Kompuþjófarnir

Þessi pistill er ekki um innbrotsfaraldra sem af og til virðast blossa upp heldur um minningar um hvarf á prentgrip frá barnaskólaárunum.  Þegar ég var í barnaskóla barst okkur á hverju hausti lítill glaðningur frá Búnaðarbankanum sáluga.  Þetta var lítil handbók í vasabroti sem hét Kompan.  Ég man að okkur krökkunum þótti afar vænt um að fá þessa sendingu frá bankanum og ég gætti minnar Kompu sem sjáaldurs augna minna.  Í þessa bók byrjaði maður að færa allar upplýsingar um sjálfan sig á fyrstu síðu.  Allt voru þetta upplýsingar sem maður mundi en taldi engu að síður brýnt að setja á blað.  Á næstu síðu skrifaði ég nöfn og símanúmer vina minna, en þau mundi ég auðvitað.  Í miðjunni var stundartaflan færð inn, - auðvitað eftir minni.  Síðan komu nokkrar síður þar sem maður gat m.a. talið upp uppáhaldsplöturnar sínar og loks lært að skrifa leyndarmál eftir tillögum að dulmáli.  En hvorugt af því síðasttalda notaði ég.  Ég man að ég leit á Kompuna sem hinn mesta dýrgrip en engu að síður er ég alveg sannfærður um að í hana hafi ég ekki skrifað stakt orð sem nema ég kynni það utanað.

Einu sinni eftir að ég verið að leika mér með strákunum í bekknum, sennilegast í fótbolta, þá varð ég þess áskynja að Kompan var ekki á sínum stað, þ.e. í rassvasanum á buxunum mínum.  Nú voru góð ráð dýr.  Hvað hafði orðið um dýrgripinn minn?  Kompan sem alltaf var á sínum stað í hægri rassvasanum á buxunum mínum var horfin.  Auk þess sem ég skipti aldrei aldrei um buxur nema eftir miklar fortölur móður minnar.  Ég spurði strákana sem voru með mér hvort þeir hefðu rekist á Kompuna, en svo var ekki.  Engu að síður voru þeir fullir samúðar vegna þess stórtjóns sem ég stóð frammi fyrir.  Þeir hlýddu mér samviskusamlega yfir síðustu ferðir og hvenær ég hefði síðast munað eftir að hafa verið með hana.  En leitin bar engan árangur þrátt fyrir ágæt skilyrði til leitar.  Veðrið var gott og nokkrir vinir sem lögðu sig alla fram um leitina.

Það blasti því við að ég stæði frammi fyrir varanlegu og óafturkræfu eignartjóni þegar nokkuð undarlegt gerðist.  Búlduleitur strákur sem var tveimur árum eldri en ég stóð fyrir ofan tröppurnar að skólanum með opna Kompu í höndunum.  Hann tók að lesa upphátt úr Kompunni.  Þegar ég heyrði hvað hann var að lesa fann ég blóðið sjóða í æðum mínum.  Ég leit á vini mína og þeim var jafnljóst og mér hver væri réttbær eigandi þessarar Kompu.  Vinum mínum varð jafnframt ljóst að þrjóturinn með stolnu Kompuna var ekki bara að gera á minn hlut með því að upplýsa með stirðlegum lestri hvenær ég ætti afmæli.  Nei, það voru fleiri sem urðu fyrir fólskulegri árás.  Vinir mínir heyrðu að sá bústni var byrjaður að þylja upp símanúmerin þeirra.  Í vinahópnum mínum hafði oftast verið góð samstaða og við þessar aðstæður brugðust allir við sem einn maður.  Við létum okkur í léttu rúmi liggja að þrjóturinn var tveimur árum eldri en við.  Allir þutum við af stað á eftir bófanum.  Honum varð mjög hverft við þar sem hann taldi víst að enginn gerði sig líklegan til að reyna aflsmuni sína við þann sem væri tveimur árum eldri.  Hefðbundin bernskulögmál segja að það sé fyrirfram tapaður leikur.  En þar sem við vorum allir þjakaðir hinni réttlátu reiði þá settum við ekki slíka smámuni fyrir okkur og þar sem honum varð ljós alvaran úr andlitum okkar og atferli þá var augljóst að hann hafði ekki hug á því að stóla á aldursmuninn.  Hann hljóp því inn í skólann.  Við eltum á harðaspani og vorum þess fullvissir að við myndum ná kauða.  Við vorum a.m.k. frárri á fæti.  Þegar kom inn í skólann þá var stráksi horfinn.  Við skiptum með okkur göngunum svo það væri pottþétt að við næðum honum.  Ég man eftir að hafa runnið skeiðið eftir löngum gangi í skólanum og endað í blindgötu án þess að hafa upp á þrjótnum.  Þegar ég hafði fullvissað mig um að hann hefði ekki sloppið inn í neinar stofur eða hirslur á mínu svæði sneri ég við fremur vonsvikinn þar sem ég hafði ekki endurheimt dýrgripinn minn.  En þegar ég gekk í rólegheitum ganginn til baka þá kom vinur minn á móti mér.  Hann sýndi engin svipbrigði og af því réði ég að hann hefði ekki borið haft neitt upp úr krafsinu fremur en ég.  En þegar hann var alveg kominn að mér þá dróg hann upp Kompu og rétti mér.  Eftir að hafa skoðað titilblaðið var niðurstaðan klár.  Yes, handritin heim!! 

Þrjóturinn í sögunni að ofan átti, eins og ég, vini sem hann hélt tryggð við.  Allar götur síðan að brotið var á mér með þeim freklega hætti sem ég greindi að ofan hafa þeir félagarnir verið nefndir Kompuþjófarnir í mínum vinahópi.

Ekki veit ég hvar þeir pörupiltar eru í dag.  En ég vona að þessi atburður hafi í senn verið upphafið og endirinn á glæpabraut þeirra.  Ég er fyrir löngu búinn að fyrirgefa.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Ekkert frelsi er ljúfara en það að fyrirgefa óvildarmanni sínum. 

Ester Sveinbjarnardóttir, 18.4.2007 kl. 23:14

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Skemmtileg upprifjun.  Það er gaman að rifja upp það sem er í minningunni.  Þegar maður svo setur það á blað, verður það einhvernveginn meira lifandi.  Takk fyrir þetta SAS minn.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.4.2007 kl. 10:11

3 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Meiriháttar skemmtilegur pistill.

Steingerður Steinarsdóttir, 19.4.2007 kl. 19:54

4 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Öllu er afmörkuð stund og bernskan er ljúfsár.

Edda Agnarsdóttir, 21.4.2007 kl. 16:48

5 Smámynd: Svava S. Steinars

Ég man eftir Kompunum, öfundaði systur mínar mikið af sínum kompum og langaði í eina slíka.  Fékk að eiga gamlar og notaðar Kompur systranna og ég nýtti mér dulmálið í þeim til að skrifast á við vinkonurnar í einhverju af þeim ótal leynifélögum sem ég var í.  Aðeins einu sinni fékk ég ónotaða kompu til eigin afnota - þvílík sæla !!  Ég skil því vel tilfinningar þínar til kompuþjófanna

Svava S. Steinars, 21.4.2007 kl. 17:35

6 Smámynd: Kári Harðarson

Í kolli mínum geymi ég gullið
sem gríp ég höndum tveim
svo fæ ég vexti og vaxtavexti
og vexti líka af þeim.

(Trölli og Trýna )

Kári Harðarson, 21.4.2007 kl. 20:02

7 Smámynd: Laugheiður Gunnarsdóttir

innlitskvitt

Laugheiður Gunnarsdóttir, 22.4.2007 kl. 16:36

8 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Frábært. Ég var alveg búin að steingleyma kompunum. En við þennan lestur rifjast upp alls konar bækur, sem þó voru aðallega eign stelpna; eins og pósíbækur, og svo síðar litlar bækur með spurningum um uppáhalds hitt og þetta sem maður lét vinina fylla út. Skemmtilegir tímar.

Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.4.2007 kl. 16:56

9 Smámynd: Þorgerður Laufey Diðriksdóttir

flott nafn á minnisbók "kompan"

Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, 22.4.2007 kl. 22:00

10 Smámynd: Pjetur Hafstein Lárusson

Skemmtileg frásögn.  En ég man ekki eftir svona kompu úr Miðbæjarskólanum forðum tíð, nema þetta sé þá sparimerkjabókin.  Getur það verið?

Pjetur Hafstein Lárusson, 23.4.2007 kl. 07:31

11 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Margar eru misgjörðir bernskunar.......

Eiður Ragnarsson, 23.4.2007 kl. 09:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband