubollur

Í gærkvöld og í dag hafa fjölmiðlarnir lagt til verulegt magn af dálksentimetrum og mínútum í að færa okkur tíðindi af óæskilegu mataræði þjóðarinnar.  Nefnilega þau að við innbyrðum umtalsvert meira en æskilegt er af hertri fitu.  Sjálfum hefur mér fundist að líkamlegt ástand fólks, einkum ungs fólks, hafi breyst til hins verra á undanförnum árum.  Ekki svo að skilja að ég stundi mælingar á ummáli eða vigtun á þeim sem á vegi mínum verða.  Heldur er þetta fyrst og fremst ályktun eftir meingölluðu minni mínu.  Ég er sem sagt á því að Íslendingar séu að fitna og sú þróun hafi staðið í nokkuð mörg ár.  Ekki skal ég fjölyrða um hvort fitan sem fyrir augu ber sé hert eða jafnvel forhert, en hún er þarna.

 

Þrátt fyrir einlægan áhuga minn á efnafræði þá hef ég að mestu leitt næringarefnafræðina hjá mér.  Ég er nefnilega á því að gömlu prinsippin sem mér voru kennd í bernsku séu enn í fullu gildi.  Meðal þeirra er slagorðið allt er best í hófi.  Einnig var á sama skeiði ævinnar fjallað nokkuð um það að hreyfing væri nauðsynleg ekki síst fyrir þá sem ekki stunduðu líkamlega vinnu, þeir yrðu einfaldlega að nota nokkuð af frítíma sínum til að hreyfa sig reglulega.

 

Það er athyglisvert hversu töfralausnir eiga greiða leið að fólki.  Vel meinandi fólk lætur því miður oft ginnast af gylliboðum sem eiga að vera allra meina bót.  Tvö nýjustu dæmin eru annars vegar fótabað sem skiptir lit og hins vegar háþrýstiþvottur á neðsta hluta meltingarvegarins.  Það er von mín að fagfólk í heilbrigðis- og næringarfræðum láti meira til sín taka í umræðum um mataræði og heilsufar en skilji ekki ritvöllinn eftir ónotaðan og andmælalausan fyrir braskara og skottulækna.

 

Þá vil ég að síðustu vekja athygli á baráttu bloggvinar míns Morten Lange sem þreytist ekki á því að hvetja fólk til að flétta hreyfinguna inn í hversdagslegt líf með því að hjóla til og frá vinnu.  Sjálfum þykir mér það grátlegt að sitja á einu málþingi um svifryksmengun, öðru um losun gróðurhúsalofttegunda, því þriðja um kostnað við umferðarmannvirki, því fjórða um skuldir heimilanna og býð eftir næstu ráðstefnu um herta fitu þegar við, a.m.k. í þéttbýlinu, myndum takast á við þetta úrlausnarefni með því að láta bílinn eiga sig en þess í stað ganga, skokka eða hjóla.  

 

Heilbrigð sál í hraustum líkama!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: SigrúnSveitó

halelúja!! Ánægð með þig!!

SigrúnSveitó, 14.2.2007 kl. 20:56

2 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Góður pistill!

Hlynur Þór Magnússon, 14.2.2007 kl. 20:58

3 Smámynd: Ingibjörg Stefánsdóttir

Svo sammála. Svo er bara að draga hjólið út úr skúr og byrja að hjóla. Merkilegt hvað það getur verið erfitt stundum.

Ingibjörg Stefánsdóttir, 14.2.2007 kl. 21:05

4 Smámynd: Fishandchips

Mér fannst ansi fyndið , þegar ég bjó í Keflavík og þurfti að keyra í bæinn alla daga til vinnu, að keyra framhjá líkamsræktarstöð í Hafnarfirði. Þar voru allir að púla á hjólinu  Kl.07,30 " fyrir opnum glugga". Væri ekki miklu heilsusamlegra fyrir þetta fólk að fá sér bara hjól???

En hvað varðar feit ungmenni... Er þetta ekki bara okkur að kenna " foreldrunum".

Við erum öll í fullri vinnu, til að framfleyta okkur. Við þurfum nú auðvitað flottustu húsin, innbúið og bílinn. Og þegar komið er heim, síðla dags, er bara keyptur skyndibiti, allir of þreyttir til að elda. Svo kemur helgin... Þá þarf að sinna öllu. Heimilinu, makanum og börnunum. Það endar oft á því að bara er pöntuð pizza.

Við íslendingar erum þvílíkt veruleikafyrtir. Og ég ekki undanskilin

Fishandchips, 14.2.2007 kl. 21:45

5 Smámynd: Sædís Ósk Harðardóttir

Þetta eru orð að sönnu og tel ég mikilvægt að fólk fari að huga að hollustu og umhverfisvænni hugsun og fyrsta skrefið í því er t.d að byrja að hjóla 

Sædís Ósk Harðardóttir, 14.2.2007 kl. 21:45

6 Smámynd: Kolla

Í dag er svo auðvelt að bara keyra í næstu lúgu og kaupa mat, þá er hægt að sleppa við að fara út í vondaveðrið. Ég held að þetta hafi mikið með verð á matvörum að gera, allavegana hérna í Noregi, grænmeti og hollustufæði er altof dýrt, þetta á auðvitað að vera öfugt.

Kolla, 14.2.2007 kl. 22:39

7 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Hinir hafa sagt svo margt t,d goður pistill það finnst mér líka. Svo ég segi bara innlitskvitt. 

Jórunn Sigurbergsdóttir , 14.2.2007 kl. 23:13

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég djöflast allt sumarið á fullu í mold og gróðri, en er værukærari á veturna, enda bætast alltaf á mig nokkur kíló yfir svartasta skammdegið, sem fer svo af þegar fer að vora. 

Nema árið sem ég var í spinning hjá henni Nínu Óskars, og var viktuð í hvert sinn sem ég kom.  Djö..... maður grenntist  og spenntist og varð eins og unglamb.  Svo flutti hún til Svíþjóðar

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.2.2007 kl. 23:19

9 Smámynd: Solla Guðjóns

Solla Guðjóns, 15.2.2007 kl. 02:45

10 identicon

öll þessi umræða um offitu og skyndilausnir eru líka hvetjandi á öfga í hina áttina. Engin sjúkdómur er með jafn háa dánartíðni og anorexía og búlemía... við þurfum að athuga vel hvað áhyggjum við erum að koma yfir á börnin með svona umræðum. þetta er spurning upp á líf og dauða án þess að ég vilji vera mikið dramatísk

Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 05:16

11 Smámynd: Þorgerður Laufey Diðriksdóttir

Ég er búin að hjóla allar mínar ferðir síðan í ágúst.

Ég er samt ekki ánægð með hvað aðstaða til hljólreiða er bágborin hér á landi.

Mér finnst að borgaryfrivöld ættu að leggja sig fram um að bæta aðstöðu fyrir hljólreiðar ekki bara í orði heldur á borði.

Mér finnst líka að við sem hjólum ættu að vera meira á götunni frekar en gangstéttum.

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 15.2.2007 kl. 08:51

12 Smámynd: Laugheiður Gunnarsdóttir

alltaf góður

Laugheiður Gunnarsdóttir, 15.2.2007 kl. 11:34

13 Smámynd: www.zordis.com

Það var bara ekkert annað!  Já, ná mjónunni út í umhverfið með náttúrulegum hætti!  Fín umfjöllun hjá þér .......................

www.zordis.com, 15.2.2007 kl. 13:59

14 Smámynd: Svava S. Steinars

Það mættu fleiri nota hjólið - en það vantar sárlega betri aðstöðu fyrir hjólreiðamenn hér.  Það vantar fleiri hjólreiðastíga og hjólastanda.  Þegar ég bjó í Kaupmannahöfn kynntist ég ekta hjólreiðamenningu.  Ef við eigum að ná þó ekki væri nema hælunum á dönum verðum við að fara að gera ráð fyrir hjólinu í skipulagi.

Svava S. Steinars, 15.2.2007 kl. 19:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband