Hverjir blanda kókið á bak við eldavélina?

Ég hef áður getið þess í bloggheimum að hafa fengist við kúasmölun sem krakki í sveit og allar götur síðan hef ég haft nokkuð dálæti á kúm.  Kýr þóttu mér mun áhugaverðari heldur en hestar eða ær.  Mér hefur oft verið hugsað til þess að það væri sennilega skynsamlegt fyrir leiklistarnema að vera innan um kýr a.m.k. hluta af námstíma sínum.  Kýr sýna oft á tíðum merkileg svipbrigði svo enginn þarf að velkjast í vafa um þegar þær eru t.d. forvitnar, óttaslegnar eða hissa.  En við tjáningu sína hafa þær ákveðið forskot á okkur mennina sökum þess að stór augu og auðhreyfanleg eyru eru afar gagnleg hjálpartæki til að tjá lund sína og hug.

Við sem höfum fengist við kúasmölun og mjaltir, vitum eitt og annað um umgengni við kýr.  Það er t.a.m. hvimleitt þegar halinn slæst í andlit þess sem situr á fjósakolli við mjaltir.  Kúasmalinn fékk því það hlutverk að halda í halann ef hann var ekki bundinn upp.  Ef ein beljan í fjósinu mígur þá líður ekki á löngu þar til að fleiri gera það sama.  Ef kýr rekur trýnið í þvag annarra kúa þá færist hún undan bununni, teygir fram hausinn og brettir upp á efri vörina.  Þetta tiltæki kallast að fýla grön.  Auk þess er trýni kúa ávallt blautt og slepjulegt og ef einhverjum verður það á að koma við tungu í kú þá líkist það helst því að viðkomandi sé raspaður með blautum og mjög grófum sandpappír.  Þá er rétt að benda á að kýr eru ekkert fyrir það að láta klappa sér eða klóra í kringum eyrun líkt og hundar og kettir.  Sé það gert við kýr þá rykkja þær til hausnum svo litlir pollar falla auðveldlega um koll.  Eða í stuttu máli, mikil nálægð við höfuð fullorðinna nautgripa kostar gjarnan nokkurn subbuskap og stundum byltu.

Landbúnaðarráðuneytið er undarlegt fyrirbæri.  Þar á bæ virðist almennt vera fremur fátt til dundurs.  Engu að síður hefur með þeirri stefnu sem rekin hefur verið af ráðuneytinu síðustu áratugina tekist að tryggja viðvarandi fátækt bænda, einkum í sauðfjárrækt.  Auk þess sem sú sama stefna hefur farið langt með að venja landsmenn af því að neyta landbúnaðarafurða.  Síðustu árin hefur ráðuneytinu verið stýrt af kumpána sem þreytist ekki að dásama "hina frábæru íslensku bændur" og "afburða hollar og góðar íslenskar landbúnaðarvörur."  Þess utan hefur sá hinn sami flutt okkur minningabrot af fyrstu kynnum sínum við einstakar tegundir grænmetis.  Eins og öllum er kunnugt er samkeppni, hvort heldur í gæðum eða verði, eitur í beinum landbúnaðarráðherrans.  Þess í stað hefur hann lagt sig fram um að auka sem mest hann má afskipti ríkisins af landbúnaði og hefur þá einnig lagt sig fram um að auka afskipti ríkisins af búgreinum sem hafa spjarað sig bærilega án þess að ríkisvaldið hefði af þeim teljandi afskipti. 

Eins og kunnugt er gerðu sauðfjárbændur og landbúnaðarráðherra með sér nýjan samning fyrir skömmu.  Samningurinn hljóðar upp á 3,3 milljarða á ári til næstu 6 ára.  Samningurinn er eitthvert undarlegasta plagg sem ég hef séð.  En í honum er m.a. að finna stuðning með beingreiðslum til bænda og auk sérmerktra fjármuna til gæðastýringar, ullarnýtingar, markaðsstarfs, birgðahalds o.fl. 

Hrossaræktin er sú búgrein sem hefur tekið heljarstökk fram á við á fáeinum áratugum.  Hin jákvæða þróun í hrossaræktinni þar sem greinin hefur þróast yfir í mikla fagmennsku og alvöru atvinnugrein hefur gengið án afskipta ríkisvaldsins.  Ég veit ekki hvernig á því stendur en það er eins og þessi þróun fari í taugarnar á landbúnaðarráðherranum.  Í stað þess að notast við hrossaræktina sem fyrirmynd fyrir aðrar búgreinar og draga úr ríkisstyrkjum til þeirra þó ekki væri nema skref fyrir skref á ákveðnum aðlögunartíma þá hefur landbúnaðarráðherra lagt sig fram með ráðum og dáð við að koma hrossaræktinni á jötuna.  Um þetta eru mörg dæmi, ég minni á hið undarlega embætti, umboðsmann íslenska hestsins, launað hestalandslið og 330 milljónir í 28 reiðhallir vítt og breytt um landið. 

Fyrir fáum árum árum kom til tals að flytja norskt kúakyn til landsins.  Landbúnaðarráðherra var afar tvístígandi vegna þessa en til að fullvissa landsmenn um velþóknun sína á íslenskum kúm þá sást honum bregða fyrir í sjónvarpi þar sem hann smellti rembingskossi á trýnið á kusu sem var bundin á bás.  Sá sem hér skrifar hefði af fenginni reynslu sem kúasmali og þrátt fyrir mikið dálæti á kúm, aldrei gert nokkuð þessu líkt.  Kýrin sú arna kunni honum greinilega litlar þakkir fyrir tiltækið og virtist ekki líkleg til að endurgjalda atlotin.  Ég man ekki endann á myndskeiðinu en mér finnst eins og fréttin hafi verið klippt þegar kusa tók upp á því að fýla grön eftir kossinn frá ráðherra.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

Kannski væri t.d. ágætis slagorð í aðdraganda kosninga að koma með eitthvað öðruvísi slagorð t.d." Að tryggja viðvarandi fátækt bænda, einkum í sauðfjárrækt". Gaman væri að vita hvernig þetta legðist í fólk, - eða - búið sé að tyggja viðverandi fátækt bænda, sem og ýmsra annarra. Hversvegna ekki að snúa þessu við og sjá hvað gerist, kv.vilb.

Vilborg Eggertsdóttir, 23.4.2007 kl. 23:18

2 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

Kannski væri t.d. ágætis slagorð í aðdraganda kosninga að koma með eitthvað öðruvísi slagorð t.d." Að tryggja viðvarandi fátækt bænda, einkum í sauðfjárrækt".  Gaman væri að vita hvernig þetta legðist í fólk, - eða  - búið sé að tyggja viðverandi fátækt bænda, sem og ýmsra annarra. Hversvegna ekki að snúa þessu við og sjá hvað gerist, kv.vilb.

Vilborg Eggertsdóttir, 23.4.2007 kl. 23:19

3 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég elska kýr, las einu sinni um rannsókn á gáfnafari hesta, kúa, hunda og katta. það merkilega kom í ljós að kettir eru gáfaðri en hundar og kýr gáfaðri en hestar. 

Ég vissi það! Hundar fylgja bara foringjanum sem er maðurinn í blindni eins og þeim er áskapað samkvæmt eðli sínu.
Kötturinn er einfari og ef þú eignast vináttu hans þá er það sönn vinátta en enginn undirlægjuháttur.
Hesta og Kýr er ég ekki svo fróð um. 

Svava frá Strandbergi , 24.4.2007 kl. 01:45

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þegar ég var 16 ára var ég skilin ein eftir á bóndabýli í Hvítársíðunni með einn 2ja ára polla, þegar hjónin fóru í jarðarför Vestur á firði.  Ég þurfti að sækja kýrnar og mjólka þær á hverju kvöldi í tæpa viku.   Það var komið haust og farið að dimma, og ekkert rafmagn á bænum, ég var bara með einn aladinlampa og það gat verið rosalega draugalegt í fjósinu.  En ég var samt ekki hrædd, vegna þess þess hve það var vinalegt að vera innan um þær, rólegar og æðrulausar, jórtrandi blásandi úr nös og mynda öll þau hljóð sem kýr gera.  Og svo var strákurinn.  Ég var held ég meira myrkfælinn inni í sjálfu húsinu, þegar við komum inn.  En þarna mjólkaði ég 5 kýr alein og gekk frá öllu.  Ætli 16 ára ungling væri treyst svona í dag ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.4.2007 kl. 09:21

5 Smámynd: Sigurjón

Ég elska líka kýr.  Þær eru uppáhalds skepnurnar mínar, ásamt köttum.  Mér fannst alltaf gaman að mjólka í gamla daga heima í sveitinni og sérstaklega fannst mér gaman að sitja við gluggann og fylgjast með kúnum úti.  Ég gat setið þannig tímunum saman...

Sigurjón, 26.4.2007 kl. 12:30

6 Smámynd: Fishandchips

Er uppalin í sveit, beljur og rollur að mestu. Svo slæddust með hundar, kettir og stundum nokkrar hænur. Þetta með hversu beljur eru gáfaðar???? Er nun hrifnari af rollugreyjunum.

Samt þegar maður var kúasmali í denn, þá þurfti að reka beljurna ( á sumrin ) í hagana. Var yfir nokkrar ár að fara. En það var alltaf ein elskan sem beið eftir mér og leyfði mér að sitja á bakinu á henni yfir árnar. Hún fór aldrei yfir án þess að athuga hvort ég vildi far. En þessar blessaðar beljur eru stórkostlegir karakterar. Ef þær vita að þær eru að stelast í eitthvað, þá er sko tekið á því.  Svo eru þær einstaklega þrjóskar, en geta verið mjög vinalegar ef þær eru meðhöndlaðar rétt.

Þetta er náttúrulega erfitt líf fyrir þessar blessaðar skepnur, að vera bundnar á bás megnið af árinu. Pabbi minn var einn af þessum fyrstu, sem byggðu svokölluð lausgöngufjós. Og maður sá hvað dýrunum leið miklu betur við þær aðstæður.

En rollurnar.... Elska þær. Það er svo gaman þegar sauðburðurinn stendur yfir. Hjúkra fyrirburum og venja undir. En hef aldrei verið sátt við þegar verið er að marka litlu lömbin. Vildum við að það væri verið að klippa í eyrun á börnunum okkar. Lömbunum finnur jafnmikið til. Svo er alltaf erfitt að setja uppáhalds kindina sína í sláturhúsið.

Gæti aldrei verið bóndi, myndi aldrei getað slátrað dýrunum mínum

Fishandchips, 28.4.2007 kl. 17:41

7 Smámynd: Guðný Anna Arnþórsdóttir

Skemmtileg lýsing á kúm og kúa-umhirðu. Beljur eru stórkostleg fyrirbæri. Ég ber ómælda virðingu fyrir þeim sem hafa hirt um þær af slíkri eljusemi sem Cecil lýsir hér að ofan. Þetta hefur verið eldskírn! 

Guðný Anna Arnþórsdóttir, 30.4.2007 kl. 21:14

8 Smámynd: Haukur Nikulásson

Skemmtileg umræða. Við erum greinilega í nostalgíukasti hér út af blessuðum beljunum. Þetta rifjar upp fyrir mig þegar ég heyrði fullorðna manneskju í fyrsta skipti segja "ríða" í mín eyru, og eiga við annað en að sitja hest!

Ég var 12 ára kúreki á bæ fyrir austan þegar bóndinn spurði mig upp úr þurru, fannst mér, hvaða belja væri að "ríða" hinum beljunum. Mér brá svolítið en þar sem hann sagði þetta svo hversdagslega þá fór ég að hugsa og mundi þá að belja sem kölluð var Reyður hafði djöflast aftan á hinum þannig að ég yrði þess var.

Um kvöldið varð ég var að bóndinn brá sér út og fannst mér eins og að eitthvað merkilegt stæði til og hljóp á eftir honum. Bóndinn sett taum á beljuna og dró hana með sér að næsta bæ til að láta leiða hana undir og varð ég þar með vitni að því hvernig hlutirnir gerðust í sveitinni. Mest varð ég samt hissa á því hversu stutt þetta gaman var.

Þetta var síðasta skiptið því að eftir þetta kom nefnilega sæðingamaður með þetta í hálfgerðum kaffibrúsa og notaði til þess langa sprautu og tók alla þar með alla ánægjuna frá beljugreyjunum.

Haukur Nikulásson, 1.5.2007 kl. 12:10

9 Smámynd: Laugheiður Gunnarsdóttir

innlitskvitt

Laugheiður Gunnarsdóttir, 2.5.2007 kl. 22:04

10 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Alin upp á kúasýningum en þó í engu návígi við kýr þó, giftist hestamanni, umgekkst einn merkasta hund landsins mestalla hans ævi (Tinni hét hann og lifiði meira en níu líf) en er þó aðallega kattarkona. Og blanda mér í umræðuna aðallega af því mér finnst ekki koma fram hvort þú ert hlynntur eða andvígur innflutningi nýs kúakyns til landsins. Fóstri minn rannsakaði kúastofna, íslenska og þá sem mögulega komu helst til greina í innflutningi til kjötframleiðslu. Síðan eru reyndar meira en 30 ár, svo mig langar aðeins að heyra stefnur og strauma í innflutningi núna, hef ákveðnar efasemdir sjálf um innflutning á nýju mjólkurkúakyni, þrátt fyrir að þar með sé ég sammála Guðna ;-) 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 3.5.2007 kl. 01:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband