Færsluflokkur: Bloggar

Láttu mig svo hafa frið á jörð fyrir afganginn!

Samkvæmt teljaranum á bloggsíðu Andrésar Magnússonar eru 74 dagar til kosninga.  Ég hafði svo sem rökstuddan grun um að það væri farið að styttast enda fjölmargar vísbendingar á lofti um þau tímamót. 

Landbúnaðarráðherra er búinn að lofa 330 milljónum í reiðhallir og gera samning við sauðfjárbændur um 3,3 milljarða á ári til næstu 6 ára.  Samgönguráðherra hefur lagt fram áætlun sína um 380 milljarða til mannvirkjagerðar næstu árin.  Umhverfisráðherran hefur boðað 50-75% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda (hún hafði að vísu vit á því að miða við árið 2050 svo að nær öruggt má telja að hún verði komin undir græna torfu svo ekkert verði hermt upp á hana).  Þá má ekki gleyma því að menntamálaráðherra smalaði kennurum Háskóla Íslands í hátíðarsal skólans þar sem þeir fylgdust klökkir af gleði þar sem boðuð var 3 milljarða fjárveiting til að efla kennslu og rannsóknarstarf í þeirri stofnun.  Í stuttu máli gæti stefna valdhafanna á síðustu vikum fyrir kosningar heitið, gull og grænir á línuna.

 

Mér segir svo hugur að áður en langur tími líður eigi tárin eftir að skila sér á nýjan leik niður kinnar starfsmanna Háskóla Íslands.  Í það skiptið verður tilefnið ekki gleði.  Ef þið trúið mér ekki þá skuluð þið prófa t.a.m. að spyrja öryrkja og aldraða.


Að deponera skattinn

Þegar foreldrar mínir skiptu um húsnæði fyrir nokkrum árum þá var í kaupsamningnum ákvæði þess efnis að seljandi skyldi kosta tilteknar lagfæringar sem nauðsynlegar voru á húsinu.  En seljandinn virtist ekki ætla að standa við sinn hluta samningsins sem varðaði nauðsynlegar lagfæringar.  Foreldrar mínir áttu eftir að greiða síðustu afborgun af íbúðinni og til að fá seljandann til að standa við sínar skuldbindingar þá deponeruðu þau síðustu greiðsluna.  En deponering er kallað geymslugreiðsla á íslensku.  Aðgerðin felst í því að skuldarinn (í þessu tilfelli foreldrar mínir) standa við sínar skuldbindingar en fjármálastofnun hefur þá tekið við greiðslunni en kröfuhafinn (seljandi íbúðarinnar) getur ekki tekið greiðsluna og ráðstafað henni fyrr en hann hefur uppfyllt sinn hluta samningsins.

 

Ástæða þess að ég rifja upp þessi gömlu fasteignaviðskipti foreldra minna er einfaldlega sú sorgarsaga sem við fáum relgulega af aðbúnaði gamla fólksins.  Ef þið lesendur góðir flettið upp í álagningarseðlinum ykkar þá getið þið séð sérstakan reit þar sem stendur: Greitt í framkvæmdasjóð aldraðra.  Þessi sérmerkti skattur er búinn að vera í gildi í áraraðir en því miður hefur þessi sérmerkta fjárhæð ekki runnið til að leysa hin brýnu mál sem varða gamla fólkið.  Við höfum af og til fengið af því fréttir að hjón séu aðskilin vegna ófullnægjandi búsetuúrræða.  Alls óskyldir og vandalausir eru þess í stað neyddir í sambúð og eiga sér ekkert einkalíf.  En þess í stað fáum við fréttir af því að hennar hátign heilbrigðisráðherrann hafi vaðið í framkvæmdasjóðinn til að láta kosta prentun kosningaloforða sinna.

Ég vildi að ég gæti gert eins og foreldrar mínir gerðu um árið og deponerað það sem af mér er tekið í framkvæmdasjóð aldraðra.  Því ef sú sérmerkta skattheimta hefði skilað sér í þau verkefni sem henni var ætlað þá værum við ekki að tala um búsetuúrræði aldraðra sem sérstök vandamál.

Hvað er í matinn?

Fyrir tæpum 20 árum opnaði Jóhannes Jónsson litla matvöruverslun í iðnaðarhverfinu neðan Vogahverfis í Reykjavík.  Verslunin, Bónus, var mjög hrá að innan og minnti fremur á vörulager heldur en verslun.  Augljóslega var ekki miklu kostað til.  T.a.m. var vörunum ekki raðað úr kössunum upp í hillur heldur voru kassarnir skornir á hlið og viðskiptavinir sáu sjálfir um að taka vörur úr kössunum og beint í innkaupakörfurnar.  Verslunin einkenndist af litlu framboði vörutegunda og allt var ódýrara en í öðrum matvöruverslunum, meira að segja mjólkurvörur voru seldar með afslætti.  Verslunin varð strax vinsæl og ekki að ástæðulausu.  Helgarinnkaupin hjá okkur hjónunum voru um 1.000 kr ódýrari í samanburði við fyrri innkaup og því ljóst að með vikulegri heimsókn í þessa búð þá nutum við umtalsverðs ávinnings.  Hins vegar urðum við að sætta okkur við að fara einnig í aðrar verslanir þar sem ekki reyndist unnt að fá allt til heimilisins í Bónus.  Auk þess sem ákveðna vöruflokka eins og ávexti og grænmeti var ekki hægt að kaupa í Bónus einfaldlega vegna þess að þessar vörur var vart hægt að kalla annað en úrkast.  En sem betur fer voru til verslanir sem seldu fyrsta flokks ávexti og grænmeti.  Hagkaup og síðar 10-11 báru þar af.  En þrátt fyrir þessa annmarka á Bónusbúðinni þá var maður sáttur.  Í raun horfði maður með aðdáun á þá sem ráku búðina.  Hún var alltaf full af vörum og fólki, auk þess sem feðgarnir sem áttu búðina voru eins og útspítt hundskinn raðandi í hillur, takandi á móti vörum og að afgreiða á kassa.  Þetta kunnu allir að meta.

 

Smám saman urðu verslanir Bónus fleiri og fleiri um leið og kaupmönnum á horninu fækkaði.  Bónus sameinaðist Hagkaupum, keypti 10-11 og nú er svo komið að meirihluti matvöruverslunar í landinu er í eigu sömu aðila.

 

Þegar ég fór í Bónus í gær til að kaupa til heimilisins var því víðs fjarri að ég væri stemmdur með sama hætti gagnvart þessu fyrirtæki og á upphafsárum þess.  Ekki vegna þess að ég hafi verið illa haldinn í gær eða hafi átt dapran dag að einhverju leyti.  Nei, heldur vegna þess að þegar ég kem inn í verslunina og dreg upp minnismiðann yfir það sem vantar til heimilisins þá koma ávallt sömu spurningarnar upp í hugann.  Hvað ætla feðgarnir að láta mig borða í kvöld? Og hvað ætli ég geti fengið hátt hlutfall af því sem er á miðanum mínum í þessari ferð?  Ég kem aldrei brosandi út þar sem mér finnst nánast að sjálfsákvörðunarréttur minn hafi verið brotinn.  Ég gerði mér grein fyrir því á upphafsárum verslunarinnar að vörumerkjatryggð hennar var ekki mikil.  Þess vegna prófaði maður nýjar vörutegundir sem maður þekkti ekki einfaldlega að þær voru snöggtum ódýrari en þær maður hafði keypt áður.  Sumt var ætt eða nothæft en annað ekki.  En nú um stundir er ástandið óþolandi.  Það er jafnvel erfitt að treysta því að unnt sé að ganga að mjólkurvörunum vísum í innkaupaferðinni.

 

Ég held reyndar að ástæða þess hvernig komið er fyrir þessum verslunum sé fyrst og fremst sú að eigendur fyrirtækisins eru komnir í órafjarlægð frá þeirri viðskiptahugmynd sem þeir lögðu upp með.  Guðfaðirinn er upptekinn af vegagerð yfir Kjöl og stráksi spilar Matador í London á milli þess sem hann lítur við í réttarsalnum við Lækjartorg og rekur þar sögu fyrirtækisins.  Þess í stað starfa í Bónusverslunum börn á fermingaraldri og verslunarstjórinn, sem jafnframt er aldursforsetinn á staðnum, er nýkominn með bílpróf.  Enginn sem starfar í versluninni rekur heimili og gerir sér því ekki grein fyrir mun á nauðsynjavörum og lúxusvarningi.  Þvottaefnið sem var til sölu í síðustu viku verður e.t.v. ekki í boði næsta mánuðinn en krakkarnir, í samræmi við eigin neyslu, munu sjá til þess að allar bragðtegundir af snakki og dýfu verða á vísum stað.

 

Við þær aðstæður sem ríkja á matvörumarkaðnum nú um stundir eiga neytendur ekkert val.  Það er búið að ryðja allri alvöru samkeppni í burtu og í flestum hverfum eða jafnvel heilu sveitarfélögunum er eingöngu ein verslun.  Ástæða þessa er ekki eingöngu fámennið heldur er samkeppnisumhverfið meingallað.  Því miður hafa íslenskir neytendur þurft að sætta sig við einokun alla tíð og þess vegna er erfitt að fá menn til að komast upp úr þessu ömurlega hjólfari.  Ég held að við þurfum að ígrunda alvarlega hvort ekki sé rétt að setja takmarkanir á markaðshlutdeild á dagvörumarkaði í lög.  Við núverandi ástand er engin leið fyrir ný fyrirtæki að koma inn á matvörumarkaðinn og maður hefur það á tilfinningunni að næst stærsta matvörukeðjan eigi ekki langa lífdaga framundan.


Misskemmtilegir bloggvinir

Eins og gestir og gangandi geta séð á stikunni hérna til vinstri þá á ég reiðinnar býsn af bloggvinum.  Sumir þeirra eru meinlega fyndnir og ég lít í heimsókn þegar ég vil létta lundina.  Dæmi um slíka, sem mér þykja fá skammarlega fáar heimsóknir, eru: hognason sem kveður um dægurmálin, prakkarinn sem stílar lipurlega og síðast en ekki síst haglabyssa sem á það til að skjóta í allar áttir og það verður gaman að fylgjast með hvar grjónin lenda.  Síðan kemur það stundum fyrir mig að ég gleymi mér inni á amerísku tíðindunum á freedomfries.

 

Ég hvet ykkur til að benda á fleiri af sama meiði.  En einnig megið þið fræða mig um hvernig standi á vinsældum þeirra sigmarg og stebbifr sem ég botna ekkert í þar sem ég hef aldrei rekist á neitt áhugavert frá þeim.


Hver er afstaða íslenskra stjórnvalda?

Til hvers er verið að búa til sprengjur ef ekki má nota þær?  Eru þær annars ekki búnar til í fyrirtækjum sem eru knúin vatnsorku eða jarðvarma að öðrum kosti?
mbl.is Bandaríkjastjórn mótfallin því að ályktun sem heimilaði Íraksstríðið verði endurskoðuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er erfitt að kyngja stoltinu eða ....

Mér hefur oft þótt Geir H. Haarde vera fremur geðþekkur náungi, ekki síst í samanburði við fyrirrennara sinn á formannsstóli Sjálfstæðisflokksins.  En ég veit ekki hvort hann sé haldinn stakri kvenfyrirlitningu eða hvort hann sé bara svona klaufskur þegar hann tjáir sig um konur.  Flestum er í minni hin ógeðfellda samlíking hans á varnarsamstarfi og kvennafari, en fyrir skömmu bætti hann um betur þegar hann tjáði sig um þær stúlkur sem hafa orðið ófrískar eftir vistina í Byrginu og sagði að auðvitað væri ekki hægt að fullyrða að þær hefðu ekki orðið ófrískar án þess að hafa dvalið í Byrginu.  Ég ætla hins vegar að leggja hlutina á besta veg fyrir Geir og halda því fram að hann hafi bara misst þetta út úr sér án þess að nokkur alvara hafi búið að baki.  Þetta var fljótfærni sem við skulum fyrirgefa.

 

Hins vegar er annað í lífi og starfi Geirs H. Haarde, samstarfsmanna hans í ríkisstjórninni og klappliði stjórnarflokkanna á Alþingi sem ég á afar bágt með að sætta mig við.  Það er yfirlýstur stuðningur Íslands við innrásina í Írak.  Ég er almennt ekki langrækinn en daglega fæ ég fréttir af dauða óbreyttra borgara í Írak, auk þess sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar þreytast ekki á því að réttlæta stuðning sinn og svara með skætingi og útúrsnúningi þegar einhver leyfir sér að gera athugasemdir við þann gjörning.  Ég er því daglega minntur á einhverja dapurlegustu ákvörðun íslenskra stjórnvalda í utanríkismálum.

 

Ég get ekki að því gert að mér finnst við hafa brugðist Bandaríkjamönnum með því að hafa gagnrýnislaust lýst yfir stuðningi við innrás þeirra í Írak.  Tilfellið er að Íslendingar og Bandaríkjamenn hafa átt farsælt samstarf á mörgum sviðum í áratugi.  Svo nokkur dæmi séu nefnd þá höfum við haft með okkur varnarsamstarf, mikill fjöldi Íslendinga hefur stundað nám við bestu skóla Bandaríkjanna, í gegnum tíðina hafa viðskipti landanna verið góð og Íslendingar ferðast mikið vestur um haf og á móti eru þeir í hópi þeirra erlendu ferðamanna sem eru hvað duglegastir við að sækja okkur heim.  Eða í stuttu máli, það hefur farið tiltölulega vel á með þjóðunum og ég held hreinlega að það sé hægt að tala um vináttu í þessu sambandi.  En í þessu stóra máli, innrásin í Írak, reyndumst við þeim ekki vel.  Sá vinur er ekki traustsins verður sem hefur ekki kjark til að hnippa í vini sína þegar auðsýnt er að hann er á villigötum.  Það heitir að bregðast vinum sínum.

 

Þar sem forsætisráðherrann og vinnufélagar hans í ríkisstjórninni þreytast ekki á því að réttlæta þau voðaverk sem framin eru daglega í Írak þá verður sú háttsemi ekki skilin öðru vísi en svo: við myndum gera þetta aftur í dag og á morgun og hinn og ........


Doktorspróf í húsasmíði?

Ég hef alla tíð dáðst af fallegu handverki og fagmennsku góðra iðnaðarmanna.  Ég hef mjög gaman af því að ráðfæra mig við þá um mögulegar lausnir á því sem aflaga fer og þarfnast endurbóta.  Á seinni árum hef ég átt í verulegu basli með að fá góða iðnaðarmenn til að taka að sér nauðsynlegar endurbætur á húsnæði fjölskyldunnar.  Þegar loks hafa komið menn frá iðnfyrirækjum þá hefur komið í ljós að fæstir þeirra eru lærðir iðnaðarmenn og þegar ég hef reynt að ræða við þá á faglegum forsendum um hluti eins og efnisval þá er augljóst að þeir hafa afar takmarkaða kunnáttu.  Ég veit að ég er ekki einn um þessa reynslu og má benda á fjölda grátlegra dæma um það fólk hefur lagt aleiguna undir og talið sig vera að kaupa nýtt og vandað húsnæði sem síðan reynist meingallað.  Að því er virðist vegna þess að fúsk, fákunnátta og gróðafíkn hefur ráðið ferðinni en ekki snefill af fagmennsku.

 

Sú var tíðin að ég var sannfærður um að húsasmíði væri rétti vettvangurinn fyrir mig.  Ég fór því í Iðnskólann og eftir 1 vetur fór ég að vinna hjá smíðafyrirtæki þar sem störfuðu færir menn.  Stundum þegar ég fylgdist með handbragði þeirra þá fannst mér ég vera að sjá lista- eða jafnvel töframenn að störfum.  Ég þurfti ekki langan tíma í þessum ágæta félagsskap til að átta mig á því að ég kæmi aldrei til að rísa undir eigin kröfum í smíðinni.  Ég hafði enga hæfileika í þessum hópi og mér varð ljóst að mér hafði verið úthlutað ríflega af þumalfingrum.  Ég tók mér því annað fyrir hendur.

 

Smíðaárin mín komu upp í hugann í gær þegar upplýst var að það væri til skoðunar að sameina Iðnskólann í Reykjavík og Fjöltækniskólann.  Ekki man ég við hvern var talað í fréttatímanum en sá var greinilega upptendraður af þessari hugmynd og fór að tala um að hægt yrði að bjóða upp á nám í tækni- og verkgreinum á háskólastigi.  Mér krossbrá.  Ég hef um nokkra hríð haft verulegar áhyggjur af stöðu iðnnáms í landinu.  Ekki vegna þess að ég telji að það skorti iðnaðarmenn með háskólagráður, heldur vegna þess að ég tel að það vanti fleiri námsbrautir og frekari stigskiptingu námsins.

 

Til að gera frekari grein fyrir skoðun minni kem ég með eftirfarandi tillögur sem ég vona að einhver í skólakerfinu taki til íhugunar.  Ég legg til iðnnám í nokkrum þrepum t.d. með eftirfarandi hætti:

 

Fyrsta stig iðnnáms verði byggt þannig upp að þar verði nánast eingöngu byggt á verklegum og fagbóklegum greinum.  Engin danska, enska, þýska, bókmenntir, bókfærsla og eina stærðfræðin verður rúmfræði.  Sú skólaganga gæti tekið 18 mánuði en eftir það þyrftu menn að starfa hjá löggiltum fagmanni í 18 mánuði og gætu að því búnu tekið sveinspróf í sinni iðn.  Það má segja að þetta sé mín útfærsla á því sem Karl V Matthíasson sagði á bloggsíðu sinni fyrir skömmu.  En Karl taldi að “..við ættum að auka möguleika þeirra sem eru ekki mikilir bókamenn til aukinnar menntuanr í alls konar starfsgreinum þó þeir ljúki ekki sveinsprófi eða háskólagráðu.

 

Annað stig iðnnáms vil ég kalla meistaranám en það felur ekki í sér það sem heitir meistararéttindi í dag með námi í verkþáttagreiningu, bókfærslu, áætlanagerð o.þ.h.  Heldur fagnám sem felur í sér frekari þekkingu í verklagi, efnisfræði eða öðru slíku.  Á þessu stigi fengju nemar meiri kennslu í t.d. efnafræði, næringarfræði osfrv. eftir því sem tengist viðkomandi iðngrein.  Æskilegt er að námið tæki um 2 ár og væri jafnvel unnið í tengslum við fyriræki á markaði, t.d. sem vöruþróun af einhverju tagi.

 

Þriðja stigið líkist núverandi meistaranámi.  Þar væri kennd bókfærsla, verkþáttagreining, áætlanagerð, löggjöf og reglur í viðkomandi fagi, auk leiðbeinendanámskeið.  Með því að ljúka þessu námi fengist prófgráða sem gerði mönnum kleyft að taka að sér iðnnema og bjóða í opinber verk.

 

Fyrir þá metnaðarfyllstu yrði eftir sem áður unnt að halda áfram og taka próf í tæknifræði og jafnvel verkfræðigreinum.

 Tillögur menntamálaráðherra sem voru til umræðu fyrir nokkru um að nemendum í bóknámi gefist kostur á því að taka námskeið í iðngreinum undir því yfirskini að þar með aukist virðing bóknámsfólks fyrir iðnnámi eru hrein firra.  Með slíku ávinnst nákvæmlega ekki neitt.

Ég er feginn að það var ákveðið breyta húsinu ekki í álver

Heilsuverndarstöðin er með fallegri húsum á landinu.  Samt sem áður má það heita undarlegt þar sem þar ægir ýmsu saman, t.a.m. stórundarlegar brýr á sívölum súlum, sitt á hvað hringlaga eða ferkantaðir gluggar, þríhyrnur og spírur.

Þegar fyrir lá að það átti að selja húsið þá var ég hugsi yfir því hvers konar starfsemi færi best í húsinu.  Mér fannst margt koma til greina en fannst brýnast af öllu að ytra form hússins fengi að halda sér.  Einhvern veginn fannst mér hótel fremur ólíklegur kostur þar sem ég taldi að vart yrði hægt að bjóða nægjanlega mörg gistirými til að nauðsynlegar breytingar borguðu sig.  Veitingastaður ásamt einhverju öðru taldi ég líklegt að yrði ofan á.  En alltént er ég feginn að eigendurnir ætla sér ekki að breyta húsinu í álver.


mbl.is Heilsuverndarstöðin við Barónsstíg verður hótel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnulífið og ríkisvaldið

Þegar ég rak augun í þessa frétt af landvinningum Vélaverkstæðis Skagastrandar þá tók kollurinn smá kipp.  Ég verð að játa að ég hef haft hina megnustu óbeit á því þegar stjórnmálamenn eru að ferðast um landið með fyrirætlanir um það hvers konar atvinna skuli stunduð hér og þar.  Stuðningur Byggðastofnunar við hin og þessi fyrirtæki í gegnum tíðina eru dæmi um slíkan ófögnuð.  En til allrar hamingju hefur atorkusamt fólk tekið sig til og stofnað fyrirtæki til að fylgja eftir hugmyndum sem það hefur ekki getað losnað við úr kollinum án þess að láta á þær reyna.  Ef einhver hefði sagt við mig fyrir 25 árum að framundan væri rekstur fyrirtækis:

  • sem framleiddi búnað til svefnrannsókna.
  • sem framleiddi gervilimi.
  • sem framleiddi vogir.
  • sem rannsakaði erfðasjúkdóma og ynni að lyfjaþróun á grundvelli þeirrar þekkingar.
  • sem væri með nokkra stóra báta til að skoða hvali í sínu náttúrulega umhverfi.
  • sem framleiddi og seldi aðgang að tölvuleik sem væri hægt að spila hvar sem er í heiminum.
  • sem framleiddi vinsælt barnaefni til sýninga í Bandaríkjunum.
  • sem framleiddi vettlinga- og stígvélaþurrkara og seldi til Tævan.

þá hefði ég sagt við þann sama.  Þú ert bilaður, - ég nenni ekki að hlusta á svona rugl.

En þetta er veruleikinn og þessi fyrirtæki hafa orðið til hjá snjöllu fagfólki en ekki nefnd pólitíkusa.  Þeirra hlutverk er fyrst og fremst að tryggja stöðugt rekstrarumhverfi og sjá til þess að úr skólum landsins komi vel menntað fólk.


mbl.is Flytja út íslenska tækni til Taívan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álver eða hálfver

Framundan eru kosningar um stækkun álversins í Straumsvík.  Það hefur verið haft eftir forsvarsmönnum í Straumsvík að ef ekki verði af stækkun þá muni þeir, þó síðar verði, pakka saman.  Fólki gengur misjafnlega að trúa því að núverandi stærð álversins í Straumsvík sé ekki hagkvæm eining þar sem fyrirhugað er að reisa litlu stærri verksmiðjur í Helguvík og við Húsavík.  Andri Snær Magnason heldur því fram í Draumalandinu að áformin um 250.000 tonna ársframleiðslu sé eingöngu helmingur af því sem fyrirtækin ætla sér í raun, þ.e. eins konar hálfver.

 

Ég leyfði mér að líta inn á heimasíður samtaka álframleiðenda og hins íslenska fyrirtækis Altech, en á báðum síðunum er að finna margvíslegan fróðleik um álmarkaðinn.

 

Hér að neðan fylgir upptalning á aldri og framleiðslugetu þeirra álvera í heiminum sem Altech listar á heimasíðu sinni.  Þar er sérstaklega tiltekið að allar upplýsingar vanti frá Kína.  Hafa ber í huga að upplýsingar um ný og breytt álver frá síðustu misserum vantar vafalítið á þennan lista.  Af listanum má sjá að stærðir álvera eru afar breytilegar eða frá um 20.000 tonna ársframleiðslu og upp í 930.000 tonn. 

Til að hafa samanburðinn á hreinu.

Framleiðslugeta Alcan í Straumsvík er um 180.000 tonn á ári

Alcan í Straumsvík vill stækka upp í 460.000 tonn á ári.

Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði byrjar framleiðslu á þessu ári og verður komið í 346.000 tonna ársframleiðslu þegar byggingu er lokið.

Norðurál á Grundartanga er að stækka og er komið með starfsleyfi fyrir allt að 300.000 tonna ársframleiðslu.

Til skoðunar er að reisa 250.000 tonna álver í Helguvík og annað svipað að stærð á Húsavík.

Í fréttum um daginn var greint frá áhuga Hydro á byggingu álvers í Þorlákshöfn en ekki hafa heyrst tölur um mögulega stærð þess.

 

Til skýringar.  Listinn er eftir heimsálfum, í fyrsta dálki er heiti fyrirtækis, þá framleiðslugeta í tonnum á ári og í síðasta dálki ártalið þegar fyrirtækið hóf starfsemi sína.

 
Norður Ameríka
Kanada  
Alcan - Alma400.0002000
Alcan - Arvida248.0001926
Alcan - Beauharnois50.0001943
Alcan - Grand Baie196.0001980
Alcan - Kitimat277.0001954
Alcan - Laterriere219.0001989
Alcan - Shawinigan Falls88.0001901
Alcoa - Abi360.0001986
Alcoa - Aluminerie de Deschambault253.0001992
Alcoa - Baie Comeau400.0001957
Alouette242.0001992
Mexíkó  
Vera Cruz75.0001963
Bandaríkin  
Alcan - Sebree196.0001974
Alcoa - Alcoa210.0001914
Alcoa - Badin115.0001915
Alcoa - Eastalco174.0001970
Alcoa - Intalco280.0001966
Alcoa - Massena125.0001903
Alcoa - Mount Holly205.0001980
Alcoa - Rockdale264.0001952
Alcoa - St. Lawrence123.0001959
Alcoa - Warrick310.0001960
Alcoa - Wenatchee220.0001952
CFAC185.0001955
Goldendale172.0001969
Hawesville238.0001969
Mead200.0001942
Noranda252.0001952
Northwest82.0001958
Ormet260.0001952
Ravenswood180.0001957
Vanalco116.0001940
Suður Ameríka
Argentína  
Aluar194.0001974
Braselía  
Albras365.0001965
Alcan Aratu58.0001972
Alcan Ouro Preto51.0001945
Alcominas91.0001970
Alumar380.0001984
CBA240.0001955
Valesul94.0001982
Venesúela  
Alcasa210.0001967
Venalum430.0001978
Eyjaálfa
Ástralía  
Bell Bay160.0001955
Boyne520.0001982
Hydro - Kurri Kurri165.0001969
Point Henry185.0001963
Portland Aluminium385.0001986
Tomago480.0001983
Nýja Sjáland  
NZAS330.0001971
Asía (Kína vantar)
Aserbasjan  
Sumgait Aluminium35.0001955
Barein  
Alba830.0002005
Indland  
Balco289.0002005
Hindalco242.0001962
Indalco - Alupuram21.0001943
Indalco - Hirakud60.0001959
Malco28.0001967
Nalco345.0001987
Indonesia  
Inalum225.0001982
Íran  
Iralco Almahdi220.0001997
Iralco Arak120.0001971
Japan  
Kambara35.0001940
Sameinuðu arabísku furstadæmin  
Dubal560.0001979
Afríka
Kamerún  
Alucam96.0001957
Egyptaland  
Egyptalum245.0001975
Gana  
Valco200.0001967
Mósambik  
Mozal530.0002000
Nígería  
Alscon193.0001997
Suður Afríka  
Bayside210.0001971
Hillside670.0001994
Evrópa
Bosnía Hersegóvenía  
Mostar107.0001981
Frakkland  
Dunkerque228.0001992
Lannemezan45.0001939
St. Jean de Maurienne125.0001907
Þýskaland  
Corus83.0001971
HAW125.0001974
Rheinwerk210.0001962
Stade70.0001973
Trimet Essen155.0001971
Grikkland  
ADG155.0001969
Ungverjaland  
Inota34.0001952
Ísland  
Alcan Iceland168.0001969
Nordural260.0001998
Ítalía  
Alcoa - Fusina43.0001972
Alcoa - Porto Vesme144.0001973
Montenegro  
Kombinat Aluminium102.0001971
Holland  
Alcan Vlissingen175.0001971
Aluminium Delfzijl100.0001966
Noregur  
ELKEM Lista95.0001971
ELKEM Mosjoen188.0001958
HYDRO Ardal204.0001947
HYDRO Hoyanger71.0001981
HYDRO Karmoy267.0001967
HYDRO Sunndal252.0001954
SORAL110.0001965
Pólland  
Konin53.0001966
Rúmenía  
Alro270.0001965
Rússland  
BAZ180.0001945
BrAZ945.0001966
IrkAZ280.0001962
Kandalaksha70.0001950
KrAZ900.0001964
Nadvoitsky70.0001954
NkAZ285.0001943
SaAZ450.0001985
UAZ135.0001939
VgAZ165.0001959
Volkhov24.0001932
Slóvakía  
Slovalco155.0001953
Slóvenia  
Talum155.0001954
Spánn  
Aviles85.0001959
La Coruna82.0001961
San Ciprian200.0001979
Svíþjóð  
Kubal100.0001973
Sviss  
Steg44.0001962
Tatsikistan  
Tajik Aluminium530.0001975
Tyrkland  
ETI60.0001974
Bretland  
Anglesey140.0001971
Lochaber40.0001981
Lynemouth160.0001972
Úkraína  
Zaporozhie110.0001932

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband