21.2.2007 | 19:39
Doktorspróf í húsasmíði?
Ég hef alla tíð dáðst af fallegu handverki og fagmennsku góðra iðnaðarmanna. Ég hef mjög gaman af því að ráðfæra mig við þá um mögulegar lausnir á því sem aflaga fer og þarfnast endurbóta. Á seinni árum hef ég átt í verulegu basli með að fá góða iðnaðarmenn til að taka að sér nauðsynlegar endurbætur á húsnæði fjölskyldunnar. Þegar loks hafa komið menn frá iðnfyrirækjum þá hefur komið í ljós að fæstir þeirra eru lærðir iðnaðarmenn og þegar ég hef reynt að ræða við þá á faglegum forsendum um hluti eins og efnisval þá er augljóst að þeir hafa afar takmarkaða kunnáttu. Ég veit að ég er ekki einn um þessa reynslu og má benda á fjölda grátlegra dæma um það fólk hefur lagt aleiguna undir og talið sig vera að kaupa nýtt og vandað húsnæði sem síðan reynist meingallað. Að því er virðist vegna þess að fúsk, fákunnátta og gróðafíkn hefur ráðið ferðinni en ekki snefill af fagmennsku.
Sú var tíðin að ég var sannfærður um að húsasmíði væri rétti vettvangurinn fyrir mig. Ég fór því í Iðnskólann og eftir 1 vetur fór ég að vinna hjá smíðafyrirtæki þar sem störfuðu færir menn. Stundum þegar ég fylgdist með handbragði þeirra þá fannst mér ég vera að sjá lista- eða jafnvel töframenn að störfum. Ég þurfti ekki langan tíma í þessum ágæta félagsskap til að átta mig á því að ég kæmi aldrei til að rísa undir eigin kröfum í smíðinni. Ég hafði enga hæfileika í þessum hópi og mér varð ljóst að mér hafði verið úthlutað ríflega af þumalfingrum. Ég tók mér því annað fyrir hendur.
Smíðaárin mín komu upp í hugann í gær þegar upplýst var að það væri til skoðunar að sameina Iðnskólann í Reykjavík og Fjöltækniskólann. Ekki man ég við hvern var talað í fréttatímanum en sá var greinilega upptendraður af þessari hugmynd og fór að tala um að hægt yrði að bjóða upp á nám í tækni- og verkgreinum á háskólastigi. Mér krossbrá. Ég hef um nokkra hríð haft verulegar áhyggjur af stöðu iðnnáms í landinu. Ekki vegna þess að ég telji að það skorti iðnaðarmenn með háskólagráður, heldur vegna þess að ég tel að það vanti fleiri námsbrautir og frekari stigskiptingu námsins.
Til að gera frekari grein fyrir skoðun minni kem ég með eftirfarandi tillögur sem ég vona að einhver í skólakerfinu taki til íhugunar. Ég legg til iðnnám í nokkrum þrepum t.d. með eftirfarandi hætti:
Fyrsta stig iðnnáms verði byggt þannig upp að þar verði nánast eingöngu byggt á verklegum og fagbóklegum greinum. Engin danska, enska, þýska, bókmenntir, bókfærsla og eina stærðfræðin verður rúmfræði. Sú skólaganga gæti tekið 18 mánuði en eftir það þyrftu menn að starfa hjá löggiltum fagmanni í 18 mánuði og gætu að því búnu tekið sveinspróf í sinni iðn. Það má segja að þetta sé mín útfærsla á því sem Karl V Matthíasson sagði á bloggsíðu sinni fyrir skömmu. En Karl taldi að ..við ættum að auka möguleika þeirra sem eru ekki mikilir bókamenn til aukinnar menntuanr í alls konar starfsgreinum þó þeir ljúki ekki sveinsprófi eða háskólagráðu.
Annað stig iðnnáms vil ég kalla meistaranám en það felur ekki í sér það sem heitir meistararéttindi í dag með námi í verkþáttagreiningu, bókfærslu, áætlanagerð o.þ.h. Heldur fagnám sem felur í sér frekari þekkingu í verklagi, efnisfræði eða öðru slíku. Á þessu stigi fengju nemar meiri kennslu í t.d. efnafræði, næringarfræði osfrv. eftir því sem tengist viðkomandi iðngrein. Æskilegt er að námið tæki um 2 ár og væri jafnvel unnið í tengslum við fyriræki á markaði, t.d. sem vöruþróun af einhverju tagi.
Þriðja stigið líkist núverandi meistaranámi. Þar væri kennd bókfærsla, verkþáttagreining, áætlanagerð, löggjöf og reglur í viðkomandi fagi, auk leiðbeinendanámskeið. Með því að ljúka þessu námi fengist prófgráða sem gerði mönnum kleyft að taka að sér iðnnema og bjóða í opinber verk.
Fyrir þá metnaðarfyllstu yrði eftir sem áður unnt að halda áfram og taka próf í tæknifræði og jafnvel verkfræðigreinum.
Tillögur menntamálaráðherra sem voru til umræðu fyrir nokkru um að nemendum í bóknámi gefist kostur á því að taka námskeið í iðngreinum undir því yfirskini að þar með aukist virðing bóknámsfólks fyrir iðnnámi eru hrein firra. Með slíku ávinnst nákvæmlega ekki neitt.
Athugasemdir
Góð grein og orð i tima töluð,það er ekki sama læggni og bóknám /og það verður að gefa þarna eitthvað eftir þegar þetta fer ekki saman/Halli Gamli
Haraldur Haraldsson, 21.2.2007 kl. 20:16
Þakka þetta.Hef náttúrulega ekki mikið vit á þessu en þetta var áhugavert.
Jórunn Sigurbergsdóttir , 21.2.2007 kl. 21:58
Algjörlega sammála þér.
Svava frá Strandbergi , 21.2.2007 kl. 23:11
Heyr. Þetta er mitt hjartans mál.
Ég gleðst yfir öllum þeim sem virðast gera sér grein fyrir mikilvægi iðnmenntunar. Mér finnst því miður allt of algengt að talað sé um iðnnám sem valkost þeirra sem "ekki eigi erindi í bóknám" eins og það sé plan B. Svona ef þú getur ekki lært neitt annað. Það ergir mig og hefur gert það lengi. Það þarf virkilega að hefja iðnmenntunina til virðingar og það gerist ekki ef fólk talar áfram um hana sem annars flokks nám! Krakkar þora varla að viðurkenna að þá langi að læra smíðar, bifvélavirkjun eða rafvirkjun. Það er kannski auðveldast með rafvirkjunina þar sem hana má tengja "hugbúnaði" sem þykir fínt orð. Og enn eru foreldrar sumir hálfmiður sín að segja frá því að afkvæmið hafi farið í iðnnám þar sem "það var það eina sem hann/hún gat lært" !
Guðrún Ásbjörnsdóttir
Guðrún Ásbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 23:49
Góður pistill.
Mjög svo sammála.
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 22.2.2007 kl. 00:48
ég er bara sammála þessu hjá þér snigugt hvernig þú setur þetta upp
Kleópatra Mjöll Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 01:15
Góð hugmynd, vonandi verður henni komið á framfæri.
Ester Sveinbjarnardóttir, 22.2.2007 kl. 07:50
Þetta virðist vera eitthvað sem er að koma upp á yfirborðið núna. Er ekki eitthvað lögbundið eftirlit með nýbyggingum ? Bara spyr. En þetta er svona á fleiri sviðum, hér starfa nokkrir portugalir sem eru múrarar, málið er bara að þeir kunna lítið fyrir sér í múrhúðun eftir íslenskum stöðlum. Það hafa skapast mörg vandamál vegna þessa, tími og kostnaður að laga og betrumbæta það sem þeir gera. Þessum vanda þarf að taka á. Hús eru eitthvað sem eiga að standa..... lengi.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.2.2007 kl. 10:52
Góð grein!
Anna Sigga, 22.2.2007 kl. 11:35
Þetta væri snilld ef hægt væri að koma svona kerfi á. Þetta hefur oft verið rætt en ofurást menntamálayfirvalda á bóknáminu kemur alltaf í veg fyrir árangur !
Svava S. Steinars, 25.2.2007 kl. 19:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.