Kindur og kleinur

Þegar ég var lítill putti varði ég öllum sumrum í sveit.  Sumrin 1966 til 1973 dvaldist ég á bænum Höfða í Eyjahreppi á Snæfellsnesi.  Þar bjuggu afi minn og amma ásamt föðurbróður mínum.  Á bænum voru nokkur hundruð ær, tvær mjólkurkýr, nokkrir kálfar, um tíu hross, tugur af hænum og einn hundur.  Ég unni mér afar vel innan um búpeninginn.  Leikfélagi minn var hundurinn á bænum og saman gegndum við embætti kúasmalans.

Á bænum voru tvær kindur sem höfðu alist upp sem heimalningar.  Þ.e. ærnar sem báru þær gengust ekki við þeim og hleyptu þeim ekki á spena.  Fyrir vikið voru þær aldar á kúamjólk úr pela.  Þær urðu því fremur spakar og héldu sig heima við bæinn.  Þegar þær síðar uxu upp sem gemlingar og fullburða ær urðu þær frekar og ekki þýddi með nokkru móti að reka þær út fyrir girðinguna umhverfis heimatúnið.  Þær fundu sér ávallt leið í gegnum girðinguna og héldu sig heima við bæinn.

Heimalningarnir fengu sín nöfn og við frændsystkinin kölluðum aðra þeirra Gibbu en hina Árásargibbu.  Árásargibba var eins og nafnið bendir til bæði frekari og viðskotaillri við okkur krakkana heldur en Gibba.  Sú viðskotailla brást gjarnan við með því að setja undir sig hausinn og sýna hornin ef einhver nálgaðist hana þegar hún var nýborin.  Auk þess sem hún átti það til að stanga mig af tilefnislausu ef ég var úti að leika mér og tók ekki eftir að hún var nálæg. 

Eitt vorið þegar ég var á að giska 5 eða 6 ára gamall og nýkominn í sveitina gerðist nokkuð sem mér hefur alla tíð verið minnisstætt.  Amma ákvað að taka vel á móti mér og hafði því steikt kleinur sem átti að borða með miðdegiskaffinu.  En áður en að því kom þurfti hún að skreppa út og sækja nokkra saltkjötsbita sem voru í tunnu úti í skemmu.  Ég fékk þau fyrirmæli að halda mig innandyra en svo ég héldi ró minni þá mátti ég fá eina nýsteikta kleinu til að maula á meðan amma var úti.  Annað var ekki hægt því allur bærinn ilmaði af nýsteiktum kleinum.  En skyndilega var bankað á útidyrnar.  Ég hafði ekki fengið nein fyrirmæli um það hvort og þá hvernig átti að taka á móti gestum en ákvað að bregðast við með hefðbundnum hætti og fór til dyra.  Mér fannst bankið reyndar svolítið sérstakt og opnaði því dyrnar varlega og kíkti út.  Viti menn, upp við dyrnar stóð þá ógnvaldurinn sjálfur Árásargibba ásamt tveimur afkomendum sínum.  Áður en ég náði að skella hurðinni aftur var frekjudósin komin með snoppuna milli stafs og hurðar.  Það var ekki nema eitt í stöðunni.  Ég varð að flýja.  Ég þaut úr forstofunni inn í borðstofu og þaðan inn í eldhús.  Þegar þangað var komið leit ég um öxl og sá að bölvuð skjátan fylgdi mér fast eftir.  Ég þreif því eldhúskoll stökk upp á hann og þaðan upp á eldhúsborð.  Það þarf ekki að taka það fram að ég var með lífið í lúkunum og orgaði eins og stunginn grís, sannfærður um að ég væri að lifa mín síðustu augnablik.  Sem betur fer lét rolluófjetið það ógert að elta mig upp á eldhúsborð enda kom í ljós að hún hafði engan áhuga á mér.  Það sem hafði dregið hana inn var ilmurinn af kleinunum.  Einhvern veginn tókst henni opna eldhússkápinn og finna stóru skálina með nýju kleinunum.  Ekki nóg með það því þegar hún reyndi að krækja sér í kleinu úr skálinni þá endasentist skálin út á gólf og mölbrotnaði.  Hin einstæða og sjálfstæða tvílemba naut hins vegar veislufanganna ásamt lömbunum sínum innan um glerbrotin.  Fjölskyldan át hvern einasta kleinubita upp til agna, skeit síðan á eldhúsgólfið og trítlaði að því búnu út.

Skömmu eftir að þetta gerðist kom amma til baka.  Gamla konan var hreint ekki ánægð með aðkomuna.  Kleinurnar voru búnar, stóra spariskálin mölbrotin, kindaskítur á eldhúsgólfinu og spor eftir skjáturnar um allt.  Gamla konan var svo sótreið að hún var sonarsyni sínum ekki til mikillar huggunar en notaði orkuna í reiðikastinu til að þrífa upp eftir skjáturnar.  Þegar kom að miðdegiskaffinu voru engar kleinur á boðstólum heldur eingöngu harðar flatkökur og þurrt mjólkurkex.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Afar skemmtileg og lifandi frásögn, ég sé alveg sviðið og gömlu konuna fyrir mér, góður texti....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 24.3.2007 kl. 17:42

2 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Frábær saga!!!

Guðríður Haraldsdóttir, 24.3.2007 kl. 17:58

3 Smámynd: Laugheiður Gunnarsdóttir

góð saga verst með kleinurnar ömmukleinur eru alltaf langbestar

Laugheiður Gunnarsdóttir, 24.3.2007 kl. 20:10

4 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Þetta var frábær saga og skemmtilegt er að lesa svona bernskuminningu. Takk fyrirJá við Laugheiður vitum að ömmukleinur eru bestar enda áttum við sömu ömmuna.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 24.3.2007 kl. 23:13

5 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þessi saga  flettir uppi myningum manns sjálfs á æskudögum /þakka fyrir góða sögu !!!Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 24.3.2007 kl. 23:47

6 Smámynd: Agný

Það er sko greinilegt að þessi ær hefur sko ekki verið "sauð" heimsk ..Svona smá spurning..þekktir þú þá ekki Kjartan og Huldu á Rauðkolsstöðum?En bjó ekki á Höfða maður sem er heitir Sigurður..?Kanski er ég að fara "hreppa" villt.. en það væri samt fróðlegt (forvitnin alltaf að drepa mann) að vita hvort þú þekktir eða kannast við þetta fólk..

Agný, 25.3.2007 kl. 01:14

7 Smámynd: Sigurður Ásbjörnsson

Kæra Agný

Heimurinn á það til að skreppa samann.  Á þessum árum bjuggu Kjartan og Hulda á Rauðkollsstöðum.  Sigurður og Hjalti frá Kolviðarnesi tóku við jörðinni af afa og ömmu.  Hvaðan ert þú Agný?

Sigurður Ásbjörnsson, 25.3.2007 kl. 02:08

8 Smámynd: www.zordis.com

Skemmtileg saga hjá þér!  Amma varð einu sinni"reið" í minningunni þá voru það litlu lömbin hennar sem brutu styttu ........

www.zordis.com, 25.3.2007 kl. 10:35

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Frábær frásögn, og lifandi.  Ég hló mikið við lesturinn  En ég skil samt ömmu vel.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 25.3.2007 kl. 12:18

10 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Óborganlega fyndin saga.

Svava frá Strandbergi , 26.3.2007 kl. 21:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband